Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 839  —  481. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, og breytingalögum nr. 49/2016 (fjöldi hæstaréttardómara, meðferð ólokinna sakamála).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Sigríði Kristínu Axelsdóttur frá dómsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum um dómstóla, nr. 15/1998, á fjölda dómara í Hæstarétti. Lagt er til að ekki verði ráðið í embætti hæstaréttardómara sem losna á þessu ári, en þannig er komið til móts við það fyrirkomulag í nýsamþykktum lögum um dómstóla, nr. 50/2016, að fjöldi dómara við Hæstarétt skuli vera sjö.
    Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016, hvað varðar meðferð sakamála sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar en er enn ólokið 1. janúar 2018. Lagt er til að Landsréttur taki við þeim málum og ljúki meðferð þeirra. Með frumvarpinu er þannig létt af Hæstarétti meðferð sakamála sem er ólokið þegar Landsréttur tekur til starfa og stuðlað að jafnvægi á milli fjölda mála sem Hæstiréttur mun ljúka og fækkunar dómara í Hæstarétti.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um fyrirhugaðar breytingar á skipan dómstóla. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að meðan á undirbúningi stendur er nauðsynlegt að gera vissar lagabreytingar til að tryggja vandaða innleiðingu á nýrri dómstólaskipan og málsmeðferð á öllum dómstigum. Meiri hlutinn leggur því til tvær breytingartillögur við málið sem eru tæknilegs eðlis og fela í sér leiðréttingar á lögum um meðferð sakamála vegna nýrra dómstólalaga. Þá leggur meiri hlutinn einnig til breytingu á fyrirsögn frumvarpsins til að tryggja skýrleika.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 2. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (2. gr.)
                      Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
                      Í stað orðsins „Dómstólaráð“ í 3. mgr. 123. gr. laganna kemur: Dómstólasýslan.
                  b.      (3. gr.)
                      Við 59. gr. laganna bætist nýr liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 3. mgr. 202. gr. laganna kemur: Landsréttur.
     2.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, og lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, nr. 49/2016 (fjöldi hæstaréttardómara, meðferð ólokinna sakamála).

Alþingi, 19. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Nichole Leigh Mosty.
Vilhjálmur Árnason. Pawel Bartoszek. Iðunn Garðarsdóttir.