Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 818  —  330. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni um hugsanlega hagsmuni ráðherra ríkisstjórnarinnar vegna ráðstafana í gjaldeyrismálum.


     1.      Hefur ráðherra kallað eftir upplýsingum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hugsanlega fjárhagslega hagsmuni þeirra og tengdra aðila vegna nýlegs samkomulags við eigendur aflandskróna og síðustu breytinga á reglum um fjármagnsflutninga?
    Reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja er að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005 og reglum Fjármálaeftirlits um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050/2012.
    Hugtakið innherjaupplýsingar er skilgreint í 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti en með því er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef þær væru opinberar.
    Nánari skilgreiningu á hugtakinu er að finna í reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Þar segir m.a. í 3. mgr. 2. gr. að innherjaupplýsingar sem væru líklegar til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast, yrðu þær gerðar opinberar, séu þær upplýsingar sem líkur eru á að upplýstur fjárfestir noti sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á.
    Þeim ráðherrum, sem og öðrum, sem búa yfir eða hafa aðgang að innherjaupplýsingum, er óheimilt að:
          nýta sér innherjaupplýsingar til viðskipta með fjármálagerninga beint eða óbeint,
          láta þriðja aðila í té innherjaupplýsingar nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starfsskyldur,
          ráðleggja þriðja aðila, t.d. fjölskyldu eða vinum, á grundvelli innherjaupplýsinga að stunda viðskipti með fjármálagerninga.
    Það er á ábyrgð ráðherra sjálfra að fara eftir þeim reglum sem gilda um meðferð innherjaupplýsinga er þeir fá slíkar upplýsingar í störfum sínum. Ekki hefur tíðkast að forsætisráðherra kalli sérstaklega eftir upplýsingum um hugsanlega hagsmuni ráðherra þegar slíkar upplýsingar koma fram í gögnum sem lögð eru fyrir ríkisstjórn og var það ekki gert í því tilviki sem vísað er til í fyrirspurninni heldur hvílir ábyrgðin af því misfara ekki með slíkar upplýsingar eins og áður segir á hverjum ráðherra fyrir sig. Á hinn bóginn er trúnaðarskylda ráðherra alla jafna áréttuð þegar mál eru tekin upp í ríkisstjórn sem innihalda viðkvæmar upplýsingar, eins og innherjaupplýsingar, og var það gert í því tilviki sem vísað er til í fyrirspurninni.

     2.      Hafa einhverjir ráðherrar upplýst innan ríkisstjórnar um fjárhagslega hagsmuni sína eða tengdra aðila vegna síðustu breytinga á reglum um fjármagnsflutninga?
    Nei.
     3.      Telur ráðherra ástæðu til að kalla eftir frekari upplýsingum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar um hugsanlegra fjárhagslegra hagsmuna?
    Forsætisráðherra hefur, með vísan til framangreindra laga og reglna, ekki talið ástæðu til að kalla eftir slíkum upplýsingum.