Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 943  —  306. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson, Ólaf Kr. Hjörleifsson og Guðna Geir Einarsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Sigurð Snævar, Lúðvík Gústafsson, Karl Björnsson, Halldór Halldórsson, Guðjón Bragason og Telmu Halldórsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bjarna Guðmundsson frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Berglindi Kristinsdóttur frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Ástu Stefánsdóttur frá Sveitarfélaginu Árborg, Gunnlaug Júlíusson frá Borgarbyggð og Björn Líndal frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Nefndin átti símafundi við Björgu Björnsdóttur frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Guðmund Baldvin Guðmundsson frá Eyþingi. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Blönduósbæ, Borgarbyggð, Dalabyggð, Fjarðabyggð, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Grímsnes- og Grafningshreppi, Hafnarfjarðarbæ, Hrunamannahreppi, Hveragerðisbæ, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Seyðisfjarðarkaupstað, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Hornafirði og Sveitarfélaginu Skagafirði. Meðan á umfjöllun málsins stóð bárust tvö minnisblöð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lög um tekjustofna sveitarfélaga bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að Jöfnunarsjóður greiði sveitarfélögum sérstakt framlag sem samsvari nánar tilteknu hlutfalli af tekjum ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki (svokölluðum bankaskatti) samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, frá miðju ári 2014 út árið 2016. Greiðslunni verði skipt á milli sveitarfélaga í samræmi við hlutdeild hvers þeirra í álögðu heildarútsvari áranna 2013, 2014 og 2015.
    Tilgangur frumvarpsins er að vega á móti neikvæðum áhrifum sem úttekt séreignarsparnaðar og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og til húsnæðissparnaðar, sbr. lög nr. 40/2014, hefur á útsvarstekjur sveitarfélaga. Var sú leið sem farin er með frumvarpinu ákveðin með samkomulagi fyrrverandi ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og staðfest með samþykkt stjórnar sambandsins frá 27. júní 2014.
    Sambærileg frumvörp voru lögð fram á 144. og 145. löggjafarþingi (574. mál og 263. mál), en náðu ekki fram að ganga. Af þeim sökum var ákveðið að halda eftir fjárhæðum í Jöfnunarsjóði á milli ára sem samsvara þeim fjárhæðum sem sjóðurinn skyldi greiða til sveitarfélaga samkvæmt frumvarpinu. Við umfjöllun um málið hefur komið fram að óeining ríkir á milli sveitarfélaga um þá framkvæmd sem lögð er til með frumvarpinu og um lögmæti þeirra aðgerða að halda áðurnefndum fjármunum eftir í sjóðnum á milli ára. Ráðuneytið hefur brugðist við spurningum nefndarinnar um lögmæti aðgerðanna með minnisblöðum sem getið er í inngangi, þar sem fram kemur það rökstudda mat að aðgerðirnar séu lögmætar.
    Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar nemur sú fjárhæð sem runnið hefur í Jöfnunarsjóð vegna álagningar bankaskattsins, og ætti samkvæmt frumvarpinu að greiðast sveitarfélögum í samræmi við hlutdeild í álögðu heildarútsvari áranna 2013–2015, um 1.300 millj. kr. Að óbreyttu yrði þeim tekjum ráðstafað til sveitarfélaganna samkvæmt almennum reglum laga nr. 4/1995 en að baki frumvarpinu liggja þau sjónarmið að réttlætanlegt sé að taka fjárhæðina út fyrir sviga og úthluta henni sérstaklega þannig að sveitarfélögum sem verða af útsvarstekjum vegna séreignarsparnaðar og úttektar hans verði bætt það upp, líkt og framar greinir.
    Vegna þeirrar óeiningar sem uppi var um efni frumvarpsins en jafnframt brýnnar þarfar á að ljúka málinu fór nefndin þess á leit við ráðuneytið að leitað yrði sátta meðal sveitarfélaga um málamiðlun. Lagði ráðuneytið til að farin yrði sú leið að helmingi þess fjár sem situr í Jöfnunarsjóði vegna bankaskattsins yrði úthlutað eftir almennum reglum og helmingi í samræmi við hlutdeild sveitarfélaga í álögðu heildarútsvari líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur náðst breiðari sátt um þessa leið meðal sveitarfélaga en var um frumvarpið óbreytt þó svo að ennþá sé til staðar nokkur óeining.
    Nefndin telur mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga og telur jákvætt að breiðari sátt hafi náðst með málamiðlunartillögunni. Leggur nefndin til að breyting verði gerð á frumvarpinu í þá veru. Að framangreindum sjónarmiðum virtum leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað 1. og 2. efnismgr. 1. gr. komi ein ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal Jöfnunarsjóður greiða sveitarfélögum á árinu 2017 sérstakt framlag að fjárhæð 650 millj. kr. sem skiptast skal hlutfallslega milli þeirra í samræmi við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari á árinu 2016.

    Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ari Trausti Guðmundsson skrifa undir álit þetta með þeim fyrirvara að þeir telja að með málamiðlunarleið þeirri sem farin er með breytingartillögu nefndarinnar hafi ríkið aðeins að hluta til staðið við það samkomulag sem gert var um að sveitarfélögum yrði bætt upp tekjutap vegna úttöku séreignarsparnaðar, sbr. lög nr. 40/2014. Eftir standi að ríkið uppfylli loforð um að tapið yrði bætt að fullu, sem gera þurfi eftir öðrum leiðum en þeirri sem felist í þessu frumvarpi.
    Gunnar Bragi Sveinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis og með þeim fyrirvara að hann telur að almennt beri að ráðstafa tekjum Jöfnunarsjóðs samkvæmt ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga en að í þessu tilviki réttlætist að fara þá leið sem farin er til málamiðlunar.

Alþingi, 29. maí 2017.

Pawel Bartoszek,
1. varaform.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson,
með fyrirvara.
Birgir Ármannsson. Guðrún Ágústa Þórdísardóttir. Gunnar Bragi Sveinsson,
með fyrirvara.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
með fyrirvara.
Óli Björn Kárason. Vilhjálmur Bjarnason.