Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1017  —  496. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um bifreiðakaup ráðuneytisins.


     1.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
    Ráðuneytið festi kaup á ráðherrabifreið í júlí 2014 og var Ríkiskaupum falið að sjá um örútboð þar sem m.a. voru settar umhverfis- og öryggiskröfur. Á umræddum tíma voru engar rafknúnar bifreiðar til sem uppfylltu settar öryggiskröfur. Þróunin í rafbílum hefur verið ör og nú er staðan önnur hvað varðar öryggiskröfur.
    Sú bifreið sem reyndist komast hagstæðust út úr örútboðinu var af gerðinni Land Rover Discovery SE og voru kaup fest á henni. Bifreiðin er knúin dísilvél með forþjöppu og samkvæmt handbók bifreiðarinnar er meðaleyðsla sögð vera 7,2 l/100 km. Útblástursstuðull er 189 CO2.

     2.      Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020?
    Bifreiðakaup fyrir ráðuneytið í framtíðinni munu samræmast markmiðinu.

     3.      Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar um að á umræddum tíma voru ekki á markaði rafdrifnar bifreiðar er uppfylltu bæði þær umhverfiskröfur og þær öryggiskröfur sem gerðar eru til ráðherrabifreiða.