Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 888  —  575. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um náttúrugjöld.

Flm.: Sigurður Ingi Jóhannsson, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


1. gr.
Markmið.
    

    Markmið laga þessara er að afla tekna til að vernda náttúru landsins og tryggja öryggi ferðamanna. Jafnframt að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða.
    Náttúrugjöld samkvæmt lögum þessum eru farmiðaskattur skv. 2. gr. og gistináttaskattur skv. 3. gr.

2. gr.
Farmiðaskattur.
    

    Greiða skal í ríkissjóð farmiðaskatt fyrir hvern farþega um borð í flugförum og farþegaskipum, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Farmiðaskattur skal innheimtur samkvæmt eftirfarandi gjaldbilum 1. maí til 30. september ár hvert eftir vegalengd þeirrar ferðar sem farin er.

Lengd ferðar. Fjárhæð.
0–1.000 km 150 kr. á hvern farþega
1.001–3.000 km 1.500 kr. á hvern farþega
3.001 km og meira 2.500 kr. á hvern farþega

    Frá 1. október til 30. apríl ár hvert nemur skatturinn 50% af fjárhæð skv. 2. mgr.
    Farmiðaskatt skv. 2. mgr. skal ekki innheimta í millilandaflugi þegar lendingarstaður er Akureyrarflugvöllur eða Egilsstaðaflugvöllur.

3. gr.
Gistináttaskattur.

    Greiða skal í ríkissjóð gistináttaskatt af hverri seldri gistinótt eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.
    Gistináttaskattur nemur 3% af verði seldrar gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring þar sem dvalist er yfir nótt. Með gistiaðstöðu er átt við húsnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt, svefnaðstaða sé fyrir hendi eða hægt að koma henni fyrir og leigan sé almennt til skemmri tíma en eins mánaðar, svo sem hús, skip, íbúðir og herbergi, þar með talið herbergi á hótelum og gistiheimilum, sem og tjaldstæði og stæði fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi.
    Sveitarfélögum er heimilt að leggja á allt að 5% gistináttaskatt af verði seldrar gistiaðstöðu, sbr. 2. mgr., sbr. ákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Ríkisskattsstjóri annast álagningu gistináttagjaldsins og skal 50% tekna gjaldsins renna beint til þess sveitarfélags þar sem seld gistinótt er.

4. gr.
Undanþágur.

    Undanþegin 2. gr. og 3. gr. eru börn undir 12 ára aldri, áhafnir loftfara og farþegaskipa, þeir sem viðkomu hafa á millilandaflugvelli samkvæmt farseðli eða ígildi hans milli annarra Evrópulanda og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum eða skipum á vegum herafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. Einnig eru undanþegnir farmiðaskatti skv. 2. gr. farþegar með ferjum og flóabátum í áætlunarferðum enda komi ferjan í stað þjóðvegasambands og rekstur hennar njóti styrks samkvæmt vegalögum, nr. 80/2007.

5. gr.
Gjaldskyldir aðilar.

    Þeir sem í atvinnuskyni flytja farþega með loftförum eða farþegaskipum innan lands eða frá Íslandi til annarra landa skulu standa skil á farmiðaskatti skv. 2. gr. og skulu þeir ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um starfsemi sína áður en hún hefst.
    Þeir sem selja gistingu á gististöðum skv. 3. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og leyfisskyldir eru skv. 7. gr. sömu laga, skulu innheimta og standa skil á gistináttaskatti skv. 3. gr.
    Undanþegnir skattskyldu skv. 1. og 2. mgr. eru þeir sem uppfylla skilyrði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir þá aðila falla undir 2. mgr., sbr. 3. mgr. 6. gr.

6. gr.
Álagning og innheimta farmiðaskatts fyrir farþega um borð í farþegaskipi.

    Tollstjóri skal innheimta farmiðaskatt fyrir farþega sem ferðast frá landinu með farþegaskipi við komu farþegaskips til hafnar miðað við þá vegalengd sem skipið á eftir að sigla til næstu hafnar samkvæmt áætlun skipsins og fjölda farþega.
    Ef farþegaskip í millilandaförum hefur hér viðkomu í fleiri en einni höfn er heimilt að gera upp allt gjaldið í fyrstu höfn og miða skattskil við áætlun skipsins.
    Ríkisskattstjóri annast álagningu farmiðaskatts fyrir farþega sem ferðast með farþegaskipum í reglubundnum áætlunarferðum innan lands. Rekstraraðilar farþegaskipa í reglubundnum áætlunarferðum innan lands skulu ótilkvaddir skila skýrslu, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Farmiðaskatti skal skila til ríkissjóðs eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi til næsta virka dags á eftir.

7. gr.
Innheimta farmiðaskatts fyrir farþega um borð í loftfari.

    Fyrir farþega sem ferðast með loftfari innan lands eða frá Íslandi til annarra landa skal farmiðaskattur innheimtur við brottför flugfars.
    Farmiðaskatt fyrir farþega sem ferðast með loftförum sem skráð eru erlendis og loftförum sem ekki er flogið á áætlunarleiðum skal greiða rekstraraðilum flugvallar fyrir brottför loftfars.
    Farmiðaskatt fyrir farþega sem ferðast með áætlunarflugi á viðurkenndum áætlunarleiðum skal greiða rekstraraðilum flugvallar eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
    Rekstraraðilar flugvalla skulu 10. hvers mánaðar skila innheimtumanni ríkissjóðs greiddum farmiðasköttum fyrir mánuðinn á undan ásamt skýrslu yfir fjölda farþega í þeim mánuði.

8. gr.
Álagning gistináttaskatts.

    Þeir sem eru skattskyldir eru skv. 2. mgr. 5. gr. skulu tilkynna ríkisskattstjóra um starfsemi sína.
    Ríkisskattstjóri annast álagningu gistináttaskatts skv. 3. gr. Gjaldskyldir aðilar skulu greiða gistináttaskatt fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við fjölda seldra gistinátta.
    Uppgjörstímabil gistináttaskatts skal vera tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember. Gjalddagi er fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist hann yfir á næsta virka dag á eftir. Eigi síðar en á gjalddaga skulu gjaldskyldir aðilar, sem eru á skrá skv. 4. mgr. 5. gr., ótilkvaddir skila innheimtumanni ríkissjóðs skýrslu yfir fjölda gistinátta á uppgjörstímabilinu og standa skil á greiðslu gjaldsins.
    Skýrslur um gistináttaskatt skulu vera á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

9. gr.
Viðurlög.

    Sé farmiða- eða gistináttaskatti ekki skilað á réttum tíma skal álag vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Sé farmiða- eða gistináttaskatti ekki skilað innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er.
    Heimilt er innheimtumanni að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur þess er eigi gerir skil á réttum gjalddaga þar til skil eru gerð, m.a. með því að setja skrifstofur, starfsstöðvar, gistirými og flutningstæki hans undir innsigli.

10. gr.
Ýmis ákvæði.

    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um álagningu, innheimtu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd varðandi farmiða- eða gistináttaskatt skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

11. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara, svo sem nánari ákvæði um greiðslustaði, greiðslufyrirkomulag, efni skýrslu, og ákvörðun siglingar- og flugvegalengda.


12. gr.
Gildistaka og endurskoðun.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2017. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um gistináttaskatt, nr. 87/2011.
    Hefja skal endurskoðun laga þessara eigi síðar en 1. mars 2020.

13. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995:
     1.      Við 1. gr. laganna bætist nýr stafliður, c-liður, svohljóðandi: Gistináttaskattur.
     2.      Á eftir 31. gr. laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Um gistináttaskatt sveitarfélaga, með tveimur nýjum greinum, 31. gr. a og 31. gr. b, svohljóðandi:

             a. (31. gr. a.)
             Sveitarfélagi er heimilt að leggja gistináttaskatt á sölu gistiaðstöðu og skulu tekjur af innheimtu hans stuðla að vernd náttúru landsins, uppbyggingu og viðhaldi innviða og þjónustu í þéttbýli og tryggja öryggi ferðamanna.
             Gistináttaskattur nemur allt að 5% af verði seldrar gistiaðstöðu, sbr. 3. gr. laga um náttúrugjöld.
              Um innheimtu, álagningu og viðurlög fer samkvæmt lögum um náttúrugjöld.

             b. (31. gr. b.)
             Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd álagningar gistináttaskatts sveitarfélaga.

Greinargerð.

    Markmið frumvarps þessa er að afla tekna til að vernda náttúru Íslands og einnig að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða. Jafnframt er markmið frumvarpsins að afla tekna til þess að tryggja öryggi ferðamanna.
    Eftirfarandi atriði búa að baki því að frumvarpið er lagt fram:
    Flutningsmenn telja brýnt að tryggja að tekjur ríkissjóðs geti staðið undir rekstri og verkefnum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Gert er ráð fyrir því, verði frumvarpið að lögum, að tekna verði aflað af ferðamönnum. Með auknum fjölda þeirra fellur til ýmiss kostnaður hér á landi og álag eykst á innviði eins og á löggæslu, heilbrigðisþjónustu, björgunarsveitir og vegi.
    Flutningsmenn telja einnig brýnt að sveitarfélög landsins fái hlutdeild í þeim tekjum sem verða innheimtar á grundvelli laganna svo að þau geti byggt upp í heimabyggð og sinnt viðhaldi og ekki síst ráðstafað fjármagni til að vernda náttúruna.
    Þá er um efnahagslega aðgerð að ræða og miðar hún að því að ferðaþjónustan standi undir kostnaði sem hlýst af uppbyggingu í hennar þágu og þá með sambærilegum hætti og aðrar atvinnugreinar og aðrir skattskyldir aðilar.
     Flutningsmenn telja þá leið sem felst í frumvarpinu skynsamlegri heldur en að færa virðisaukaskatt á gistingu í efra þrep líkt og stjórnvöld hafa lagt til. Með frumvarpinu er lagt til að í náttúrugjaldi felist annars vegar gjald á farmiða og hins vegar á gistiþjónustu. Flutningsmenn leggja til að farin verði blönduð leið gistináttaskatts og farmiðaskatts sem er í samræmi við það sem kom fram í skýrslu nefndar um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu til fjármálaráðherra frá 16. mars 2010.
    Lagt er til að sveitarfélög fái einnig heimild til að leggja á gistináttaskatt í sínu umdæmi.
    Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um markmið frumvarpsins, sem er að afla tekna til að vernda náttúru landsins og tryggja öryggi ferðamanna. Jafnframt að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða.
    Í 2. gr. er lagt til að greiða skuli í ríkisjóð skatt á farmiða fyrir farþega um borð í flugförum og farþegaskipum. Kveðið er á um ákveðna fjárhæð á farmiða miðað við lengd ferðar. Lagt er til að gjaldið sé hærra tiltekinn tíma ársins, þ.e. frá maí til september. Með því verður unnt að mati flutningsmanna að dreifa ferðamönnum betur eftir árstíma en nú er. Einnig er lagt til að skatturinn leggist ekki á farmiða í loftfari ef lendingarstaður þess er Akureyrarflugvöllur eða Egilsstaðaflugvöllur.
    Í 3. gr. er lagt til að gistináttaskattur verði lagður á sem hlutfall af verði gistingar en samkvæmt gildandi lögum er skatturinn föst krónutala.
    Þá er í 4. gr. kveðið á um undanþágur frá 2. og 3. gr. sem á við um börn yngri en 12 ára og áhafnir á loftförum eða skipum. Jafnframt er lagt til að farþegar með ferjum og flóabátum verði undanþegnir gjaldinu ef rekstur ferjunnar nýtur styrks samkvæmt vegalögum og ferjan kemur stað þjóðvegasambands.
    Í 5. gr. er kveðið á um hverjir séu gjaldskyldir samkvæmt frumvarpinu, þ.e. þeir sem flytja farþega hingað í atvinnuskyni með loftförum eða farþegaskipum og seljendur gistingar á gististöðum samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
    Í 6.–9. gr. eru ákvæði um álagningu og innheimtu sem og um viðurlög við því ef ekki eru staðin skil á gjöldunum.
    Í 10. gr. er ákvæði sem heimilar ráðherra að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
    Þar sem einnig er lagt til að sveitarfélög fái heimild til að leggja gistináttaskatt á seljendur gistiaðstöðu innan marka sinna er lagt til að við lög um tekjustofna sveitarfélaga bætist ákvæði þar að lútandi.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. september 2017 og er einnig kveðið á um að þau sæti endurskoðun þegar komin er reynsla á framkvæmd þeirra. Lagt er til að við gildistöku laganna falli lög um gistináttaskatt, nr. 87/2011, brott.