Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 980  — 389. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum (landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin tók málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umræðu og fékk á sinn fund Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Karl Arnar Arnarsson frá Loftmyndum ehf. Frá því að nefndin afgreiddi málið til 2. umræðu hafa borist umsagnir um málið frá Ískorti ehf., Loftmyndum ehf., Skipulagsstofnun og Veðurstofu Íslands.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að frumvarpið gæti leitt til aukins samkeppnisrekstrar Landmælinga Íslands þar sem stofnuninni yrði heimilt að safna og miðla gögnum með meiri nákvæmni en í mælikvarðanum 1:50.000 eins og nú er samkvæmt gildandi lögum. Í greinargerð frumvarpsins og á fundi nefndarinnar kom fram að ráðuneytið hefði gert samkeppnismat í samræmi við álit Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2009, um samkeppnismat stjórnvalda. Niðurstaða þess mats hefði verið að ekki væri þörf ítarlegri greiningar á samkeppnisáhrifum frumvarpsins. Að auki var bent á að ætluðu Landmælingar sér að koma upp grunni gagna með meiri nákvæmni og hefja beinan samkeppnisrekstur við einkaaðila um viðskipti með slík gögn krefðist það mikilla fjárútláta sem stofnunin gæti aðeins ráðist í með auknum fjárheimildum. Aðkomu Alþingis væri því þörf, en þessu frumvarpi fylgdu ekki auknar fjárheimildir til stofnunarinnar. Ætlunin með breytingunni væri að Landmælingar Íslands gætu notað landupplýsingar sem yrðu til vegna ýmissa verkefna stofnunarinnar við uppbyggingu landupplýsingagrunns og sambærilegar upplýsingar sem yrðu til hjá öðrum ríkisstofnunum og sveitarfélögum. Slíkar upplýsingar væru jafnan unnar af einkaaðilum.
    Meiri hlutinn sér ekki ástæðu til að gera breytingar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir en leggur áherslu á að lagabreytingin sem frumvarpið hefur í för með sér verði ekki til þess að auka samkeppnisrekstur Landmælinga Íslands. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 30. maí 2017.

Pawel Bartoszek,
1. varaform., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Gunnar Bragi Sveinsson.
Karen Elísabet Halldórsdóttir. Óli Björn Kárason. Teitur Björn Einarsson.