Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 816  —  348. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um endurbyggingu stofnleiða og lagningu bundins slitlags á tengivegi.


     1.      Hvenær telur ráðherra að lokið verði við endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og tengingu þeirra við þéttbýli, þar sem eru hundrað íbúar og fleiri, með bundnu slitlagi og viðunandi burðarþoli? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þeim framkvæmdum verði hraðað enn frekar og til þess veittir meiri fjármunir svo að það takist?
    Við undirbúning að tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026, sem lögð var fram á Alþingi haustið 2016 (145. löggjafarþing), gerði Vegagerðin gróft mat á kostnaði við að byggja vegakerfið upp í samræmi við nútímakröfur. Niðurstaðan var sú að stofnleiðir kostuðu rúma 200 milljarða kr., auk jarðganga sem kostuðu rúma 120 milljarða kr. Í þingsályktuninni var gert ráð fyrir að á áætlunartímabilinu yrði alls varið um 155 milljörðum kr. til stofnkostnaðar, þar af um 120 milljörðum kr. til stofnkostnaðar á stofnleiðum eða um 10 milljörðum kr. á ári. Út frá þessum tölum má álykta að það taki rúmlega 30 ár að byggja upp stofnleiðir vegakerfisins. Á árunum 2015 og 2016 varð niðurstaðan að verja um 8 milljörðum kr. hvort árið en í ár verður varið tæpum 9 milljörðum kr. til þessara verkefna.
    Verkefni sem tengja byggðir, atvinnu- og skólasóknarsvæði saman eru afar mikilvæg þegar byggðamál eru annars vegar. Fé til vegamála, sem og til annarra samgöngumála, hefur verið af skornum skammti undanfarin ár. Víða skortir fé til viðhalds og uppbyggingar. Alþingi hefur síðasta orðið um fjárveitingar til samgöngumála eins og til annarra málaflokka. Ráðherra mun beita sér fyrir því að þær fjárveitingar sem fyrir hendi eru nýtist sem best og eins að afla meira fjármagns til að auka brýnar framkvæmdir í samgöngumálum.

     2.      Hver er reynslan af átaks- og tilraunaverkefni Vegagerðarinnar við lagningu á bundnu slitlagi á vegi sem hafa viðunandi burðarþol þrátt fyrir að veghönnun sé að einhverju leyti ábótavant? Hve miklu fjármagni hefur verið varið til slíkra verkefna, á hvaða vegum og hve langar vegalengdir? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að meiri fjármunum verði varið í slík verkefni? Ef svo er, er óskað eftir sundurliðaðri áætlun þar um.
    Það er almennt mat Vegagerðarinnar að vel hafi tekist til þar sem lagt hefur verið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó veghönnun hafi verið ábótavant. Gætt hefur verið að því að öryggissvæði næst vegum hafi verið í samræmi við kröfur.
    Meðfylgjandi er tafla yfir þá vegi sem fengið hafa fjárveitingu undir liðnum tengivegir samkvæmt samgönguáætlun á árunum 2011–2016, ásamt áætlun fyrir árið 2017. Að meðtöldu árinu 2017 nemur fjárhæðin um 5,8 milljörðum kr. og framkvæmdir taka til um 212 km af vegum.
    Vegagerðin hefur lagt til að haldið verði áfram með þetta verkefni, en þeim vegarköflum fer fækkandi þar sem þessi aðferð á við um. Því má búast við að hver kílómetri vegar verði heldur dýrari í þeim áföngum sem næst verður ráðist í, en sundurliðuð áætlun liggur ekki fyrir nema fyrir árið 2017 eins og getið er um hér að framan.

Fylgiskjal.

Tengivegir – bundið slitlag: Skipting fjárveitinga 2011–2016 ásamt áætlun fyrir 2017.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.