Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 891  —  578. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um náttúrustofur.


Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurður Páll Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að koma á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa síðustu 20 árin og meta hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum. Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 145. löggjafarþingi (647. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.
    Nú eru rúm 40 ár síðan fyrstu hugmyndir um náttúrustofur landshlutanna komu fram og rúm 20 ár síðan fyrsta stofan hóf starfsemi, en Náttúrustofa Austurlands tók til starfa árið 1995. Náttúrustofurnar starfa samkvæmt lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
    Fyrstu árin voru stofurnar reknar með beinni aðild ríkisins sem skipaði einn stjórnarmanna en með lagabreytingu árið 2002 dró ríkið sig út úr beinni aðild að stofunum en gerðir voru samningar um fjárframlög ríkisins til stofanna við sveitarfélögin sem eiga þær og reka.
    Frá árinu 2002 hefur smátt og smátt dregið úr tengslum náttúrustofa við umhverfis- og auðlindaráðuneytið þrátt fyrir að lesa megi úr umræðunni bæði á Alþingi og umfjöllun umhverfisráðherra þá og síðar að ætlunin hafi ekki verið að draga úr samvinnu við stofnanir ríkisins heldur að skýra rekstrarlega ábyrgð. Jafnframt hefur dregið úr fjárframlögum ríkisins til stofanna.
    Það er ljóst að álit ráðherra, ráðuneytis og Alþingis árið 2002 var að náttúrustofur gegndu mikilvægu hlutverki hvað varðaði náttúrurannsóknir og framkvæmd náttúruverndar í samstarfi við stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á þessu sviði. Því var í samningum kveðið á um árlega fundi ráðuneytisins með forstöðumönnum náttúrustofa, formönnum stjórna náttúrustofa, fulltrúum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.
    Nú eru starfandi átta náttúrustofur en jafnframt hafa í sumum landshlutum byggst upp þekkingarsetur, sem starfa á sviði náttúrufræða, með stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Það er því rétt að í vinnu starfshópsins verði horft til þess hvernig samstarf náttúrustofa og setra í sama landshluta geti styrkt starf beggja aðila.
    Nú er mikil deigla í náttúru- og umhverfisvernd á Íslandi, m.a. vegna nýlegra loftslagsmarkmiða og vaxandi ferðamennsku, og því mikilvægt að fara yfir hvernig fjármagn og fagþekking á þessu sviði getur nýst íslensku samfélagi sem best.