Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 878  —  450. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bessí Jóhannsdóttur um ávinning af styttingu framhaldsskóla.


     1.      Hver er áætlaður fjárhagslegur ávinningur af styttingu framhaldsskólanna á ári eftir að styttingin hefur komið til framkvæmdar?
    Gert ráð fyrir að nokkurt hagræði verði af styttingu náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú ár og að það nýtist til að styrkja rekstrargrundvöll framhaldsskóla. Þetta hagræði hefur verið metið á um 2 milljarða kr., auk ýmissa efnahagslegra áhrifa sem fjallað er um í skýrslu Hagfræðistofnunar sem gefin var út í október 2015. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjárhagslegum ávinningi af styttingunni fyrir ríkissjóð í formi lægri framlaga til reksturs framhaldsskóla.

     2.      Munu skólarnir njóta þessa ávinnings til eflingar innra starfs, og þá einkum þjónustu við nemendur?
    Í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigs verði nær óbreytt árið 2018 að raungildi en lækki lítillega eftir það, eða um 0,6% árlega sem svarar til 630 millj. kr. samtals á árunum 2018–2022, sem skýrist af áformum um hagræðingu í ríkisrekstri. Þar er um að ræða 2% aðhaldskröfu. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að í kjölfar styttingarinnar fækki nemendum í þeim mæli að þrátt fyrir lækkun á framlögum til framhaldsskólastigsins aukist útgjöld á hvern nemenda um sem nemur 3–5% á ári að raunvirði.

     3.      Hvert er árlegt framlag til nemenda framhaldsskólanna árin 2009–2017?
    Eftirfarandi tafla sýnir meðalframlag á ársnemanda í framhaldsskólum árin 2009–2017, annars vegar á verðlagi hvers árs og hins vegar á verðlagi ársins 2017.

Framlag á ársnema á verðlagi hvers árs Framlag á ársnema á verðlagi ársins 2017
2009 751 1.164
2010 773 1.171
2011 731 1.053
2012 790 1.056
2013 831 1.060
2014 862 1.042
2015 1.091 1.242
2016 1.217 1.252
2017 1.315 1.315

     4.      Er uppi áætlun um að stytta enn frekar nám til stúdentsprófs og skapa meiri samfellu milli skólastiga?
    Stytting náms til stúdentsprófs umfram það sem þegar hefur komið til framkvæmda er ekki áformuð. Sem fyrr er leiðum þó ekki lokað. Nemendur sem þess óska eiga þannig möguleika á að ljúka námi á skemmri tíma en almennt gerist. Samræmd próf í 9. bekk skapa skilyrði fyrir bráðgera nemendur til að hefja framhaldsskólanám fyrr þótt það sé ekki megintilgangur þeirra.
    Útfærsla nýrrar námskrár til stúdentsprófs gefur tilefni til að ætla að þegar fram í sækir útskrifist nemendur með stúdentspróf að jafnaði á bilinu 18–20 ára.