Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Nr. 18/146.

Þingskjal 1002  —  146. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun um orkuskipti.


    Alþingi ályktar að fela ráðherra sem fer með málefni er varða orkumál og auðlindanýtingu að vinna að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Með orkuskiptunum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og nýrri atvinnustarfsemi sem byggist á sjálfbærri þróun.
    Í aðgerðaáætlun um orkuskipti verði eftirfarandi haft að leiðarljósi:
     1. Markmið um orkuskipti. Að því skal stefnt að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins er um 70%. Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi er nú um 6%. Stefnt er að 10% hlutfalli endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi fyrir árið 2020 og 40% árið 2030. Endurnýjanleg orka sem notuð er á innlendum fiskiskipum er 0,1%. Stefnt er að 10% hlutfalli fyrir haftengda starfsemi árið 2030.
     2. Hagrænir hvatar. Tryggðar verði hagrænar forsendur sem stuðli að orkuskiptum og orkusparnaði. Hvati verði til staðar fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum sem stuðli að aukinni framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa. Ívilnanir og hvatar hafi skilgreindan gildistíma sem auðveldi ákvarðanatöku og langtímaáætlanir fjárfesta. Hvatt verði til aukinnar framleiðslu og notkunar innlends endurnýjanlegs eldsneytis sem stuðli að gjaldeyrissparnaði, fjölgun starfa og auknu orkuöryggi. Dregið verði úr opinberum stuðningi eftir því sem viðkomandi tæknilausnir verða samkeppnishæfari á markaði.
     3. Innviðir. Unnið verði markvisst að uppbyggingu nauðsynlegra innviða til að tryggja framgang orkuskipta. Stutt verði við uppbyggingu innviða svo unnt verði að ferðast hindrunarlaust á vistvænum ökutækjum í þéttbýli og á skilgreindum leiðum utan þéttbýlis fyrir árið 2025. Stefnt skal að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til allrar almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025.
     4. Orkusparnaður. Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar á öllum sviðum. Aukinn orkusparnaður hefðbundinna tæknikosta leikur lykilhlutverk í minni losun gróðurhúsalofttegunda og bættri nýtingu orkuauðlinda og hefur verið undanfari orkuskipta. Verulegur árangur hefur náðst í bættri orkunýtingu hefðbundinna ökutækja, skipa og flugvéla á undanförnum áratugum og skal áfram lögð áhersla á bætta orkunýtni hvort sem eldsneytið er af jarðefna- eða endurnýjanlegum uppruna.
     5. Samstarf. Tryggt verði nauðsynlegt samstarf allra aðila innan stjórnskipulagsins, samfélagsins og atvinnulífsins og stuðlað að samstöðu um aðgerðir sem snúa að orkuskiptum og orkusparnaði.
     6. Rannsóknir, þróun og nýsköpun og alþjóðasamstarf. Stuðlað verði að rannsóknum, tækniþróun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum. Efla skal stuðningsumhverfi nýsköpunar í tengslum við orkuskipti. Þátttaka í erlendu samstarfi er mikilvægur liður í að laða að þekkingu og fjármagn til málaflokksins og því taki Ísland þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði eftir því sem efni þykja til.
    Alþingi ályktar að samþykkja aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem endurmetin verði á fimm ára fresti. Birtar verði skýrslur um framvindu verkefna í áætluninni sem verði grundvöllur endurmats. Eftirfarandi aðgerðum skal lokið á næstu fimm árum:

A. Hagrænir hvatar, innlend framleiðsla og orkusparnaður.
A.1.
     Svið: Land.
     Lýsing: Gjaldtaka í samgöngum verði endurskoðuð þannig að hún tryggi ríkissjóði nægar skatttekjur til að standa undir uppbyggingu og viðhaldi samgöngumannvirkja. Viðhaldið verði kerfi með útblástursgildum og skerpt á ávinningi fyrir orkunýtnar bifreiðar. Auka skal kvaðir/gjaldtöku á jarðefnaeldsneyti til að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegs eldsneytis. Skoðaðir verði möguleikar á að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis sem hefur ekki áhrif á fæðuframleiðslu eða landnotkun. Skattkerfið hvetji til innkaupa og útleigu á vistvænum bifreiðum hjá ferðaþjónustuaðilum, þar á meðal ökutækjaleigum. Starfshópur um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis skili nánari tillögum.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.2.
     Svið: Land.
     Lýsing: Endurgreiðsla virðisaukaskatts af hreinorkubifreiðum skal gilda fyrir fyrstu 5.000–12.500 rafmagnsbifreiðarnar og fyrstu 5.000–12.500 vetnisbifreiðarnar sem teknar eru í notkun. Rekstrarleiga slíkra bifreiða skal einnig undanþegin virðisaukaskatti þar til fyrrgreind markmið hafa náðst. Núverandi fjárþak virðisaukaskattsendurgreiðslu skal hækkað úr 6 í 6,5 millj. kr. Endurskoðun verði á þriggja ára fresti, fyrst árið 2020.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.3.
     Svið: Land.
     Lýsing: Skoðað verði að endurgreiða virðisaukaskatt fyrir hreinorkubifreiðar með fleiri en 22 farþega. Aukin áhersla hefur verið lögð á almenningssamgöngur og þátt ferðaþjónustunnar í orkuskiptum. Þetta ákvæði ætti að hvetja til notkunar hreinorkubifreiða og vera hvatning til þess að hópferðabifreiðar nýti hreina orku.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.4.
     Svið: Land.
     Lýsing: Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vistvænum bifreiðum (<50g/ CO2/km) verði óbreytt, þ.e. að fyrstu 4 millj. kr. verði án virðisaukaskatts og vörugjalda. Fjölgun tengiltvinnbifreiða stuðlar að uppbyggingu innviða. Slíkar bifreiðar ættu að vera orðnar samkeppnishæfar á þessum tíma og þurfa því ekki ívilnanir lengur en til 2020.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.5.
     Svið: Land.
     Lýsing: Gefinn verði 50% afsláttur af hlunnindasköttum vegna bifreiðahlunninda, t.d. afnota ökutækja og ökutækjastyrkja, ef nýttar eru vistvænar bifreiðar. Hvatt verði til að fyrirtæki fjárfesti meira í vistvænum bifreiðum.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.6.
     Svið: Land.
     Lýsing: Bifreiðar verði að mestu knúnar metanóli af endurnýjanlegum uppruna, M56– M100, þ.e. 56–100% af eldsneytinu falli í sama ívilnanaflokk (afslátt á vörugjöldum) og metanbifreiðar þar sem um sambærilega tegund af losun er að ræða.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
A.7.
     Svið: Land, haf og loft.
     Lýsing: Áfram verði tryggt að endurnýjanlegt eldsneyti uppfylli sjálfbærniviðmið. Lífeldsneyti skal losa a.m.k. 50% minna af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneyti í samræmi við tilskipun 2009/28/EB. Leyfilegt hámark eldsneytis af fyrstu kynslóð verði 7% sem telja megi í markmiði ársins 2020.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Orkustofnun og Umhverfisstofnun.
A.8.
     Svið: Haf.
     Lýsing: Starfshópur skoði aðgerðir til að auka hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í haftengdri starfsemi. Skoðaðir verði möguleikar á afslætti af gjöldum, svo sem kolefnisgjaldi, veiðigjöldum eða hafnargjöldum, fyrir aukna notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Skoðaðir verði möguleikar á söluskyldu á endurnýjanlegu eldsneyti til skipa. Dregið verði sem mest úr notkun svartolíu.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

B. Innviðir.
B.1.
     Svið: Land.
     Lýsing: Þriggja ára átak stjórnvalda, 2016–2018, með 67 millj. kr. árlegu framlagi, til uppbyggingar innviða fyrir rafmagnsbifreiðar.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
B.2.
     Svið: Land, haf og loft.
     Lýsing: Skoðuð verði þörf á innviðasjóði í framhaldi af þriggja ára átaki stjórnvalda til uppbyggingar innviða fyrir rafmagnsbifreiðar. Með fjölgun vistvænna bifreiða er nauðsynlegt að bæta aðgengi að innviðum. Einnig þarf að tryggja uppbyggingu innviða fyrir haftengda og flugtengda starfsemi.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Mannvirkjastofnun, Orkustofnun og Samgöngustofa.
B.3.
     Svið: Land.
     Lýsing: Starfshópur leggi til almennar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu innviða fyrir vistvænar bifreiðar við heimili og vinnustaði.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Mannvirkjastofnun og Orkustofnun.
B.4.
     Svið: Land og haf.
     Lýsing: Innviðir fyrir hleðslu raf-, vetnis- og metanbifreiða og raftenglar í höfnum skulu uppfylla tæknilegar kröfur tilskipunar 2014/94/ESB um innviði fyrir óhefðbundið eldsneyti (viðauka II).
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Samgöngustofa.
B.5.
     Svið: Haf.
     Lýsing: Raforka fyrir landtengingu skipa í höfnum. Skoðað verði hvort einhverjar hindranir komi í veg fyrir notkun raforku í höfnum (verðlagning, aðgangur, tækni). Athugað verði hvort reglusetningu þurfi eða hvata til að auka nýtingu.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
B.6.
     Svið: Land.
     Lýsing: Raforkuinnviðir verði til staðar fyrir notkun fiskimjölsverksmiðja. Hvatar verði innleiddir til að tryggja að raforka sé nýtt til fiskimjölsframleiðslu í stað jarðefnaeldsneytis.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Orkustofnun.
B.7.
     Svið: Loft og land.
     Lýsing: Raftenglar verði í boði á langtímastæðum við flugvelli. Raftenglar á bílastæðum flugvalla gefa möguleika á hleðslu rafbíla á meðan þeim er lagt í stæði.
     Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Samgöngustofa.
B.8.
     Svið: Loft.
     Lýsing: Landtenging flugvéla. Öllum flugvélum verði skylt að nota landtengingu þegar þær standa á stæðum við flugstöðvarbyggingar.
     Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Samgöngustofa.
B.9.
     Svið: Land.
     Lýsing: Nægjanlegt aðgengi verði að upplýsingum um innviði, bíla, eldsneyti o.s.frv. fyrir almenning. Með aukinni uppbyggingu innviða fyrir vistvænt eldsneyti er mikilvægt að almenningur geti auðveldlega nálgast upplýsingar um slíkt sem og um bíla og aðrar hagnýtar upplýsingar.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Orkustofnun, Orkusetur og Samgöngustofa.
B.10.
     Svið: Land.
     Lýsing: Raforkuinnviðir verði hluti af styrkjum til uppbyggingar innviða fyrir ferðaþjónustu.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Stjórnstöð ferðamála og Ferðamálastofa.

C. Stefnumótun, reglugerðir og rannsóknir.
C.1.
     Svið: Land.
     Lýsing: Gefin verði út samgöngustefna fyrir Stjórnarráðið og undirstofnanir sem feli í sér setningu markmiðs um aukna hlutdeild vistvænna bifreiða í opinberum innkaupum. Meginreglan verði að vistvænar bifreiðar verði fyrsti valkostur í innkaupum nema starfsaðstæður og notkun krefjist annarra lausna.
     Ábyrgð: Forsætisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
C.2.
     Svið: Land.
     Lýsing: Vistvæn samgöngustefna allra sveitarfélaga á Íslandi. Sveitarfélög landsins verði hvött til að innleiða formlega samgöngustefnu sem taki mið af vistvænum samgöngum með áherslu á bættar almenningssamgöngur og hjóla- og göngustígagerð, sem og með úthlutun lóða til fjölorkustöðva og ívilnunum fyrir hreinorkubifreiðar.
     Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.
C.3.
     Svið: Land og haf.
     Lýsing: Vistvæn innkaup. Opinberir aðilar skulu nýta sér alla möguleika þegar kemur að útboðum vegna samgangna (á landi og sjó). Útboðsskilmálar geta t.d. verðlagt koltvísýring og þannig verði lögð áhersla á vistvænar lausnir.
     Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneyti og innanríkisráðuneyti.
C.4.
     Svið: Land, haf og loft.
     Lýsing: Starfsemi Orkusjóðs verði efld þannig að hann styðji enn frekar við orkuskipti á öllum sviðum, í lofti, á láði og legi. Stuðningur verði aukinn við fjárfestingar, innviði og rannsóknir fyrir orkuskipti.
     Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
C.5.
     Svið: Haf.
     Lýsing: Lokið verði innleiðingu alþjóðlegra reglugerða á íslensku hafsvæði, þ.e. Marpol Annex VI, ECA (Emission Control Area) og SECA (Sulphur Emission Control Area). Með aukinni umferð um norðurskautssvæðið og aukinni umhverfisvernd sjávar er nauðsynlegt að Ísland fylgi alþjóðareglum á sjó.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Umhverfisstofnun.
C.6
     Svið: Land, haf og loft.
     Lýsing: Reiknað verði út hvaða áhrif aðgerðaáætlun um orkuskipti hafi á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum, sbr. samning milli Íslands og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og sambærilegan samning við Evrópusambandið og aðildarríki þess vegna Parísarsamkomulags Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem nú er unnið að.
     Ábyrgð: Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Umhverfisstofnun.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.