Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 880  —  382. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Nichole Leigh Mosty um brottfall nemenda af erlendum uppruna úr framhaldsskóla.


     1.      Hversu margir nemendur af erlendum uppruna:
                  a.      innrituðust í framhaldsskóla,
                  b.      útskrifuðust úr framhaldsskóla,
        á árunum 2010–2016 sundurliðað eftir kynjum og skólum?

    Við undirbúning að svari við þessari fyrirspurn leitaði ráðuneytið fanga í Innu sem er upplýsingakerfi framhaldsskólanna, í gögnum Hagstofu Íslands og hjá Fjölmenningarsetri. Ráðuneytið hefur ekki í sínum fórum upplýsingar umfram þetta og byggir svarið á fyrirliggjandi gögnum frá framangreindum aðilum.
    Þær upplýsingar sem liggja fyrir um a- og b-lið þessa liðar fyrirspurnarinnar má finna í töflu 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: Hagstofa Íslands 2017.

    Upplýsingakerfi framhaldsskólanna, Inna, sem skráir námsferil nemenda hefur ekki að geyma skráningu á uppruna nemenda, en Hagstofa Íslands vann upplýsingar um brautskráningarhlutfall nemenda á framhaldsskólastigi eftir uppruna, árin 1995–2011, þar sem nemendur eru flokkaðir í samræmi við skráningu í þjóðskrá. Tafla 1 er unnin úr töflu á vef Hagstofunnar og sýnir nemendur eftir uppruna og kyni, sem innrituðust sem nýnemar í framhaldsskóla 2004 og brautskráðust fjórum og sjö árum síðar, árin 2008 og 2011. Ekki er hægt að greina upplýsingarnar eftir skólum.
    Ekki liggja fyrir nýrri upplýsingar frá Hagstofu Íslands, þar sem hægt er að sjá fjölda og hlutfall nemenda af innritunarárgangi sem ljúka námi eða hverfa frá námi eftir tiltekinn tíma. Hagstofan er að vinna að uppfærslu á þessum upplýsingum sem byggjast á nýrri gögnum.
    Eins og sjá má í töflu 1 höfðu 45% nemenda með engan erlendan bakgrunn brautskráðst eftir fjögur ár, en 26% nemenda sem skráðir eru sem innflytjendur.
    Árið 2015 lét Fjölmenningarsetur vinna upplýsingar um nemendur af erlendum uppruna sem teljast innflytjendur „með það fyrir augum að afla upplýsinga um afdrif þeirra innan framhaldsskólakerfisins“. Þetta var svo endurtekið ári síðar og niðurstöður birtar í skýrslunni „Tölfræðilegar upplýsingar um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi“. Þar kemur fram að árið 2010 „innrituðust 382 einstaklingar, 70 útskrifuðust á 4 árum eða minna og 16 höfðu útskrifast eftir 6 ár (INNA – gagnasafn, 2016). Alls höfðu þá 22% þeirra einstaklinga af erlendum uppruna sem innrituðust í framhaldsskóla úr 2010 innritunarárganginum náð að útskrifast.“

     2.      Eftir hve langan tíma að meðaltali hætta námi þeir nemendur af erlendum uppruna sem útskrifast ekki úr framhaldsskóla?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um brottfall nemenda eftir uppruna fyrstu ár skólagöngunnar, en tafla 2 er unnin úr töflu á vef Hagstofu Íslands um brautskráningarhlutfall og brottfall af framhaldsskólastigi eftir uppruna árin 1995–2011. Tafla 2 sýnir nemendur eftir uppruna og kyni sem innrituðust sem nýnemar í framhaldsskóla 2004 og fjölda og hlutfall þeirra sem höfðu hætt námi fjórum og sjö árum síðar, árin 2008 og 2011.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Heimild: Hagstofa Íslands 2017.

    Eins og sjá má í töflu 2 höfðu 26% nemenda með engan erlendan bakgrunn hætt námi eftir fjögur ár, en 62% nemenda sem skráðir eru sem innflytjendur.