Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 925  —  307. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum (bílastæðagjöld).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Líkt og rakið var í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar um málið að lokinni 1. umræðu komu fram sjónarmið við umfjöllun nefndarinnar um að breytingar væri þörf á 2. mgr. 108. gr. umferðarlaga þar sem hún stæði í vegi fyrir framþróun vegna tækniframfara við álagningu stöðubrotsgjalda. Beindi nefndin því til ráðuneytisins að málið yrði tekið upp og tillaga gerð að lagabreytingu í þá veru. Í samráði við ráðuneytið leggur meiri hluti nefndarinnar nú til að við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar bætist ákvæði um breytingu á 2. mgr. 108. gr. umferðarlaga í þá veru að opnað verði fyrir möguleika á álagningu stöðubrotsgjalda með fjölbreyttari hætti en nú er, t.d. rafrænt. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir a-lið 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: 2. mgr. orðast svo:
    Gjaldið skal lagt á með skriflegri tilkynningu sem fest skal við ökutækið, afhent ökumanni eða send með sannanlegum hætti til eiganda eða umráðamanns ökutækis.

    Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 24. maí 2017.

Valgerður Gunnarsdóttir,
form.
Pawel Bartoszek,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Bryndís Haraldsdóttir. Einar Brynjólfsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Teitur Björn Einarsson.