Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 810  —  413. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979 (grunnlínupunktar og aðlægt belti).

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Matthías Geir Pálsson frá utanríkisráðuneyti. Engar umsagnir bárust um málið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Í fyrsta lagi er lagt til að hnitum á grunnlínu landhelgi Íslands verði breytt til samræmis við nýjar og nákvæmar mælingar. Í öðru lagi er kveðið á um að taka upp svokallað aðlægt belti sem 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna heimilar. Í þriðja lagi er lagt til að heiti laganna verði breytt til að endurspegla upptöku aðlægs beltis. Heiti laganna er nú lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, en verður samkvæmt frumvarpinu lög um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn.
    Í greinargerð með frumvarpinu segir að í 33. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sé ákvæði sem ber yfirskriftina „aðlægt belti“ og sé það talið endurspegla þjóðréttarlegar venjur um lögsögu strandríkja á slíku belti. Samkvæmt greininni er gert ráð fyrir að aðlæga beltið nái allt að 24 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar. Þrátt fyrir 200 mílna efnahagslögsögu hefur aðlæga beltið sjálfstæða þýðingu þar sem réttindi sem fylgja efnahagslögsögunni taka ekki til þeirra málaflokka sem fylgja aðlæga beltinu. Þótt aðlæga beltið feli ekki í sér eiginlega stækkun á yfirráðasvæði ríkisins þá mun það fjölga þeim málaflokkum sem ríkið hefði forræði yfir á svæðinu sem það tekur til. Er þar horft til þess að auka valdheimildir íslenska ríkisins í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða heilbrigðismálum. Loks er kveðið á um að brottnám muna sem eru fornleifafræðilegs og sögulegs eðlis af hafsbotni innan aðlæga beltisins án heimildar íslenskra stjórnvalda teljist vera brot á lögum og reglum sem um slíkt gilda á Íslandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Haraldsdóttir framsögumaður var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 18. maí 2017.

Jóna Sólveig Elínardóttir,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Ásta Guðrún Helgadóttir.
Birgir Ármannsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Teitur Björn Einarsson. Vilhjálmur Bjarnason.