Ferill 268. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 877  —  268. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um stefnu ríkisstjórnarinnar í raforkumálum.


     1.      Hverjar eru líkur þess, miðað við núverandi stefnumótun í orkusölumálum, að stýra þurfi orkusölu með kerfisbundnum hætti á ákveðna staði þannig að jafnvel verði rafmagnslaust á einhverjum svæðum? Óskað er upplýsinga um hvaða svæði landsins ráðherra telur að verði fyrir þeim búsifjum.
    Í skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um raforkumálefni, sem lögð var fram á Alþingi 4. apríl 2016 (644. mál), var vakin athygli á því að eftirspurn eftir raforku er orðin meiri en framboð og að óbreyttu mun sá munur vaxa á næstu árum samkvæmt orkuspá Orkuspárnefndar. Ekki liggur fyrir greining á þeirri stöðu eftir landsvæðum eða áætlun um stýringu á orkusölu með kerfisbundnum hætti á ákveðna staði. Í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022, sem lögð var fram á Alþingi 31. mars 2017, er í kafla um orkumálefni fjallað um núverandi stöðu varðandi framboð og eftirspurn raforku og sett það markmið til næstu fimm ára að tryggt verði jafnvægi í framboði og eftirspurn á almennum raforkumarkaði og þar með orkuöryggi.

     2.      Til hvaða ákvarðana hyggst ráðherra grípa til að tryggja gegnsæi á heildsölumarkaði með raforku? Svarið óskast rökstutt með tilliti til skilgreininga á gegnsæi á neytendamörkuðum.
    Í undirbúningi er skipan starfshóps sem falið verður að koma með tillögur að breytingu á raforkulögum þar sem orkuöryggi á heildsölumarkaði raforku er tryggt og skýrð ábyrgð og hlutverk aðila á þeim markaði. Í þessu skyni þarf að kortleggja heildsölumarkaðinn og hvaða vankantar eru á honum. Starfshópurinn hefur störf á næstu vikum og skoðar að hvaða leyti hægt sé að betrumbæta fyrirkomulag þess raforkumarkaðar sem sett var upp með raforkulögunum 2003, með hliðsjón af þeirri stöðu sem nú er uppi. Ráðgert er að tillögur frá starfshópnum liggi fyrir um mitt ár 2018 og í framhaldi af því verði frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum lagt fram á Alþingi á haustþingi 2018.

     3.      Hver eru áform ráðherra um lagningu sæstrengs milli Íslands og annarra landa? Telur ráðherra að íslenskir aðilar ættu að vera meirihlutaeigendur að strengnum og ef svo er, hvernig hyggst ráðherra tryggja það?
    Verkefnisstjórn sæstrengs skilaði í júlí 2016 lokaskýrslum til þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra vegna skoðunar á lagningu sæstrengs til Bretlands. Meðal þess sem þær skýrslur fela í sér er heildstæð kostnaðar- og ábatagreining og mat á áhrifum sæstrengs á efnahag, heimili og atvinnulíf, kortlagning á eftirspurn eftir raforku næstu árin, raforkuþörf sæstrengs og hvernig mæta eigi henni, mat á afgangsorku, áhrif á flutningskerfi raforku, ýmis tæknileg atriði, mat á nýtingu jarða og rekstri smærri virkjana, umhverfisáhrif, þróun orkustefnu Evrópusambandsins og reynsla Noregs. Jafnframt skilaði verkefnisstjórnin sérstakri skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands, en þær viðræður hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna í október 2015.
    Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvort lagning sæstrengs sé fýsilegur kostur fyrir Ísland eða ekki og ljóst er að frekari upplýsinga og greininga þarf að afla. Á það er m.a. bent í framangreindum skýrslum. Af hálfu stjórnvalda er verið að vinna áfram að skoðun málsins og huga að næstu skrefum með það að markmiði að fá fram sem bestar upplýsinga til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun, þegar þar að kemur, um hvort skynsamlegt sé að fara í lagningu sæstrengs.

     4.      Getur komið til þess að mati ráðherra að á næstu árum verði raforka til heimila og minni fyrirtækja að einhverju marki framleidd með olíu þar sem ekki verði tryggt nægilegt framboð af umhverfisvænni orku hér á landi? Svarið óskast rökstutt með vísan til fyrirliggjandi áætlana og stefnumörkunar.
    Í framangreindri tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er vakin athygli á því að ójafnvægi er í eftirspurn og framboði á raforku. Eru þar lagðar fram aðgerðir sem miða að því að bæta það jafnvægi til lengri tíma. Einnig er í undirbúningi gerð heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland þar sem m.a. verður lögð áhersla á orkuöryggi, kosti endurnýjanlegrar orkuvinnslu og að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands verði aukið. Raforkuframleiðsla með olíu fellur almennt séð ekki að slíkri stefnumörkun.

     5.      Hverjar eru líkurnar á kerfishruni á heildsölumarkaði með raforku að mati ráðherra? Svarið óskast rökstutt með vísan til fyrirliggjandi áætlana og stefnumörkunar.
    Ekki hefur verið unnið mat á líkum á kerfishruni á heildsölumarkaði með raforku. Er það eitt af þeim atriðum sem framangreindur starfshópur um orkuöryggi á heildsölumarkaði mun taka til nánari skoðunar.

     6.      Er til orkustefna? Ef svo er ekki, hvenær er hennar að vænta?
    Boðað hefur verið að unnið verði að gerð heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar. Undirbúningur er hafinn að þeirri vinnu og er gert ráð fyrir að drög að slíkri orkustefnu liggi fyrir um mitt ár 2018.