Ferill 357. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 882  —  357. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur um framlög til menningarsamningsins við Akureyrarbæ.


     1.      Hvernig hafa framlög ráðuneytisins til menningarsamningsins við Akureyri þróast á síðustu tíu árum miðað við framlög til stofnana á höfuðborgarsvæðinu sem eru sambærilegar þeim sem annast verkefni samningsins norðan heiða?
    Ríkissjóður ber ábyrgð á ríkisstofnunum og sveitarfélög bera ábyrgð á sínum stofnunum. Rétt er að hafa þetta í huga þegar verið er að bera saman framlög ríkisins til ríkisstofnana og stuðning ríkisins til einstakra verkefna. Annars vegar er um að ræða framlög ríkisins til ríkisstofnana sem það ber ábyrgð á og starfa samkvæmt lögum. Framlag úr ríkissjóði getur verið mismunandi frá ári til árs og hækkað eða lækkað eftir sérverkefnum, viðhaldi, endurnýjun tækja eða öðru. Hins vegar er um að ræða styrki úr ríkissjóði til verkefna sem ekki eru lögbundin né á ábyrgð ríkisins og er samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis við Akureyrarbæ um ráðstöfun rekstrarframlags til menningarmála dæmi um slíkan styrk.
    Í tilefni af fyrirspurninni tók ráðuneytið saman upplýsingar um framlög úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum til samnings við Akureyrarbæ um menningarmál, Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listasafns Íslands. Framlögin eru á verðlagi hvers árs eins og þau birtast í fjárlögum og má sjá þau í töflunni hér á eftir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sjá má á töflunni eru framlög ríkissjóðs til samningsins við Akureyrarbæ rúmlega 90% hærri árið 2017 en þau voru árið 2007 miðað við framlög í fjárlögum hvers árs. Sama er um framlög til Listasafns Íslands meðan framlög til Þjóðleikhússins eru rúmlega 75% hærri og framlög til Sinfóníuhljómsveitar Íslands um 120% hærri.
    Ef framlög til samningsins við Akureyrarbæ og framlög til fyrrgreindra stofnana eru færð á verðlag ársins 2017 er niðurstaðan eftirfarandi:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og sjá má eru framlög til samningsins við Akureyrarbæ rúmlega 16% hærri 2017 en þau voru árið 2007 og um 17% hærri hjá Listasafni Íslands, tæplega 7% hærri hjá Þjóðleikhúsinu og um 33% hærri hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

     2.      Telur ráðherra að endurskoða þurfi framlög til samningsins með tilliti til þess hvað það kostar Leikfélag Akureyrar að setja upp leiksýningar sem félagið er skuldbundið til samkvæmt menningarsamningi ráðuneytisins við Akureyrarbæ?
    Í hartnær 20 ár hefur ráðuneytið verið í samningssambandi við Akureyrarbæ um rekstur menningarstofnana í atvinnuskyni á Akureyri. Meginmarkmiðin hafa frá upphafi verið að efla hlutverk Akureyrarbæjar í lista- og menningarlífi landsins með stuðningi við meginstofnanir á sviði leiklistar, myndlistar og tónlistar þannig að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins, með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á sviði lista. Verkefnin eru að efla starfsemi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Listasafns Akureyrar og nú einnig menningarhússins Hofs. Núgildandi samningur við Akureyrarbæ er til ársloka og verður farið í viðræður síðar á árinu við fulltrúa Akureyrarbæjar um endurnýjun samstarfsins.
    Akureyrarbær ákveður og ber ábyrgð á skiptingu framlaga og gerð samninga við fyrrgreind félög og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Mennta- og menningarmálráðuneyti kemur hvorki að þeirri ákvörðun né samningsgerð. Undir þeirri ábyrgð hefur bæjarfélagið staðið frá upphafi þrátt fyrir að Leikfélag Akureyrar hafi reglulega átt í miklum fjárhagsvandræðum sem er vissulega nú sem fyrr áhyggjuefni.
    Ráðuneytinu er kunnugt um ályktun aðalfundar LA frá síðasta ári þar sem skorað er á mennta- og menningarmálaráðherra að bæta úr þeirri fjárhagslegu spennitreyju sem atvinnustarfsemi í sviðslistum á Akureyri hefur verið haldið í undanfarin ár. Einnig hefur ráðuneytið nýlega átt samtal við fulltrúa Leikfélags Akureyrar og Menningarfélags Akureyrar, þar sem þau greindu frá að þriggja ára samningi Akureyrarbæjar við Menningarfélagið ljúki um næstu áramót. Ráðuneytið væntir þess að aðilar endurnýi samninga sín á milli að þeim tíma loknum.
    Ráðuneytið mun halda áfram að knýja á um að framlög ríkisins til fastra styrktarsamninga eins og samning ráðuneytisins við Akureyrarbæ verði verðbættir með sambærilegum hætti og gert er gagnvart ríkisstofnunum.