Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 924  —  523. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa (kröfur til mönnunar o.fl.).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Gísla Jóhann Halldórsson frá Faxaflóahöfnum, Pétur Ólafsson frá Akureyrarhöfn, Ólaf Snorrason frá Vestmannaeyjahöfn, Jón Ingólfsson frá rannsóknarnefnd samgönguslysa og Halldór Arnar Guðmundsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Umsögn barst frá Félagi skipstjórnarmanna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum. Annars vegar er lögð til breyting á kröfum sem gerðar eru til mönnunar lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva og hins vegar breyting á ákvæði til bráðabirgða sem veitir handhöfum 30 brúttórúmlesta skipstjórnarskírteina réttindi til starfa á skipum sem eru 12 metrar og styttri í strandsiglingum á þann hátt að þeir fái réttindi á skip 15 metrar og styttri í strandsiglingum.
    Fyrir nefndinni hafa komið sjónarmið um að ekki séu forsendur fyrir breytingum á lögunum að því er varðar mönnun lóðs- og dráttarbáta eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Nefndinni þykir rétt að bregðast við þeim sjónarmiðum og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Orðin „lóðs- og dráttarskipum“ í a-lið falli brott.
     b.      Orðin „lóðs- og dráttarskipa og“ í c-lið falli brott.

    Bryndís Haraldsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 26. maí 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Teitur Björn Einarsson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir. Gunnar Ingiberg Guðmundsson.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Líneik Anna Sævarsdóttir. Pawel Bartoszek.