Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 983  —  437. mál.

2. umræða.


Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og tekið til sérstakrar umfjöllunar birtingu á staðli um launajafnrétti vegna breytingartillögu meiri hlutans um að ráðherra geti með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðalsins ÍST 85.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að stjórnvöld gætu ekki birt eða falið Staðlaráði Íslands að birta staðalinn í heild vegna höfundarréttar Staðlaráðs Íslands á staðlinum. Líkt og fram kemur í lögum um staðla og Staðlaráð Íslands og vísað er til í fyrra áliti meiri hlutans geta stjórnvöld gert notkun tilgreinds staðals skyldubundinn með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal staðall þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að höfundarréttur Staðlaráðs Íslands á staðlinum sé virtur en leggur áherslu á að aðgengi að staðlinum verði tryggt vegna þeirrar skyldu sem frumvarpið felur í sér gagnvart fyrirtækjum og stofnunum. Meiri hlutinn telur rétt að falla frá breytingartillögu um að ráðherra geti með reglugerð falið öðru stjórnvaldi eða Staðlaráði Íslands birtingu staðalsins ÍST 85. Meiri hlutinn beinir því til velferðarráðuneytis, í samráði við Staðlaráð Íslands, að semja um aðgang að staðlinum verði frumvarpið að lögum.
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem þegar hafa verið lagðar til en með eftirfarandi

BREYTINGU:


    B-liður 1. tölul. brtt. á þskj. 942 falli brott.

Alþingi, 30. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Nichole Leigh Mosty,
frsm.
Albert Guðmundsson.
Andrés Ingi Jónsson. Pawel Bartoszek. Vilhjálmur Árnason.
Willum Þór Þórsson.