Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 918  —  102. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um jafnræði í skráningu foreldratengsla.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Barnaheillum, Persónuvernd, umboðsmanni barna og Þjóðskrá Íslands.
    Samkvæmt þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að setja reglugerð um framkvæmd laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, þar sem tryggt verði að jafnræði ríki með foreldrum barna með tilliti til skráningar foreldratengsla í þjóðskrá og afnumin verði sú mismunun sem nú á sér stað gagnvart mæðrum í samkynja hjúskap eða sambúð.
    Með forsetaúrskurði frá 7. apríl 2017, nr. 15/2017, voru málefni Þjóðskrár Íslands og lög um þjóðskrá og almannaskráningu færð frá innanríkisráðherra til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Dómsmálaráðuneyti fer hins vegar með mál er varða sifjarétt, þar á meðal málefni barna og hjúskap. Leggur nefndin til breytingu á tillögugreininni þessu til samræmis.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um að brýnt sé að breyta þeirri framkvæmd hjá Þjóðskrá Íslands að mæður í samkynja hjúskap eða skráðri sambúð sé gert að afhenda Þjóðskrá Íslands yfirlýsingu um að barn þeirra sé getið með tilstyrk tæknifrjóvgunar, annars verði sú kona ein skráð foreldri sem ól barn. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart markmiði tillögunnar en fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að lagabreytingu gæti þurft til að breyta núverandi framkvæmd skráningar foreldratengsla. Jafnframt var rætt um að þörf sé á að taka til athugunar skráningu foreldratengsla almennt. Nefndin telur mikilvægt að tryggt verði að jafnræði ríki með foreldrum barna með tilliti til skráningar foreldratengsla í þjóðskrá og beinir því til ráðherra að meta hvaða leið henti best til að vinna að framgangi markmiðs tillögunnar og leggur því til breytingar í samræmi við það.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við dómsmálaráðherra að sjá til þess að tryggt verði að jafnræði ríki með foreldrum barna með tilliti til skráningar foreldratengsla í þjóðskrá og afnumin verði sú mismunun sem nú á sér stað gagnvart mæðrum í samkynja hjúskap eða sambúð.

Alþingi, 19. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Nichole Leigh Mosty.
Eygló Harðardóttir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Björn Leví Gunnarsson.
Iðunn Garðarsdóttir. Brynjar Níelsson. Pawel Bartoszek.