Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 900  —  433. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum (málsmeðferð o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðlín Steinsdóttur og Vilborgu Ingólfsdóttur frá velferðarráðuneytinu og Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sjúkratryggingum Íslands og Umhyggju, félagi langveikra barna.
    Í frumvarpinu er lagt til að mál sem Sjúkratryggingar Íslands hefur fengið til meðferðar verði ekki borið undir dómstóla fyrr en stofnunin hefur tekið afstöðu til bótaskyldu, metið umfang tjóns og ákveðið fjárhæð bóta. Markmið frumvarpsins er að lagfæra helstu atriði í lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, með síðari breytingum, sem varða málsmeðferð hjá Sjúkratryggingum Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að verið sé að reyna að koma í veg fyrir tafir og samfélagslegan kostnað við meðferð slíkra mála.
    Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á frumvarpið á þeim grundvelli að það færi gegn 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um aðgang að dómstólum. Meiri hlutinn tekur ekki undir þá gagnrýni og telur mikilvægt að Sjúkratryggingar Íslands fái tækifæri til að ljúka málsmeðferð sinni áður en mál fari fyrir dómstóla þar sem löggjafinn hefur falið stofnuninni að taka ákvarðanir í þessum málum.
    Að framangreindu virtu telur meiri hlutinn ekki þörf á að leggja til breytingar á frumvarpinu og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 23. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Óli Björn Kárason. Pawel Bartoszek.