Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 876  —  339. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um öryggismál í Hvalfjarðargöngum og við þau.


     1.      Hvaða reglur gilda um öryggismál í Hvalfjarðargöngum, svo sem varðandi lýsingu, vegmerkingar og loftræstingu? Eru þessar reglur aðgengilegar almenningi, hver ber ábyrgð á framkvæmd umferðar- og öryggismála í Hvalfjarðargöngum og hver hefur eftirlit með þeim?
    Í gildi er reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, nr. 992/2007. Hana má finna á vef Stjórnartíðinda: www.stjornartidindi.is/.
    Við útfærslu á ýmsum tæknilegum atriðum er notaður norskur jarðgangastaðall Handbok N500 Vegtunneler sem finna má á vefnum: www.vegvesen.no/_attachment/61913. Staðallinn er notaður við útfærslu atriða eins og t.d. lýsingar og loftræstingar.
    Reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng nr. 992/2007 og norski staðallinn eru opinber gögn. Jarðgöng og búnaður þeirra er nokkuð flókinn og að hluta til ekki auðvelt fyrir leikmenn að lesa skjöl sem þessi. Spölur ber ábygð á framkvæmd umferðar- og öryggismála. Vegagerðin hefur eftirlit með öryggismálum í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar.

     2.      Hvernig er í aðalatriðum verka- og hlutverkaskipting Vegagerðarinnar og þjónustuaðila við rekstur og viðhald Hvalfjarðarganga?
    Spölur hf. á göngin og sér um daglegan rekstur þeirra. Fyrirtækið ber þar með ábyrgð á því að hafa eftirlit með búnaði ganganna og sjá til þess að hann sé í lagi. Vegagerðin kemur ekki að rekstri ganganna. Um hlutverk Vegagerðarinnar er fjallað um í lögum nr. 120/2012 þar sem segir m.a. að Vegagerðin skuli hafa samvinnu og samráð við þá aðila, félög, samtök og stofnanir sem tengjast starfsemi hennar.

     3.      Er ráðherra kunnugt um kvartanir vegfarenda yfir lélegu ástandi vegmerkinga í Hvalfjarðargöngum, skorti á lýsingu og loftræstingu og aðrar ábendingar um öryggisþætti sem þyrftu úrbóta við og hver er afstaða ráðherra til þessa?
    Lokið var við að yfirfara og lagfæra vegmerkingar árið 2012. Þær eru nú taldar fullnægjandi. Lýsing var endurbætt árið 2011. Hún var síðan mæld og tekin út árið 2012. Lýsingin stóðst þá allar kröfur. Það er þó þannig að lýsing í meginhluta ganganna er „frekar lítil“ miðað við algenga götulýsingu. Ekki eru til gögn um að aukin lýsing í göngum minnki slysahættu. Samkvæmt úttekt á loftræstingu sem gerð var árið 2009 var hún talin vera í samræmi við kröfur. Loftræsing stýrist af mengunarnemum sem skynja lofttegundirnar CO2 og NO x. Þeir sem reka göngin geta jafnframt stjórnað blæstri loftræstikerfisins og aukið loftræstingu þegar mengun fer vaxandi vegna aukinnar umferðar.
    Þegar nemar í loftræstikerfi skynja mengun fer blástursbúnaður í gang og mengunin er ræst út. Vegfarendur sjá ryk og finna lykt af útblæstri nokkuð löngu áður en nemar skynja hana og að hún nær viðmiðunarmörkum fyrir loftræstun. Það er því nokkur munur á skaðlegri mengun annars vegar og sjáanlegri mengun hins vegar.
     4.      Hver er veghaldari Hvalfjarðarganga og hver er staða ganganna í vegaskrá, sbr. 7. gr. vegalaga, nr. 80/2007?
    Veghaldari ganganna er Spölur samkvæmt sérstökum lögum, nr. 45/1990, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Eins og fram kemur í lögunum eru göngin hluti þjóðvegakerfisins.

     5.      Á hve löngum kafla Vesturlandsvegar, frá Þingvallavegamótum að Borgarnesi, er óbrotin miðlína þannig að framúrakstur er bannaður og hve stór hluti er það af heildarvegalengdinni milli þessara staða, að Hvalfjarðargöngum frátöldum?
    Kaflinn frá Þingvallavegi að Borgarnesi er 57,2 km, þar af eru Hvalfjarðargöng 5,8 km. Kaflinn án ganganna er því 51,5 km. Miðað við skiptingu línugerða er heil lína 9,8 km og framúrakstur því bannaður beggja vegna. Til viðbótar er heil lína við hlið brotinnar línu á jafnlöngum kafla og framúrakstur því óheimill öðru megin á 9,8 km kafla.