Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 934  —  392. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (lánshæfi aðfaranáms).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið sem var vísað til nefndarinnar eftir 2. umræðu. Breytingartillögur meiri hluta og minni hluta voru kallaðar aftur við 2. umræðu.
    Við umfjöllun málsins var rætt að nýju um jafnræði nemenda til lánveitinga fyrir sambærilegt nám og hvernig bregðast ætti við hluta af athugasemdum Ríkisendurskoðunar.
    Nefndin bendir á að aðfaranám geti farið fram innan framhaldsskóla í samstarfi við háskóla og að slíkt sé í samræmi við gildandi reglugerð um aðfaranám. Til að taka af allan vafa um að slíkt nám sé lánshæft leggur nefndin til breytingar í þá veru sem miða jafnframt að því að aðfaranám erlendis sem er samþykkt af ráðherra verði einnig lánshæft.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að takist samningar milli háskólastigs og framhaldsskólastigs um aðfaranám vinni mennta- og menningarmálaráðuneytið með þeim aðilum.
    Í 2. gr. frumvarpsins (nýju ákvæði til bráðabirgða) er lagt til að þeir sem eru í aðfaranámi erlendis eigi áframhaldandi rétt til að ljúka námi sínu með óbreyttri fyrirgreiðslu lánasjóðsins. Í ljósi breytingartillögu nefndarinnar um að aðfaranám verði lánshæft, hvort sem það er stundað hérlendis eða erlendis, leggur nefndin til að ákvæðið falli brott.
    Nefndin leggur áherslu á að við heildarendurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði litið til athugasemda Ríkisendurskoðunar um lagaumhverfi aðfaranáms og lánveitingar til slíks náms sem koma fram í skýrslum hennar, Lánasjóður íslenskra námsmanna – Lánshæfi náms og þróun útlána (júní 2011) og Frumgreinakennsla íslenskra skóla (maí 2012), ásamt því að viðmið og kröfur um gæði námsins verði tryggð. Þá telur nefndin að við þá heildarendurskoðun þurfi að líta sérstaklega til hagsmuna íbúa landsbyggðarinnar við framtíðarskipulag aðfaranáms sem og að skoða áhrif alþjóðavæðingar í námi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Efnismálsliður 1. gr. orðist svo: Sjóðnum er heimilt samkvæmt nánari úthlutunarreglum að veita námsmönnum námslán til aðfaranáms, allt að 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum, sé námið skipulagt af viðurkenndum háskóla og samþykkt af ráðherra, óháð því hvort námið fer fram innan háskóla eða innan viðurkennds skóla á framhaldsskólastigi á grundvelli samnings við viðurkenndan háskóla.
     2.      2. gr. falli brott.

    Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 26. maí 2017.

Nichole Leigh Mosty,
1. varaform.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Valgerður Gunnarsdóttir.
Jóna Sólveig Elínardóttir. Teitur Björn Einarsson. Andrés Ingi Jónsson.
Björn Leví Gunnarsson. Eygló Harðardóttir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.