Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 941  —  258. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningarréttur erlendra ríkisborgara).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Alls bárust nefndinni umsagnir frá Öldunni – félagi um sjálfbærni og lýðræði, Alþýðusambandi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siðmennt, félagi siðrænna húmanista, og Þjóðskrá Íslands.
    Í umsögnum Siðmenntar, Mannréttindastofnunar Íslands og Þjóðskrár var tekið undir efni frumvarpsins án athugasemda. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að sambandið styður það meginsjónarmið sem lagt er upp með í frumvarpinu en telur að betur fari á því að fylgja fordæmi Noregs, þ.e. að Norðurlandabúar fái kosningarrétt við lögheimilisskráningu en aðrir erlendir ríkisborgarar eftir þrjú ár. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið hafi ekki mótað sér formlega afstöðu til málsins en það telur einnig nærtækara að líta til framkvæmdar í Noregi verði frumvarpið að lögum. Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur að með frumvarpinu sé lögð til áframhaldandi mismunun milli íslenskra og erlendra ríkisborgara.
    Að mati nefndarinnar er ástæða til að rýmka kosningarrétt útlendinga til samræmis við þróun annars staðar á Norðurlöndum. Með því er styrkt lýðræðisleg þátttaka þessara íbúa landsins og þar með auknir möguleikar þeirra til að hafa áhrif á sveitarstjórnarstigi. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytis að huga að endurskoðun á kosningarréttinum og vísar því frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar.
    Lilja Alfreðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. maí 2017.

Brynjar Níelsson,
form., frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson. Birgitta Jónsdóttir.
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir. Jón Þór Ólafsson. Haraldur Benediktsson.
Svandís Svavarsdóttir. Hildur Sverrisdóttir.