Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 931  —  111. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sóleyju Ragnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hjálmar Brynjólfsson frá Fjármálaeftirlitinu. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu og Persónuvernd.
    Frumvarpið fjallar um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, sem eru samstæður fyrirtækja sem starfa bæði á sviði vátrygginga og banka- eða fjárfestingarstarfsemi, einkum varðandi eigið fé, áhættustjórnun og viðskipti innan samsteypa. Það byggist á tilskipun 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og verðbréfafyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu, með breytingum samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB.

1. gr. og 3. gr. Gildissvið og skilgreining á fjármálasamsteypu. Starfsemi samstæðu á fjármála- og vátryggingasviði fjármálamarkaðar.
    Í 1. mgr. 1. gr. er fjallað um gildissvið frumvarpsins en í 2. og 3. mgr. um skilgreiningu á fjármálasamsteypu. Minni hlutinn leggur til að síðarnefndu ákvæðin færist undir II. kafla frumvarpsins þar sem eru ákvæði um hvenær samstæður teljist fjármálasamsteypur. Lagt er til að ákvæðin sameinist 3. gr. og að framsetning skilgreiningarinnar verði einfölduð.
    Með hliðsjón af ii. lið a-liðar 7. mgr. 22. gr. tilskipunar 2013/34/ESB um árleg reikningsskil, samstæðureikningsskil og tilheyrandi skýrslur tiltekinna tegunda fyrirtækja leggur minni hlutinn til að vísun til stofnsamninga fyrirtækja verði bætt við ákvæði 1. tölul. a-liðar 1. tölul. 2. mgr. 1. gr., sem verður a-liður 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. Minni hlutinn leggur til samsvarandi breytingu á ákvæði c-liðar 6. tölul. 2. gr.

2. gr. Orðskýringar.
    Minni hlutinn leggur til að skilgreiningar á fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum í 1. og 2. tölul. greinarinnar falli brott. Aðeins er notast við hugtökin í skilgreiningum á fjármálasviði og vátryggingasviði í 4. og 5. tölul. greinarinnar og þar er þegar vísað til laga um fjármálafyrirtæki og laga um vátryggingastarfsemi.
    Í 5. tölul. er hugtakið „eignarhaldsfélag á vátryggingasviði“ notað með vísan til laga um vátryggingastarfsemi. Hugtakið er ekki lengur skilgreint í lögum um vátryggingastarfsemi en var skilgreint í eldri lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, sem „fyrirtæki þar sem meginstarfsemin er að eiga hluti í dótturfyrirtækjum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög“. Minni hlutinn leggur til að efnisatriði þeirrar skilgreiningar komi fram í 5. tölul. í stað hugtaksins. Minni hlutinn leggur einnig til að bætt verði við ákvæðið vísun til vátryggingasamstæðna. Nú er til þinglegrar meðferðar frumvarp til laga um vátryggingasamstæður (400. mál).
    Lagt er til að vísun 9. tölul. greinarinnar til ákvæðis b-liðar 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. falli brott enda eiga aðilar vart að teljast til samstæðu af þeirri ástæðu einni að annar þeirra starfar á fjármálasviði og hinn á vátryggingasviði.

4. gr. Mikilvæg starfsemi á fjármála- og vátryggingasviði.
    Í a- og b-lið 1. mgr. greinarinnar er fjallað um hlutfall umsvifa á fjármála- eða vátryggingasviði af stærð efnahagsreiknings og lágmarksgjaldþoli félaga innan samstæðu. Í tilskipun 2002/87/EB er aftur á móti aðeins miðað við hlutfall af stærð efnahagsreiknings eða lágmarksgjaldþoli þeirra aðila innan samstæðu sem starfa á fjármálamarkaði. Til að tryggja samræmi við tilskipunina leggur minni hlutinn til að orðunum „á fjármálasviði eða vátryggingasviði“ verði bætt við stafliðina.

5. gr. Önnur viðmið um hvort starfsemi á fjármála- og vátryggingasviði teljist mikilvæg.
    Í 1. og 2. mgr. greinarinnar er getið um jafnvirði 6 milljóna evra í íslenskum krónum en í tilskipun 2002/87/EB um 6 milljarða evra. Minni hlutinn leggur því til breytingu á fjárhæðinni.
    Ákvæði 3. málsl. 1. mgr. greinarinnar byggist á a- og b-lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/87/EB án breytinga samkvæmt tilskipun 2011/89/ESB. Þeir stafliðir hafa nú verið felldir brott með tilskipun 2011/89/ESB. Minni hlutinn leggur því til að málsliðurinn falli einnig brott.
    
6. gr. Undantekningartilvik.
    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar kemur fram að málsgreinin eigi við „í undantekningartilvikum“. Sambærileg takmörkun er ekki í tilskipun 2002/87/ESB og leggur minni hlutinn því til að orðin falli brott. Því til samræmis leggur minni hlutinn til að fyrirsögn greinarinnar verði „undanþágur“ í stað „undantekningartilvik“.
    Í a-lið 1. mgr. er vísað til þess að ljóst þyki að fyrirtæki hafi verið flutt til að komast hjá eftirliti en í tilskipuninni er notað orðalagið að vísbendingar séu um það (e. „there is evidence that the entity changed its location in order to avoid regulation“). Minni hlutinn leggur til að orðalagið verði samræmt.

7. gr. Önnur viðmið.
    Minni hlutinn leggur til að fram komi að Fjármálaeftirlitið skuli taka ákvarðanir samkvæmt greininni í samkomulagi við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja til samræmis við 5. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/87/EB.

8. gr. Breytingar á stöðu fjármálasamsteypu gagnvart viðmiðunarhlutföllum.
    Í 3. mgr. greinarinnar er getið um jafnvirði 6 og 5 milljóna evra í íslenskum krónum en í tilskipun 2002/87/EB um 6 og 5 milljarða evra. Minni hlutinn leggur því til breytingu á fjárhæðunum.

10. gr. Tilgreining fjármálasamsteypu.
    Minni hlutinn leggur til fáeinar breytingar á 3. og 5. mgr. greinarinnar til að skerpa á fyrirmælum um samstarf Fjármálaeftirlitsins við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja og að kveðið verði á um tilkynningar til sameiginlegrar nefndar evrópsku eftirlitsstofnananna til samræmis við 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2002/87/EB.
    Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að fjármálasamsteypu sé tilkynnt um eftirlitsstjórnvald. Minni hlutinn leggur til að það verði tilgreint í 4. mgr. greinarinnar líkt og í 2. mgr.

13. gr. Tengsl einstaklinga við eftirlitsskylda aðila.
    Fyrir mistök er vísað í röng ákvæði í 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins og leggur minni hlutinn til að tilvísunin verði leiðrétt.
    Lagt er til að vísað verði til samstæðna samvinnufélaga í stað félaga sem starfa saman til samræmis við 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 2002/87/EB.

16. gr. Mat á eiginfjárgrunni og lágmarksgjaldþoli.
    Minni hlutinn leggur til breytingu á framsetningu 16. gr. og að vísað verði til fjárfestingarfyrirtækja og blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi auk aðila á fjármála- og vátryggingasviði til samræmis við 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2002/87/EB.
    
20. gr. Aðilar sem eru undanskildir mati á eiginfjárgrunni og lágmarksgjaldþoli.
    Minni hlutinn leggur til að í 3. mgr. greinarinnar verði vísað til þess að taka þurfi ákvörðun án tafar í stað þess að brýna nauðsyn standi til þess að taka ákvörðun án samráðs við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja til samræmis við 5. mgr. 6. gr. tilskipunar 2002/87/EB.

23. gr. Áhættustýring og innra eftirlit.
    Minni hlutinn leggur til að mælt verði fyrir um skyldu eftirlitsskyldra aðila til að birta árlega opinberlega upplýsingar um uppbyggingu og stjórnun samsteypu til samræmis við 4. mgr. 9. gr. tilskipunar 2002/87/EB.

26. gr. Verkefni eftirlitsstjórnvalds.
    Minni hlutinn leggur til breytingar á tilvísunum í 2. mgr. greinarinnar til samræmis við ábendingu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Breytingar á öðrum lögum.
    Minni hlutinn leggur til að núverandi skilgreiningar á fjármálasamsteypu í lögum um fjármálafyrirtæki falli brott og í stað þeirra verði vísað í skilgreiningu laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum til að tryggja að notast sé við samræmda skilgreiningu.

Viðauki.
    Minni hlutinn leggur til fáeinar breytingar á viðauka við lögin til samræmis við viðauka við tilskipun 2002/87/EB.

Aðrar breytingartillögur skýra sig sjálfar.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

    Lilja Alfreðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir sat fundinn fyrir Jón Steindór Valdimarsson og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 26. maí 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Brynjar Níelsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Vilhjálmur Bjarnason.