Ferill 527. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1018  —  527. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Dóru Sif Tynes um væntanlegar breytingar á EES-samningnum.


     1.      Hvenær væntir ráðherra þess að viðræður um uppsögn Breta á EES-samningnum skv. 127. gr. samningsins hefjist?
    Samkvæmt 127. gr. EES-samningsins getur sérhver samningsaðili sagt upp aðild sinni að samningnum en tilkynna þarf öðrum samningsaðilum skriflega um uppsögn með a.m.k. tólf mánaða fyrirvara. Breska ríkisstjórnin tilkynnti um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu 29. mars 2017 og skv. 50. gr. stofnsáttmála Evrópusambandins mun Bretland því yfirgefa Evrópusambandið eigi síðar en 29. mars 2019. Ef tryggja á að Bretland hætti aðild sinni að EES-samningnum á sama degi og ríkið gengur úr Evrópusambandinu yrði því að tilkynna um uppsögn Bretlands á EES-samningnum eigi síðar en 29. mars 2018. Slík tilkynningin hefur hins vegar ekki enn borist og af þeim sökum er ekki hægt að fullyrða hvenær þær viðræður sem vísað er til í 2. mgr. 127. gr. geta hafist. Það hefur verið yfirlýst stefna breskra stjórnvalda að uppsögn EES-samnings fylgi úrsögn úr ESB. Í tengslum við fund EES-ráðsins 16. maí sl. áttu ráðherrar EFTA-ríkjanna fund með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins í viðræðum um útgöngu Bretlands úr ESB. Á fundinum gaf Barnier skýr fyrirheit um að náið samráð yrði haft við EFTA-ríkin um útgöngu Bretlands úr ESB. Enn hafa hins vegar ekki verið teknar neinar ákvarðanir um hvert verði fyrirkomulag samráðs ESB við EFTA-ríkin innan EES né hvernig viðræðum á grundvelli 127. gr. EES-samningsins verði háttað.

     2.      Hafa EFTA-ríkin rætt um sameiginleg samningsmarkmið vegna væntanlegra breytinga á EES-samningnum við uppsögn Breta?
    Eins og rakið var hér að framan þá liggur hvorki fyrir tilkynning um uppsögn aðildar Bretlands að EES-samningnum í samræmi við 127. gr. EES-samningsins né ákvörðun um hvernig slíkum viðræðum verði háttað. Enn fremur kann niðurstaðan í viðræðum Evrópusambandsins og Bretlands að hafa áhrif á efni viðræðna um uppsögn EES-samningsins að því marki sem slík niðurstaða hefði þýðingu fyrir framkvæmd reglna EES-samningsins. EFTA-ríkin hafa átt samráð sín á milli í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hefur í málflutningi allra EFTA-ríkjanna innan EES verið samhljómur um mikilvægi þess að tryggja að uppsögn Breta hafi ekki áhrif á framkvæmd EES-samningsins og að staðinn verði eftir fremsta megni vörður um réttindi ríkisborgara þeirra í Bretlandi eftir uppsögnina. Enn fremur hafa meginmarkmið íslenskra stjórnvalda í framtíðarviðræðum Íslands við Bretland verið skilgreind, en þau eru að tryggja að íslenskir aðilar hafi sama greiða aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum og þeir njóta í dag í krafti EES-samningsins og annarra samninga Íslands við Evrópusambandið og að enn fremur verði horft til þess að bæta enn aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur.

     3.      Hafa EFTA-ríkin rætt hvert hlutverk EFTA-skrifstofunnar verður í slíkum viðræðum?
    Ekki hefur verið rætt sérstaklega um hvert hlutverk EFTA-skrifstofunnar yrði í viðræðum skv. 127. gr. EES-samningsins en ganga má út frá því að hlutverk skrifstofunnar verði það sama og að jafnaði, þ.e. að veita aðildarríkjum EFTA lagalega og tæknilega aðstoð við undirbúning á hugsanlegum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og/eða undirbúning á hugsanlegum bókunum um breytingar á EES-samningnum og enn fremur aðstoða eftir þörfum við undirbúning og framkvæmd samningaviðræðna vegna uppsagnar Bretlands á EES-samningnum.

     4.      Liggur fyrir mat á starfsmannaþörf EFTA-skrifstofunnar vegna þessa verkefnis, t.d. með tilliti til breytinga sem nauðsynlegt er að gera á EES-samningnum?
    Það er hlutverk framkvæmdastjóra EFTA að stýra starfsemi EFTA-skrifstofunnar, þ.m.t. að leggja mat á það hver sé starfsmannaþörf skrifstofunnar til þess að hún geti sinnt þeim verkefnum sem skrifstofunni er falið að inna af hendi af aðildarríkjunum. Ekki liggur fyrir sérstakt mat framkvæmdastjóra EFTA á starfsmannaþörf vegna þessa verkefnis á þessum tíma. Hins vegar hefur EFTA-skrifstofan annast sambærileg verkefni áður, m.a. í tengslum við viðræður um aðild nýrra ríkja að EES og hefur þá getað fært til starfsfólk í þau verkefni sem eru aðkallandi hverju sinni.