Ferill 463. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 840  —  463. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um greiðslur vegna fæðinga.


    Fæðingarorlofssjóður er í vörslu Vinnumálastofnunar sem í umboði félags- og jafnréttismálaráðherra, sbr. lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, annast greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á innlendum vinnumarkaði annars vegar og greiðslu fæðingarstyrkja úr ríkissjóði til foreldra utan vinnumarkaðar eða í fullu námi hins vegar.
    Þegar skoðuð er nýting foreldra á rétti þeirra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks, m.a. með tilliti til hámarks- og lágmarksgreiðslna, hafa tölulegar upplýsingar verið skoðaðar út frá fæðingarári barna en ekki greiðsluári. Helgast sú framkvæmd af þeirri tímalengd sem foreldrar hafa til að nýta rétt sinn til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrks. Í ljósi framangreinds eru tölulegar upplýsingar í svari þessu fyrir árin 2015 og 2016 bráðabirgðaupplýsingar. Endanlegar upplýsingar fyrir árið 2015 munu liggja fyrir um áramótin 2017/2018 auk þess sem endanlegar upplýsingar fyrir árið 2016 munu liggja fyrir um áramótin 2018/2019.
    Vakin er athygli á að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra á innlendum vinnumarkaði eru fjármagnaðar með tilteknum hluta af tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald, auk vaxta af innstæðufé sjóðsins. Jafnframt er vakin athygli á að samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof skulu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldris á tilteknu viðmiðunartímabil. Þrátt fyrir framangreinda meginreglu er í lögunum jafnframt kveðið á um lágmarksgreiðslu til foreldra auk þess sem kveðið er á um hámarksgreiðslu úr sjóðnum. Þá eru fæðingarstyrkir, annars vegar til foreldra utan vinnumarkaðar og hins vegar til foreldra í fullu námi, fastar fjárhæðir sem greiddar eru úr ríkissjóði en ekki úr Fæðingarorlofssjóði.

     1.      Hversu margir foreldrar fengu greitt fæðingarorlof annars vegar og fæðingarstyrk hins vegar á árunum 2012–2016? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári, kyni, tekjubili og tegundum fæðingarstyrkja.
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir fjölda foreldra sem nýtt hafa a.m.k. hluta réttar þeirra til fæðingarorlofs vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2012–2016 sundurliðað eftir mánaðarlegum viðmiðunartekjum foreldra á vinnumarkaði fyrir nýtingu á rétti þeirra til fæðingarorlofs.
    Þannig má sjá að árið 2012 höfðu flestir feður verið með 300.00–399.999 kr. viðmiðunartekjur á mánuði fyrir nýtingu á rétti til fæðingarorlofs eða 808 feður á meðan flestar mæður höfðu verið með 200.000–299.999 kr. viðmiðunartekjur á mánuði fyrir nýtingu á rétti til fæðingarorlofs eða 1.059 mæður. Á árinu 2016 höfðu hins vegar flestir feður verið með 500.000–749.999 kr. viðmiðunartekjur á mánuði fyrir nýtingu á rétti til fæðingarorlofs eða 863 feður á meðan flestar mæður höfðu verið með 200.000–299.999 kr. viðmiðunartekjur á mánuði fyrir nýtingu á rétti til fæðingarorlofs eða 813 mæður.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.
*Bráðabirgðatölur.

    Í töflu hér á eftir má sjá yfirlit yfir fjölda foreldra sem nýtt hafa a.m.k. hluta réttar þeirra til fæðingarstyrks vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2012–2016 sundurliðað eftir því hvort um er að ræða foreldra utan vinnumarkaðar eða foreldra í fullu námi. Það liggja ekki fyrir upplýsingar um tekjur þessa hóps enda fæðingarstyrkur föst fjárhæð án tillits til tekna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.
*Bráðabirgðatölur.

     2.      Hversu margir foreldrar fengu hámarksgreiðslu í fæðingarorlofi á framangreindu tímabili? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári og kyni.
    Í eftirfarandi töflu má sjá að vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2012 fengu 47,7% feðra hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á meðan 22,8% mæðra fengu hámarksgreiðslu úr sjóðnum á sama tíma. Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2012 nam 300.000 kr. á mánuði.
    Vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur árið 2016 hafa hins vegar 53,0% feðra fengið hámarsgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði á meðan 24,8% mæðra hafa fengið hámarksgreiðslu úr sjóðnum á sama tíma. Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofsjóði til foreldra vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar–14. október 2016 nam 370.000 kr. á mánuði en 500.000 kr. á mánuði vegna barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 15. október 2016 eða síðar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.
*Bráðabirgðatölur.

     3.      Hve margir foreldrar fengu hvorki greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði né greiddan fæðingarstyrk árin 2012–2016 og hvað olli því? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári og kyni.
    Ekki hefur verið gerð greining á aðstæðum þeirra sem hefur verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk en líklegt er að þeir foreldrar uppfylli ekki eitthvert þeirra skilyrða sem sett eru fyrir þessum greiðslum, svo sem þátttöku á vinnumarkaði á ávinnslutíma eða búsetu. Þess ber þó að geta að áhersla hefur verið lögð á að brúa bilið milli greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar og fæðingarstyrks hins vegar í þeim skilningi að tryggja að foreldrar sem uppfylla búsetuskilyrði falli ekki á milli þannig að þeir eigi hvorki rétt á fæðingarstyrk né greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Á þetta ekki síst við um foreldra sem eignast börn skömmu eftir að hafa hafið nám eða lokið námi en sérstaklega hefur verið litið til aðstæðna þeirra, sbr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Hið sama á við þegar foreldrar eru við það að ljúka námi þegar þeir eignast börn, sbr. 16. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

     4.      Hver hefði orðið kostnaður ríkisins af því að tryggja öllum framangreindum hópum ígildi lágmarkslauna á hverjum tíma? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum eftir ári og kyni.
    Í eftirfarandi töflum má sjá annars vegar hver raunútgjöld Fæðingarorlofssjóðs og fæðingarstyrkja hafa verið til foreldra barna sem fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árunum 2012–2016 og hins vegar hver útgjöldin hefðu orðið hefði verið miðað við að framangreindir foreldrar á hverjum tíma hefðu fengið ígildi lágmarkstekjutryggingar fyrir fullt starf fyrir 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði hjá sama atvinnurekanda. Þannig hefðu heildarútgjöld ársins 2012 vegna foreldra sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk orðið 516 millj. kr. lægri en þau voru í raun og heildarútgjöld vegna ársins 2016 vegna foreldra sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk hefðu orðið 242 millj. kr. lægri en raunútgjöld. Í því sambandi ber þó að ítreka að endanlegar upplýsingar vegna ársins 2016 munu ekki liggja fyrir fyrr en um áramótin 2018/2019.
    Þá hefðu heildarútgjöld tímabilsins 2012–2016 vegna foreldra sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk orðið 2.649 millj. kr. lægri en raunútgjöld hefðu allir foreldrar sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk á því tímabili fengið greitt ígildi lágmarkstryggingar fyrir fullt starf.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.
*Bráðabirgðatölur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.
*Bráðabirgðatölur.