Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 910  —  385. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur, virðisaukaskattur, vörugjald af grindarbílum o.fl.).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með lögum um breytingu á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, nr. 69/2012, með síðari breytingum, var fellt brott ákvæði í 48. gr. laga um virðisaukaskatt er laut að því að sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, nr. 110/1951, teldist sala úr landi enda hefði þessi hluti ákvæðisins misst marks á árinu 2006 við brotthvarf varnarliðsins frá landinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að á ný verði mælt fyrir um ýmsar undanþágur frá sköttum í þágu erlends liðsafla og borgaralegra deilda hans, þar á meðal vegna Atlantshafsbandalagsins, Samstarfs í þágu friðar og Bandaríkjahers. Minni hlutinn telur að á meðan engar grundvallarbreytingar eða grundvallarstefnubreytingar hafa átt sér stað varðandi endurkomu varnarliðsins til landsins eða meiri umsvif þess séu engar forsendur fyrir breyttri framkvæmd í þessu efni. Minni hlutinn telur ekki tilefni til að greiða fyrir heræfingum eða annarri hernaðartengdri starfsemi hérlendis og leggst gegn því að veittar séu sérstakar skattundanþágur í því skyni.
    Minni hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til en einnig með eftirfarandi

BREYTINGU:


    10.–12. gr., 16. gr. og 18.–25. gr. falli brott.

Alþingi, 23. maí 2017.

Katrín Jakobsdóttir,
frsm.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.