Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1047, 146. löggjafarþing 412. mál: umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa (eftirlit með vigtunarleyfishöfum).
Lög nr. 48 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu (eftirlit með vigtunarleyfishöfum).


I. KAFLI
Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
     Komi í ljós við eftirlit Fiskistofu hjá vigtunarleyfishafa verulegt frávik á íshlutfalli í afla skips í tiltekinni fisktegund miðað við meðaltal íshlutfalls skipsins í fyrri löndunum skal Fiskistofa fylgjast með allri vigtun hlutaðeigandi vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur. Skal vigtunarleyfishafa tilkynnt um ákvörðun Fiskistofu. Vigtunarleyfishafi greiðir allan kostnað vegna eftirlits samkvæmt þessari málsgrein. Um fjárhæð og kostnað eftirlitsmannsins fer eftir gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992.

2. gr.

     Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ef ítrekað eru veruleg frávik á íshlutfalli í afla hjá skipum sem landa hjá vigtunarleyfishafa, sbr. 3. mgr. 13. gr., skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfi hjá viðkomandi vigtunarleyfishafa í allt að eitt ár.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: yfirstöðu við vigtun.

4. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2017.