Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 921  —  473. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um bifreiðakaup ráðuneytisins.


     1.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
    Ráðuneytið hefur, á því tímabili sem spurt er um, keypt eina bifreið og var hún keypt að undangengnu útboðsferli hjá Ríkiskaupum. Samhliða var eldri bifreið, sem orðin var 11 ára gömul, seld í gegnum uppboðsferli. Bifreiðin sem keypt var er af tegundinni Mercedes Benz S 350 Blue Tec Sedan árgerð 2015 og er eldsneytisgjafi hennar dísilolía. Uppgefin losun er 156–168 g CO2/km EU/ADR82 og uppgefin eldneytisnotkun 5,9–6,4 lítrar á 100 km. Hagstæðasta tilboði samkvæmt matslíkani Ríkiskaupa var tekið.

     2.      Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) á yfirstandandi þingi um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020?
    Framangreind bifreiðakaup ráðuneytisins voru í samræmi við markmið tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem nú liggur fyrir Alþingi. Samkvæmt skilmálum útboðsins voru gerðar tilteknar öryggis-, umhverfis- og gæðakröfur, þar á meðal var kveðið á um að bifreiðin skyldi vera umhverfisvæn, þ.e. hvað varðar koltvísýringsmengun ( CO2) og sparneytni (notkun orkugjafa í lítrum á 100 km).

     3.      Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
    Í útboði vegna kaupa á framangreindri bifreið voru, eins og áður segir, gerðar tilteknar öryggis-, umhverfis- og gæðakröfur, þar á meðal var tiltekið að bifreiðin skyldi vera umhverfisvæn, þ.e hvað varðar koltvísýringsmengun ( CO2) og sparneytni (notkun orkugjafa í lítrum á 100 km). Orkugjafar sem til greina komu í útboðslýsingu voru bensín, dísill eða rafmagn. Bifreiðar sem knúnar voru áfram með vélum sem nota samspil þessara orkugjafa komu einnig til greina. Í útboðsskilmálum var nánar tiltekið að CO2 mengun skyldi ekki vera yfir 170 g/km og að eyðsla skyldi vera undir 7 lítrum/100 km í blönduðum akstri. Við útboð vegna bifreiðakaupa í framtíðinni mun ráðuneytið, eins og áður, leitast við að gæta ýtrustu öryggis-, umhverfis- og gæðakrafna og tekur þar m.a. mið af ályktun Alþingis um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem og fyrirhugaðri samgöngustefnu fyrir Stjórnarráðið.