Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1016  —  526. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Dóru Sif Tynes um jafnréttisstefnu EFTA.


     1.      Hefur EFTA sett sér jafnréttisstefnu?
    Að frumkvæði Íslands setti EFTA-skrifstofan sér jafnréttisstefnu sem tók gildi 16. desember á síðasta ári og er stefnan aðgengileg á ensku á vef EFTA, www.efta.int

     2.      Hefur verið gerð jafnlaunaúttekt hjá EFTA-skrifstofunni?
    Samkvæmt jafnréttisstefnu EFTA-skrifstofunnar er framkvæmd jafnlaunaúttekt árlega og mismunur á launum sem kann að koma fram leiðréttur.

     3.      Hefur EFTA sett sér markmið um að fjölga konum í stjórnunarstöðum, en af fimm skrifstofustjórum skrifstofunnar og tveimur aðstoðarframkvæmdastjórum sem veita skrifstofum forstöðu er nú aðeins ein kona?
    EFTA-skrifstofan hefur sett sér stefnu um fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum. Samkvæmt jafnréttisstefnunni skal stefna að því að a.m.k. 40% starfsmanna í stjórnunarstöðum og öllum öðrum störfum innan stofnunarinnar verði af hvoru kyni. Heldur fleiri konur en karlar vinna hjá stofnuninni. Konur eru um helmingur þeirra sem eru í sérfræðingastöðum (e. officer og senior officer). Þær eru í miklum meiri hluta í fulltrúastöðum (e. assistant) en í miklum minni hluta í stöðum skrifstofustjóra (e. director). Ráðningartími starfsmanna hjá EFTA-skrifstofunni er takmarkaður við sex ár og nýráðningar því tíðar. Má ætla að markmið um a.m.k. 40% hlutfall í öllum stöðum nái fram að ganga innan fárra ára.

     4.      Hafa EFTA-ríkin sett sér sameiginleg markmið um að rétta hlut kvenna í yfirstjórn EFTA, þ.e. í stöðum framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra, þar sem hún er nú eingöngu skipuð körlum?
    Staða eins aðalframkvæmdastjóra og stöður þriggja aðstoðarframkvæmdastjóra eru skipaðar af EFTA-ráðinu að fengnum tilnefningum aðildarríkja EFTA og tilnefnir hvert ríki um sig aðeins einn einstakling. Ísland er eina EFTA-ríkið sem hefur tilnefnt konur til slíkra starfa. EFTA-ríkin hafa hins vegar ekki náð að setja sér sameiginleg markmið um hlut kvenna í yfirstjórn EFTA. Hefur Ísland beitt sér fyrir því að svo verði en ekki orðið ágengt til þessa.