Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 815  —  319. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um Alexandersflugvöll.


     1.      Hver er staða Alexandersflugvallar á Sauðárkróki í grunnneti samgangna og var haft samráð við heimamenn þegar stjórnvöld tóku ákvörðun um breytingar á stöðu hans?
    Samkvæmt þjónustusamningi innanríkisráðuneytis við Isavia er Alexandersflugvöllur nú flokkaður sem flugvöllur í þjónustuflokki C, þ.e. flugvöllur sem ekki er stundað reglubundið áætlunarflug á. Í þessum flokki eru 33 flugvellir og sem dæmi má nefna Bakka, Blönduós, Norðfjörð, Raufarhöfn, Selfoss, Stykkishólm, Þingeyri, Flúðir, Hellu, Húsafell o.fl. Flokkun sem flugvöllur í grunnneti er háð því að reglubundið áætlunarflug sé á flugvöllinn og var flokkun Alexandersflugvallar því breytt þegar áætlunarflug var lagt af, síðast árið 2013. Það áætlunarflug var síðasta árið styrkt sérstaklega af sveitarfélaginu.

     2.      Hvernig er þjónustustig Alexandersflugvallar nú skilgreint og hvaða reglur og áætlanir gilda þar um viðhald, aðstöðu, búnað, flug- og lendingaröryggi og viðbragðstíma gagnvart almennum lendingum og sjúkraflugi?
    Þjónustustig flugvallarins er formlega skilgreint sem „lendingarstaður“. Blindaðflug er skilgreint á flugvöllinn og þjónusta er veitt allt árið. Brautarljós eru til staðar á flugvellinum og ástand flugbrautar er ágætt. Viðbragðstími flugvallar er ein klukkustund að sumri og tvær klukkustundir að vetri.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




     3.      Hefur öryggisbúnaður og nauðsynlegur búnaður vegna lendinga á Alexandersflugvelli verið skertur á undanförnum árum og ef svo er, hvernig og hvers vegna?
    Isavia hefur dregið úr tækjabúnaði flugvallarins. Sá tækjabúnaður sem var á flugvellinum var kominn til ára sinna og hefur ekki verið endurnýjaður. Samningar eru til staðar við verktaka á svæðinu um snjóruðning og söndun flugbrautar og Isavia sér um þjálfun á starfsmönnum sem hafa full réttindi í turnþjónustu. Sama fyrirkomulag er á fleiri flugvöllum í innanlandskerfinu. Eins og sést að framan er opnun tryggð allt árið með mismunandi viðbragðstíma eftir árstíðum.

     4.      Hvert er viðhorf ráðherra til þess að Alexandersflugvöllur verði á ný tekinn í notkun sem virkur flugvöllur í samgönguneti landsmanna og hvernig telur ráðherra að heppilegast væri að stuðla að því?
    Með bættum vegasamgöngum verður áætlunarflug á Alexandersflugvöll aðeins rekið á markaðslegum forsendum líkt og gildir um Akureyri og Húsavík. Almenn forsenda fyrir ríkisstyrki í flugi er að skapa aðstæður til að hægt sé að nálgast nauðsynlega opinbera þjónustu á höfuðborgarsvæðinu með akstri eða samþættingu aksturs og flugs á innan við 3,5 klst. ferðatíma og gildir það t.d. um styrki til flugs frá Grímsey og Hornafirði. Hægt er að komast frá Sauðárkróki akandi og um Akureyrarflugvöll á um 3,5 klst. ferðatíma. Tilraunir sem hafa verið gerðar á rekstri áætlunarflugs á Alexandersflugvöll hafa ekki skilað nægilegum farþegafjölda og niðurstöður ítarlegrar könnunar sem gerð var í tengslum við félagshagfræðilega greiningu á áætlunarflugi innan lands haustið 2013 benti til þess að íbúar á áhrifasvæðinu kysu fremur að nýta aðra ferðamáta.

     5.      Hversu mörg sjúkraflug hafa farið um Alexandersflugvöll á undanförnum fjórum árum? Svar óskast sundurliðað eftir mánuðum og árum.
    Alls voru 22 skráð sjúkraflug frá Sauðárkróksflugvelli (BIKR) og 10 skráð sjúkraflug til Sauðárkróksflugvallar á tímabilinu 2013–2016 frá Reykjavíkurflugvelli (BIRK). Þar af voru 13 flug í forgangi 1 líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu. Flug frá Reykjavíkurflugvelli til Alexandersflugvallar voru öll utan eitt í forgangi 4, þ.e. verið var að flytja sjúklinga aftur til heimabyggðar eftir meðferð.

Dags. Forgangur Frá Til
Árið 2013
3.2.2013 F1 BIKR BIRK
9.3.2013 F1 BIKR BIRK
6.6.2013 F4 BIRK BIKR
14.6.2013 F4 BIRK BIKR
16.7.2013 F4 BIRK BIKR
24.8.2013 F1 BIKR BIRK
8.10.2013 F4 BIKR BIRK
17.10.2013 F4 BIRK BIKR
4.11.2013 F2 BIKR BIRK
Árið 2014
31.1.2014 F4 BIRK BIKR
14.2.2014 F1 BIKR BIRK
9.6.2014 F1 BIKR BIRK
28.7.2014 F1 BIKR BIRK
20.8.2014 F1 BIKR BIRK
27.8.2014 F3 BIKR BIRK
Árið 2015
30.1.2015 F4 BIRK BIKR
31.1.2015 F1 BIKR BIRK
13.2.2015 F4 BIRK BIKR
22.5.2015 F4 BIKR BIRK
16.8.2015 F3 BIKR BIRK
12.11.2015 F1 BIKR BIRK
26.12.2015 F1 BIKR BIRK
Árið 2016
24.2.2016 F4 BIRK BIKR
16.3.2016 F1 BIKR BIRK
29.3.2016 F3 BIKR BIBD
15.8.2016 F2 BIKR BIRK
16.8.2016 F1 BIKR BIRK
23.8.2016 F4 BIRK BIKR
25.9.2016 F2 BIKR BIRK
28.11.2016 F4 BIRK BIKR
1.12.2016 F2 BIKR BIRK
23.12.2016 F1 BIKR BIRK

     6.      Hversu oft á undanförnum fjórum árum var ekki unnt að nýta Alexandersflugvöll til sjúkraflugs, hverjar voru ástæður þess og hvert er viðhorf ráðherra til öryggishlutverks flugvallarins fyrir íbúa Sauðárkróks og nágrannabyggða?
    Á síðustu fjórum árum hefur fjórum sinnum orðið að hætta við lendingu sjúkraflugvélar á Sauðárkróki. Í þremur tilfellum var það vegna veðurskilyrða og í eitt skiptið var um að ræða bilun í búnaði sem hefur verið brugðist við.
    Fyrsta atvik á þessu tímabili var 3. 1. 2014. Mokað var fyrir sjúkraflug en mikið svell var undir snjónum þannig að ekki var hægt að ná upp nægum bremsuskilyrðum. Hætt var við að lenda.
    Annað atvikið var 23. 10. 2014. Bilun í gömlu flugvallartæki varð til þess að ekki var unnt að ryðja snjó af flugbraut og þurfti sjúkraflugvél að snúa frá. Þetta tilfelli var mjög umrætt á staðnum og voru í kjölfarið gerðir samningar við verktaka á svæðinu um þjónustu við flugvöllinn, en þeir eru með búnað til að ryðja og sandbera brautir.
    Þriðja atvikið var í vetur, þ.e. 26. 12. 2016. Þá var mjög hált á brautinni eftir snjómokstur og einnig var mjög hvasst og rigning. Ekki náðust upp nægilega góð bremsuskilyrði á flugbrautinni og því var ekki hægt að lenda. Klukkustund síðar voru bremsuskilyrðin orðin nægilega góð, en þá hafði flugvélin snúið annað. Slík tilfelli koma upp á fleiri stöðum þegar veðurskilyrði eru einfaldlega þannig að ekki næst að opna flugvöll á öruggan hátt.
    Fjórða atvikið var 26. 3. 2017. Mýflug reyndi að lenda á Sauðárkróki í mikilli snjókomu, en skyggni var ekki nægjanlega gott til að þeir teldu sig geta lent með nægilegu öryggi og því snéru þeir frá.
    Að gefnum forsendum er það mat ráðherra að þjónusta við flugvöllinn fullnægi öryggishlutverki hans fyrir íbúa á áhrifasvæði hans.