Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1051, 146. löggjafarþing 400. mál: vátryggingasamstæður.
Lög nr. 60 14. júní 2017.

Lög um vátryggingasamstæður.


I. KAFLI
Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið og markmið.
     Lög þessi gilda um vátryggingasamstæður og er markmið þeirra að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra.

2. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Hluteignarfélag: Félag sem er annaðhvort móðurfélag eða félag sem á hlutdeild í öðru félagi eða félag sem tengist öðru félagi með tengslum eins og lýst er í 1. tölul. a-liðar 3. tölul. Fyrirtæki er einnig hluteignarfélag ef það hefur að mati Fjármálaeftirlitsins umtalsverð áhrif með beinum eða óbeinum atkvæðisrétti í öðru fyrirtæki.
  2. Tengt félag: Dótturfélag eða hlutdeildarfélag eða félag sem tengist öðru félagi með tengslum skv. 1. tölul. a-liðar 3. tölul.
  3. Samstæða: Hópur félaga sem:
    1. samanstendur af hluteignarfélagi, dótturfélögum þess og félögum sem móðurfélagið eða dótturfélög þess eiga hlutdeild í, auk félaga sem tengjast hvert öðru þannig að:
      1. félögum sem tengjast ekki er stjórnað í sameiningu samkvæmt samningi eða ákvæðum í samþykktum eða
      2. meiri hluti stjórnar eða stjórnendur félaga sem tengjast ekki eru sömu einstaklingar á reikningsárinu,
    2. byggist á sterkum og varanlegum fjárhagslegum tengslum samkvæmt samningi eða öðrum löggerningi og:
      1. eitt félagið er ráðandi í ákvarðanatöku fyrir öll félögin, þar á meðal ákvörðunum um fjárhagsleg málefni og
      2. stofnun og slit slíks sambands er háð samþykki eftirlitsstjórnvalds samstæðunnar.
  4. Eftirlitsstjórnvald samstæðu: Eftirlitsstjórnvald sem ber ábyrgð á samstæðueftirliti skv. 34. gr.
  5. Samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda: Varanlegt en sveigjanlegt samstarf eftirlitsstjórnvalda til að samræma og auðvelda ákvarðanir vegna eftirlits með vátryggingasamstæðu.
  6. Eignarhaldsfélag á vátryggingasviði: Félag þar sem meginstarfsemi felst í því að eiga hluti í dótturfélögum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög.
  7. Blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði: Félag sem ekki er vátryggingafélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi og a.m.k. eitt dótturfélag er vátryggingafélag.
  8. Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi: Móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, þar sem a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.

     Skilgreiningar III. kafla laga um vátryggingastarfsemi gilda þar sem orðskýringum sleppir.

3. gr.

Vátryggingasamstæður og eftirlit þeirra.
     Vátryggingasamstæða er samstæða sem skal vera undir eftirliti þegar:
  1. vátryggingafélag er hluteignarfélag í a.m.k. einu vátryggingafélagi hvort sem það starfar í aðildarríki eða ekki skv. II.–V. kafla,
  2. móðurfélag vátryggingafélags er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar hér á landi skv. II.–V. kafla,
  3. móðurfélag vátryggingafélags er eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar utan aðildarríkis eða vátryggingafélag utan aðildarríkis skv. VI. kafla,
  4. móðurfélag vátryggingafélags er blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði skv. VII. kafla.

     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi vátryggingasamstæðna fari að ákvæðum laga þessara. Lög um vátryggingastarfsemi gilda um eftirlit með vátryggingafélögum í samstæðum nema annað sé tekið fram í lögum þessum.
     Þegar Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald vátryggingasamstæðu skv. a- og b-lið 1. mgr., sem eru annaðhvort tengd eftirlitsskyldu félagi eða eru sjálf eftirlitsskyld eða blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi sem falla undir lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, getur það að höfðu samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld ákveðið að hafa ekki eftirlit með samþjöppun áhættu vegna hluteignarfélaga, sbr. 31. gr., eða eftirlit með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu, sbr. 32. gr., ef þau falla undir sambærileg ákvæði í lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
     Þegar blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi fellur undir jafngildisákvæði VI. kafla laga þessara og lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum getur Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar, að viðhöfðu samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld, einungis farið að lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.

4. gr.

Umfang samstæðueftirlits.
     Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með einstökum vátryggingafélögum utan aðildarríkja, eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, blönduðum eignarhaldsfélögum í fjármálastarfsemi og blönduðum eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði þótt þau falli undir samstæðueftirlit skv. 3. gr., sbr. þó 43. gr. þegar um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi.
     Þegar Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu getur það ákveðið að halda félagi utan samstæðueftirlits skv. 3. gr. þegar:
  1. félagið er utan aðildarríkis og lagaleg hindrun til að afla nauðsynlegra upplýsinga er til staðar, sbr. þó 19. gr.,
  2. félagið hefur óverulega þýðingu fyrir tilgang samstæðueftirlitsins,
  3. það gæfi villandi mynd fyrir samstæðueftirlitið að hafa félagið með.

     Þrátt fyrir að fleiri en eitt félag í vátryggingasamstæðu falli hvert fyrir sig utan samstæðueftirlits skv. b-lið 2. mgr. skulu þau vera undir samstæðueftirliti ef þau hafa samanlagt þýðingu fyrir samstæðueftirlitið.
     Þegar Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu og telur vátryggingafélag falla utan samstæðueftirlits skv. b- eða c-lið 2. mgr. skal það ráðfæra sig við önnur eftirlitsstjórnvöld sem málið varðar áður en ákvörðun er tekin.
     Þegar Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu og heldur vátryggingafélagi utan samstæðueftirlits skv. b- eða c-lið 2. mgr. geta eftirlitsstjórnvöld þess aðildarríkis þar sem félagið er staðsett óskað eftir upplýsingum frá móðurfélagi vátryggingasamstæðunnar vegna eftirlits með félaginu.

5. gr.

Endanlegt móðurfélag.
     Ef hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi skv. 3. gr. er móðurfélag og er sjálft dótturfélag annars vátryggingafélags, eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða blandaðs eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, sem hefur höfuðstöðvar í aðildarríki, skulu lög þessi gilda um vátryggingasamstæðu síðarnefnda félagsins ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar.
     Ef móðurfélag allra annarra félaga í vátryggingasamstæðu skv. 1. mgr. er dótturfélag fyrirtækis sem er undir viðbótareftirliti Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum getur Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsstjórnvald samstæðunnar, í samráði við önnur viðeigandi eftirlitsstjórnvöld, ákveðið að eftirlit með samþjöppun áhættu skv. 31. gr. og viðskiptum innan vátryggingasamstæðu skv. 32. gr. fari samkvæmt ákvæðum laga þessara.

6. gr.

Innlend vátryggingasamstæða er hluti af erlendri vátryggingasamstæðu.
     Hafi Fjármálaeftirlitið eftirlit með móðurfélagi vátryggingasamstæðu sem er eingöngu með starfsemi hér á landi, innlend vátryggingasamstæða, og er dóttur- eða hlutdeildarfélag endanlegs móðurfélags vátryggingasamstæðu skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. sem er með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki, erlend vátryggingasamstæða, er því heimilt í samráði við eftirlitsstjórnvald og móðurfélag erlendu vátryggingasamstæðunnar að ákveða að samstæðueftirlit Fjármálaeftirlitsins skv. 5. gr. miðist við innlendu vátryggingasamstæðuna.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að takmarka samstæðueftirlit skv. 1. mgr. við tiltekin ákvæði þessa kafla.
     Þegar Fjármálaeftirlitið ákveður val á aðferð við útreikning gjaldþolsstöðu skv. 10. gr. er sú ákvörðun endanleg. Hafi móðurfélag erlendu vátryggingasamstæðunnar ákveðið aðferðina skal Fjármálaeftirlitið nota þá aðferð við útreikning á gjaldþolsstöðu innlendu vátryggingasamstæðunnar.
     Hafi móðurfélag erlendu vátryggingasamstæðunnar fengið heimild skv. 21. eða 23. gr. til að meta gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðunnar og einstakra félaga í vátryggingasamstæðunni með eigin líkani skal það líkan einnig notað við mat á gjaldþolskröfu innlendu vátryggingasamstæðunnar.
     Telji Fjármálaeftirlitið að áhættusnið innlendu vátryggingasamstæðunnar sé ekki í samræmi við eigið líkan erlendu vátryggingasamstæðunnar getur það lagt viðbótargjaldþolskröfu á innlendu vátryggingasamstæðuna. Ef viðbótargjaldþolskrafa er ekki viðeigandi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að gjaldþolskrafa innlendu vátryggingasamstæðunnar verði metin með staðalreglunni. Fjármálaeftirlitið skal skýra slíka ákvörðun fyrir félaginu og eftirlitsstjórnvaldi samstæðunnar. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda um ákvörðun skv. a-lið 1. mgr. 35. gr. ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar.
     Ákveði Fjármálaeftirlitið að mat á gjaldþolskröfu innlendrar vátryggingasamstæðu fari samkvæmt þessari grein geta ákvæði 27. og 28. gr. ekki gilt fyrir dótturfélög vátryggingasamstæðunnar.
     Ekki er heimilt að meta gjaldþolskröfu samkvæmt þessari grein ef innlend vátryggingasamstæða sem er dótturfélag erlendrar vátryggingasamstæðu hefur fengið heimild skv. 27. og 28. gr.

7. gr.

Móðurfélag vátryggingasamstæðu í fleiri en einu aðildarríki.
     Fjármálaeftirlitið getur gert samstarfssamning við eftirlitsstjórnvöld í aðildarríkjum sem hafa eftirlit með vátryggingasamstæðum, sem starfa eingöngu í viðkomandi ríki, til að hafa samstæðueftirlit með undirsamstæðu í fleiri en einu aðildarríki.
     Fjármálaeftirlitið skal kynna samstarfssamning fyrir eftirlitsstjórnvaldi samstæðunnar og endanlegu móðurfélagi. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skal það tilkynna samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda um samstarfssamning.

II. KAFLI
Gjaldþol vátryggingasamstæðu.

8. gr.

Eftirlit.
     Eftirlit með gjaldþoli vátryggingasamstæðu skal vera skv. 2. og 3. mgr. þessarar greinar, 33. gr. og V. kafla.
     Vátryggingafélög í vátryggingasamstæðu skulu tryggja að viðurkenndir gjaldþolsliðir nemi alltaf a.m.k. gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðunnar eins og hún er metin með hliðsjón af uppbyggingu samstæðunnar.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skal eftirlit með gjaldþolskröfu skv. 2. mgr. vera hluti af eftirlitsferli þess skv. 29. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Ákvæði 115. og 117. gr. laga um vátryggingastarfsemi skulu einnig gilda um vátryggingasamstæðu að breyttu breytanda. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu tilnefnir það þann aðila sem ber ábyrgð á upplýsingaskyldu um versnandi fjárhagsstöðu samkvæmt þessum ákvæðum.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar og hefur fengið þær upplýsingar frá hluteignarfélagi að gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu sé ekki lengur fullnægt eða hætta sé á því á næstu þremur mánuðum skal það upplýsa önnur eftirlitsstjórnvöld í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda um það.

9. gr.

Tíðni mats.
     Mat skv. 2. og 3. mgr. 8. gr. skal gert a.m.k. árlega, annaðhvort af hluteignarfélagi, eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði eða blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi. Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skal það hafa eftirlit með matinu.
     Hluteignarfélag skal skila viðeigandi gögnum vegna mats til Fjármálaeftirlitsins. Ef hluteignarfélagið er ekki móðurfélag vátryggingasamstæðu skal Fjármálaeftirlitið tilnefna eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða vátryggingafélag, í samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum og vátryggingasamstæðuna sjálfa, sem skilar gögnunum.
     Félög skv. 1. mgr. skulu fylgjast með gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðunnar. Víki áhættusnið vátryggingasamstæðunnar verulega frá þeim forsendum sem lágu til grundvallar síðustu skráðu gjaldþolskröfu skal tafarlaust meta nýja gjaldþolskröfu fyrir vátryggingasamstæðuna og tilkynna niðurstöðuna til Fjármálaeftirlitsins.

10. gr.

Val á aðferð.
     Mat á gjaldþolsstöðu samstæðu vátryggingafélaga skv. a-lið 1. mgr. 3. gr. skal gert samkvæmt tæknilegum meginreglum og annaðhvort aðferð skv. 11. eða 13. gr. Matið skal gert með staðlaðri aðferð, sbr. 20.–22. gr.
     Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að tiltekin vátryggingasamstæða noti valkvæða aðferð við matið, sbr. 23. gr., eða bæði staðlaða aðferð og valkvæða aðferð ef ekki er rétt að nota eingöngu staðlaða aðferð. Fjármálaeftirlitið skal taka slíka ákvörðun í samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja og vátryggingasamstæðuna sjálfa.

11. gr.

Eignarhlutdeild.
     Mat á gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðu skal miðast við eignarhlutdeild hluteignarfélags í dóttur- og hlutdeildarfélögum þess.
     Eignarhlutdeild samkvæmt þessari grein er það hlutfall sem miðað er við í mati á gjaldþolsstöðu hvort sem um raunveruleg eignatengsl er að ræða eða ekki.
     Eignarhlutdeild er annaðhvort:
  1. þau hlutföll sem notuð eru við samstæðuuppgjör þegar staðlaða aðferðin er notuð eða
  2. beinir eða óbeinir eignarhlutir hluteignarfélags í hlutafé þegar valkvæða aðferðin er notuð.

     Ef dótturfélag hefur ekki nægt gjaldþol til að mæta gjaldþolskröfu skal draga það sem upp á vantar frá gjaldþoli samstæðu óháð því hvor aðferðin er notuð.
     Telji Fjármálaeftirlitið að ábyrgð móðurfélags vegna eignarhalds sé ótvírætt takmörkuð við hlutafjáreignina getur það heimilað að frádráttur vegna ófullnægjandi gjaldþols dótturfélags takmarkist við hlutfall eignar.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skal það ákveða, í samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum og vátryggingasamstæðuna sjálfa, þá eignarhlutdeild sem miða á við ef:
  1. engin fjárhagsleg tengsl eru á milli félaga í vátryggingasamstæðunni,
  2. eftirlitsstjórnvald hefur ákveðið að beinn eða óbeinn atkvæðisréttur eða hlutafé í félagi teljist hlutdeild vegna þess að það hefur veruleg áhrif á rekstur félagsins,
  3. eftirlitsstjórnvald hefur ákveðið að eitt félag sé móðurfélag annars félags vegna þess að fyrrnefnda félagið hafi ákvörðunarvald um rekstur og stjórn síðarnefnda félagsins.


12. gr.

Tví- eða margnýting gjaldþolsliða.
     Ekki er heimilt að telja gjaldþolslið til viðurkennds gjaldþols sem mætir gjaldþolskröfu hjá fleiri en einu vátryggingafélagi.
     Þegar hvorki stöðluð aðferð skv. 20. gr. né valkvæð aðferð skv. 23. gr. koma í veg fyrir að gjaldþolsliðir séu tvítaldir skal draga eftirtaldar fjárhæðir frá gjaldþoli vátryggingasamstæðu:
  1. virði eignar hluteignarfélags sem notuð er til að fjármagna viðurkennt gjaldþol til að mæta gjaldþolskröfu dóttur- eða hlutdeildarfélags þess,
  2. virði eignar dóttur- eða hlutdeildarfélags hluteignarfélags sem notuð er til að mæta gjaldþolskröfu hluteignarfélagsins,
  3. virði eignar dóttur- og hlutdeildarfélags hluteignarfélags sem notuð er til að mæta gjaldþolskröfu annars dóttur- og hlutdeildarfélags hluteignarfélagsins.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. má telja eftirfarandi liði til gjaldþols vátryggingasamstæðu að því gefnu að þeir séu viðurkenndir til að mæta gjaldþolskröfu viðkomandi dóttur- eða hlutdeildarfélags:
  1. óráðstafaða ágóðajöfnunarskuld í líftryggingafélagi sem er dóttur- eða hlutdeildarfélag þess hluteignarfélags sem gjaldþolsstaða samstæðu er reiknuð fyrir,
  2. óinnborgað hlutafé í dóttur- eða hlutdeildarfélagi hluteignarfélags sem gjaldþolsstaða samstæðu er reiknuð fyrir.
Til viðbótar skal í öllum tilvikum draga eftirfarandi liði frá:
  1. óinnborgað hlutafé sem nemur hugsanlegri skuldbindingu hluteignarfélagsins,
  2. óinnborgað hlutafé í hluteignarfélaginu sem nemur hugsanlegri skuldbindingu dóttur- eða hlutdeildarfélags,
  3. óinnborgað hlutafé í dóttur- og hlutdeildarfélagi sem nemur hugsanlegri skuldbindingu annars dóttur- eða hlutdeildarfélags sama hluteignarfélags.

     Telji Fjármálaeftirlitið að tilteknir viðurkenndir gjaldþolsliðir til að mæta gjaldþolskröfu dóttur- eða hlutdeildarfélags sem falla ekki undir 3. mgr. séu ekki tiltækir til að mæta gjaldþolskröfu hluteignarfélags sem gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu er metin fyrir má einungis taka þá liði með í útreikninginn ef viðurkennt er að þeir geti mætt gjaldþolskröfu dóttur- eða hlutdeildarfélagsins.
     Summa gjaldþolsliða skv. 3.–4. mgr. má ekki vera umfram gjaldþolskröfu dóttur- og hlutdeildarfélagsins.
     Allir gjaldþolsliðir dóttur- og hlutdeildarfélags hluteignarfélags sem gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu er metin fyrir og háðir eru samþykki Fjármálaeftirlitsins eða annars eftirlitsstjórnvalds skv. 4. mgr. 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi skulu eingöngu vera með í matinu að því marki sem samþykkið kveður á um.

13. gr.

Frádráttur vegna gagnkvæmrar fjármögnunar.
     Við mat á gjaldþoli vátryggingasamstæðu skal ekki telja til gjaldþols virði viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu sem verða til við gagnkvæma fjármögnun hluteignarfélagsins og einhvers eftirtalinna aðila:
  1. dóttur- eða hlutdeildarfélags þess,
  2. hluteignarfélags þess,
  3. annars dóttur- eða hlutdeildarfélags hluteignarfélags þess.

     Við mat á gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðu skal virði viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu dóttur- eða hlutdeildarfélags hluteignarfélags sem gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu er metin fyrir og verða til við gagnkvæma fjármögnun við annað dóttur- og hlutdeildarfélag hluteignarfélagsins, ekki teljast til gjaldþols.
     Það telst gagnkvæm fjármögnun þegar vátryggingafélag eða dóttur- og hlutdeildarfélag þess á hlutafé í eða kröfu á annað félag sem beint eða óbeint á viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta gjaldþolskröfu fyrrnefnda félagsins.

14. gr.

Mat á eignum og skuldbindingum.
     Mat á eignum og skuldbindingum vegna gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðu skal vera í samræmi við varfærnisreglu 74. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

15. gr.

Tengd dóttur- og hlutdeildarfélög.
     Eigi vátryggingafélag fleiri en eitt dóttur- eða hlutdeildarfélag skal hvert og eitt tekið með í mati á gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðunnar.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu getur það ákveðið að mat á gjaldþolskröfu og viðurkenndum gjaldþolsliðum til að mæta henni taki mið af kröfum í öðru aðildarríki sé dóttur- eða hlutdeildarfélagið með höfuðstöðvar þar.

16. gr.

Eignarhaldsfélög á vátryggingasviði í eigu vátryggingafélags.
     Við mat á gjaldþolsstöðu vátryggingafélags sem á, í gegnum eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, annað vátryggingafélag að dóttur- eða hlutdeildarfélagi, hvort sem það hefur höfuðstöðvar hér á landi, í öðru aðildarríki eða utan aðildarríkja, skal taka tillit til stöðu eignarhaldsfélagsins.
     Við matið skal litið á eignarhaldsfélagið eins og það sé vátryggingafélag samkvæmt ákvæðum XVI. kafla laga um vátryggingastarfsemi vegna gjaldþolskröfu og XV. kafla sömu laga vegna viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu.
     Hafi eignarhaldsfélag víkjandi lán eða aðra gjaldþolsliði sem háðir eru takmörkunum skv. 94. gr. laga um vátryggingastarfsemi skulu þeir viðurkenndir upp að því marki sem heimilt er skv. XV. kafla sömu laga.
     Aðeins er heimilt að taka viðurkennda gjaldþolsliði eignarhaldsfélags inn í mat á gjaldþoli vátryggingasamstæðu hafi Fjármálaeftirlitið samþykkt þá skv. 4. mgr. 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

17. gr.

Jafngildi vegna dóttur- og hlutdeildarfélaga utan aðildarríkja.
     Litið skal á samstæðu vátryggingafélags sem á dóttur- eða hlutdeildarfélag utan aðildarríkja sem tengt vátryggingafélag við mat á gjaldþolsstöðu. Hafi vátryggingafélag höfuðstöðvar utan aðildarríkis, þar sem vátryggingastarfsemi er starfsleyfisskyld og löggjöf um gjaldþol og gjaldþolskröfu er a.m.k. jafngild ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi, getur Fjármálaeftirlitið heimilað að mat á gjaldþolskröfu fari samkvæmt löggjöf þess ríkis.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu ákvarðar það jafngildi gjaldþolskrafna að höfðu samráði við hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld að beiðni samstæðunnar eða að eigin frumkvæði. Fjármálaeftirlitið getur ekki tekið ákvarðanir um jafngildi sem ganga gegn fyrri fordæmum nema forsendur fyrir ákvörðuninni hafi breyst verulega.
     Eftirlitsstjórnvald sem er ósammála ákvörðun Fjármálaeftirlitsins getur vísað málinu til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem við á skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina. Á sama hátt getur Fjármálaeftirlitið, ef það er ekki eftirlitsstjórnvald samstæðu, vísað máli til Eftirlitsstofnunar EFTA ef það er ósammála ákvörðun eftirlitsstjórnvalds samstæðu. Vísa þarf máli til eftirlitsstofnunar innan þriggja mánaða frá því að eftirlitsstjórnvaldið fékk tilkynningu um ákvörðun frá eftirlitsstjórnvaldi samstæðunnar.
     Fjármálaeftirlitið skal birta á vefsíðu sinni lista yfir ríki sem teljast jafngild samkvæmt þessu ákvæði.

18. gr.

Fjármálafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða sem eru dóttur- eða hlutdeildarfélög.
     Þegar gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu er reiknuð fyrir vátryggingafélag sem á fjármálafyrirtæki eða rekstrarfélag verðbréfasjóða að dóttur- eða hlutdeildarfélagi er félaginu heimilt að meta gjaldþolsstöðu í samræmi við lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Telji Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsstjórnvald samstæðu að samþætting stjórnunar í samstæðu og innra eftirlit sé ekki viðunandi hjá félögum sem ættu að teljast með í samstæðuuppgjörinu skal eingöngu heimilt að nota frádráttar- og samlagningaraðferð eða sambland af samstæðuuppgjörsaðferðinni og frádráttar- og samlagningaraðferðinni samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Samræmi skal vera í vali á aðferð á milli ára.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu getur það að beiðni hluteignarfélags eða að eigin frumkvæði heimilað vátryggingasamstæðu að draga eignarhlut skv. 1. mgr. frá viðurkenndum gjaldþolsliðum samstæðu hluteignarfélagsins.

19. gr.

Nauðsynlegar upplýsingar ekki tiltækar.
     Ef upplýsingar frá dóttur- eða hlutdeildarfélagi með höfuðstöðvar erlendis sem nauðsynlegar eru til mats á gjaldþolsstöðu samstæðu vátryggingafélags eru ekki tiltækar hjá Fjármálaeftirlitinu skal virði þess félags dregið frá viðurkenndum gjaldþolsliðum til að mæta gjaldþoli samstæðunnar í bókum hluteignarfélagsins.
     Ef upplýsingar eru ekki tiltækar skal dulinn hagnaður sem myndast við slíka eign ekki viðurkenndur sem gjaldþolsliður til að mæta gjaldþoli samstæðunnar.

20. gr.

Mat á gjaldþolsstöðu. Stöðluð aðferð.
     Mat á gjaldþolsstöðu hluteignarfélags skal byggt á samstæðuuppgjöri.
     Gjaldþolsstaða hluteignarfélags er mismunur viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu sem metnir eru á grundvelli gagna frá vátryggingasamstæðu og gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu sem metin er á grundvelli gagna frá vátryggingasamstæðunni. Ákvæði laga um vátryggingastarfsemi gilda um útreikninginn.
     Gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu skal annaðhvort meta með staðalreglu eða viðurkenndu eigin líkani samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi og skal byggð á gögnum samstæðunnar.
     Gjaldþolskrafa samstæðu skal að lágmarki vera samtala lágmarksfjármagns hluteignarfélagsins skv. 112. gr. laga um vátryggingastarfsemi og hlutdeildar í lágmarksfjármagni dóttur- og hlutdeildarfélaga í samræmi við eignarhlut hluteignarfélagsins. Lágmarki skal mætt með viðurkenndum gjaldþolsliðum 94. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Við mat á því hvort viðurkenndir gjaldþolsliðir séu til þess fallnir að mæta lágmarksgjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu gilda ákvæði 11.–19. gr. þessara laga og 1. og 2. mgr. 118. gr. laga um vátryggingastarfsemi, að breyttu breytanda.

21. gr.

Eigið líkan samstæðu.
     Umsókn um heimild til að nota eigið líkan til að meta gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu og gjaldþolskröfu einstakra vátryggingafélaga í samstæðunni skal senda Fjármálaeftirlitinu ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar. Það skal senda umsóknina til annarra aðila í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda og skal í samvinnu við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ákveða hvort heimilt sé að nota líkanið og skilyrði fyrir slíkri heimild, ef við á.
     Ákvörðun um umsókn skv. 1. mgr. skal taka innan sex mánaða frá því að eftirlitsstjórnvald samstæðunnar fékk fullbúna umsókn. Ákvörðunin er bindandi.
     Ef eitthvert eftirlitsstjórnvald vísar málinu til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, er ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar bindandi. Ekki er unnt að vísa máli til eftirlitsstofnunar eftir að sex mánaða frestur skv. 2. mgr. er liðinn.
     Taki eftirlitsstjórnvöld ekki ákvörðun innan sex mánaða og máli er ekki vísað til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar, taka ákvörðun um umsókn skv. 1. mgr. Sú ákvörðun er bindandi. Við töku ákvörðunar skal taka tillit til sjónarmiða og fyrirvara sem hafa komið frá öðrum eftirlitsstjórnvöldum. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda og hinum eftirlitsstjórnvöldunum um rökstudda ákvörðun sína.
     Telji Fjármálaeftirlitið að áhættusnið vátryggingafélags undir eftirliti þess víki verulega frá forsendum viðurkennds eigin líkans vátryggingasamstæðu og vátryggingafélagið ræður ekki bót á því getur Fjármálaeftirlitið lagt á það viðbótargjaldþolskröfu vegna umsóknarinnar skv. 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Telji Fjármálaeftirlitið slíka viðbótargjaldþolskröfu ekki eiga við getur það í undantekningartilvikum krafist þess að vátryggingafélagið meti gjaldþolskröfu sína með staðalreglu samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlitið getur lagt viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingafélagið vegna notkunar staðalreglu skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið tilkynnir umsækjanda og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda samstæðu um ákvörðun skv. 5. og 6. mgr.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um kröfur, sem umsókn skv. 1. mgr. þarf að fullnægja þegar tekin er ákvörðun með öðrum eftirlitsstjórnvöldum, sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar.

22. gr.

Viðbótargjaldþolskrafa.
     Við ákvörðun þess hvort gjaldþolskrafa vátryggingasamstæðu endurspeglar á viðeigandi hátt áhættusnið samstæðunnar skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar, kanna hvort aðstæður skv. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi eigi við. Sérstaklega skal meta:
  1. hvort sérstök áhætta samstæðunnar yrði ekki nægjanlega vel metin með staðalreglunni eða eigin líkani vegna þess að erfitt væri að mæla hana,
  2. hvort eftirlitsstjórnvald, annað en Fjármálaeftirlitið, hafi lagt viðbótargjaldþolskröfu á dóttur- eða hlutdeildarfélag skv. 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi og 21. gr. þessara laga.

     Ef áhættusnið vátryggingasamstæðu kemur ekki á viðeigandi hátt fram í gjaldþolskröfu samstæðunnar getur Fjármálaeftirlitið lagt viðbótargjaldþolskröfu á samstæðuna.
     Ákvæði 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi um viðbótargjaldþolskröfu gilda um vátryggingasamstæður að breyttu breytanda.

23. gr.

Útreikningur á gjaldþolsstöðu. Valkvæð aðferð.
     Gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu hluteignarfélags er mismunur samanlagðrar fjárhæðar viðurkenndra gjaldþolsliða skv. 2. mgr. annars vegar og samanlagðrar eignarhlutdeildar hluteignarfélagsins í dóttur- og hlutdeildarfélögum og samanlagðrar gjaldþolskröfu skv. 3. mgr. hins vegar.
     Samanlögð fjárhæð viðurkenndra gjaldþolsliða er samtala viðurkenndra gjaldþolsliða til að mæta gjaldþolskröfu hluteignarfélags og hlutdeildar hluteignarfélags í viðurkenndum gjaldþolsliðum til að mæta gjaldþolskröfu dóttur- og hlutdeildarfélaga.
     Samanlögð gjaldþolskrafa vátryggingasamstæðu er samtala gjaldþolskröfu hluteignarfélags og hlutdeildar hluteignarfélags í gjaldþolskröfu dóttur- og hlutdeildarfélaga.
     Þegar eignarhlutur í dóttur- eða hlutdeildarfélagi er að öllu leyti eða að hluta byggður á óbeinu eignarhaldi skal verðgildi eignar hluteignarfélagsins í því félagi taka tillit til slíks óbeins eignarhalds. Þá skal taka tillit til sameiginlegra hagsmuna og við mat á liðum skv. 2. og 3. mgr. skal taka tillit til hlutdeildar hluteignarfélagsins í samræmi við beint og óbeint eignarhald.
     Ákvæði 21. gr. um eigið líkan samstæðu eiga við um útreikning samkvæmt þessari grein þegar vátryggingafélög í samstæðu eða fjármálasamsteypu sækja um heimild til að nota eigið líkan til að meta gjaldþolskröfu á samstæðugrundvelli.
     Við ákvörðun á því hvort samanlögð gjaldþolskrafa skv. 3. mgr. endurspeglar á viðeigandi hátt áhættusnið vátryggingasamstæðu skal Fjármálaeftirlitið sér í lagi fylgjast með sértækum áhættuþáttum á samstæðugrundvelli sem er ekki mætt svo fullnægjandi sé vegna þess að erfitt er að mæla þá.
     Hægt er að leggja viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingasamstæðu þegar áhættusnið hennar víkur verulega frá forsendum samanlagðrar gjaldþolskröfu.
     Ákvæði 32. laga um vátryggingastarfsemi um viðbótargjaldþolskröfu gilda að breyttu breytanda.

24. gr.

Gjaldþolsstaða samstæðu.
     Ef vátryggingafélag er dótturfélag eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, hafa eftirlit með að mat á gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðu taki til eignarhaldsfélagsins skv. 10.–13. gr.
     Við matið skal litið á móðurfélagið eins og það væri vátryggingafélag og gilda ákvæði XVI. kafla laga um vátryggingastarfsemi um gjaldþolskröfu og viðurkennda gjaldþolsliði til að mæta henni.

25. gr.

Skilyrði miðlægrar áhættustýringar.
     Ákvæði 27. og 28. gr. gilda um vátryggingafélög sem eru dótturfélög vátryggingafélaga, eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði eða blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi ef eftirfarandi skilyrði eru öll uppfyllt:
  1. dótturfélagið er undir samstæðueftirliti Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitsstjórnvalds samstæðunnar,
  2. áhættustýring og innra eftirlit móðurfélagsins nær yfir dótturfélagið líka og móðurfélagið getur sýnt viðeigandi eftirlitsstjórnvöldum fram á að dótturfélaginu sé stjórnað á traustan og varfærinn hátt,
  3. móðurfélagið hefur fengið samþykki eftirlitsstjórnvalda til þess að gera sameiginlegt eigið áhættu- og gjaldþolsmat fyrir vátryggingasamstæðuna skv. 4. mgr. 33. gr.,
  4. móðurfélagið hefur fengið samþykki eftirlitsstjórnvalda til þess að gera sameiginlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu fyrir vátryggingasamstæðuna skv. 2. mgr. 41. gr.,
  5. móðurfélagið hefur fengið heimild skv. 27. og 28. gr. og umsókn hefur verið afgreidd skv. 26. gr.


26. gr.

Ákvörðun um miðlæga áhættustýringu.
     Fjármálaeftirlitið skal í samráði við eftirlitsstjórnvöld í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda ákveða hvort dótturfélög vátryggingafélags geti fallið undir sameiginlegt eigið áhættu- og gjaldþolsmat skv. 27. og 28. gr. og hvort það skuli háð sérstökum skilyrðum. Dótturfélag með starfsleyfi hér á landi skal senda umsókn til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið sendir fullbúna umsókn til annarra eftirlitsstjórnvalda í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að sameiginlegri ákvörðun um umsókn skv. 1. mgr. innan þriggja mánaða frá því að umsóknin telst fullgild. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda og hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum um rökstudda ákvörðun eftirlitsstjórnvalda.
     Ef eitthvert eftirlitsstjórnvaldanna vísar máli til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar, taka ákvörðun í samræmi við niðurstöðu eftirlitsstofnunarinnar. Ákvörðunin er bindandi.
     Eftir að þriggja mánaða frestur skv. 2. mgr. er liðinn eða sameiginleg ákvörðun hefur verið tekin er ekki unnt að vísa máli til eftirlitsstofnunar.
     Ef ákvörðun eftirlitsstofnunar er hafnað skv. 2. og 3. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 44. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina skal Fjármálaeftirlitið taka ákvörðun. Sú ákvörðun er bindandi.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um framkvæmd sameiginlegrar ákvörðunar skv. 2. mgr.
     Ef eftirlitsstjórnvöld taka ekki sameiginlega ákvörðun innan þriggja mánaða frestsins skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, taka ákvörðun um umsókn skv. 1. mgr. Fjármálaeftirlitið skal taka tillit til sjónarmiða og fyrirvara hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda og eftirlitsstjórnvaldanna í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda. Ákvörðunin skal rökstudd og í henni skulu tilgreind sjónarmið og fyrirvarar hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda. Ákvörðunin er bindandi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna dótturfélaginu og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda um ákvörðunina.

27. gr.

Miðlæg áhættustýring. Ákvörðun um gjaldþolskröfu.
     Ef gjaldþolskrafa dótturfélags er metin með eigin líkani getur Fjármálaeftirlitið lagt til að lögð verði viðbótargjaldþolskrafa á dótturfélagið umfram þá gjaldþolskröfu sem fæst með notkun líkansins ef það telur að áhættusnið dótturfélagsins víki verulega frá forsendum líkansins og félagið hefur ekki brugðist á viðeigandi hátt við athugasemdum Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið getur í undantekningartilvikum krafist þess að dótturfélagið meti gjaldþolskröfu þess samkvæmt staðalreglunni. Fjármálaeftirlitið skal kynna slíka ákvörðun fyrir dótturfélaginu og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Ef gjaldþolskrafa dótturfélags er metin samkvæmt staðalreglu getur Fjármálaeftirlitið, í undantekningartilvikum, lagt til að dótturfélagið skipti stikum í staðalreglunni út fyrir stikur sem eru einkennandi fyrir félagið sjálft við mat á gjaldþolskröfu vegna líf-, skaða- og heilsutryggingaáhættu skv. 32. gr. laga um vátryggingastarfsemi ef það telur að áhættusnið þess víki verulega frá forsendum staðalreglunnar og vátryggingafélagið hefur ekki brugðist á viðeigandi hátt við athugasemdum Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitið skal kynna tillöguna fyrir dótturfélaginu og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Ákvörðun samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda vegna tillögu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessari grein skal vera bindandi.
     Ef Fjármálaeftirlitið og eftirlitsstjórnvald samstæðu eru ósammála getur Fjármálaeftirlitið vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA innan mánaðar frá ákvörðun samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda. Sama gildir ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðunnar. Eftirlitsstofnun EFTA tekur ákvörðun innan mánaðar skv. 2. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1094/2010 um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina. Ekki er unnt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA eftir að mánaðarfresturinn er liðinn eða samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda hefur tekið ákvörðun. Ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar er bindandi.

28. gr.

Miðlæg áhættustýring. Gjaldþolskröfu og kröfu um lágmarksfjármagn ekki fullnægt.
     Fullnægi dótturfélag ekki gjaldþolskröfu skal Fjármálaeftirlitið án tafar senda samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda endurreisnaráætlun þess skv. 117. gr. laga um vátryggingastarfsemi þar sem fram kemur hvernig dótturfélagið hyggst fullnægja gjaldþolskröfu innan sex mánaða frá því að ljóst var að félagið fullnægði henni ekki.
     Samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda skal gera allt sem í hans valdi stendur til að ná samkomulagi um áætlunina innan fjögurra mánaða frá því að ljóst var að dótturfélagið fullnægði ekki gjaldþolskröfunni. Ef samkomulag næst ekki skal Fjármálaeftirlitið taka ákvörðun um hvort samþykkja skuli endurreisnaráætlunina, að teknu tilliti til sjónarmiða og fyrirvara annarra eftirlitsstjórnvalda í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Komist Fjármálaeftirlitið að því að fjárhagsstaða dótturfélags fari versnandi, sbr. 115. gr. laga um vátryggingastarfsemi, skal það tilkynna samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda án tafar um fyrirhugaðar eftirlitsaðgerðir. Ef ekki er um neyðartilvik að ræða skal fara yfir eftirlitsaðgerðirnar í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda. Nái samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda ekki samkomulagi um tillögur Fjármálaeftirlitsins innan mánaðar frá tilkynningu skal Fjármálaeftirlitið ákveða hvort gripið skuli til fyrirliggjandi aðgerða, að teknu tilliti til sjónarmiða og fyrirvara annarra eftirlitsstjórnvalda í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Fullnægi dótturfélag ekki kröfu um lágmarksfjármagn skal Fjármálaeftirlitið án tafar senda samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda fjármögnunaráætlun svo að kröfu um lágmarksfjármagn sé fullnægt innan þriggja mánaða frá því að ljóst var að félagið uppfyllti ekki kröfuna, sbr. 118. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Einnig skal upplýsa samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda um ráðstafanir Fjármálaeftirlitsins sem eiga að tryggja að dótturfélagið fullnægi kröfum um lágmarksfjármagn.
     Fjármálaeftirlitið getur vísað máli til Eftirlitsstofnunar EFTA og óskað aðstoðar vegna ágreinings um samþykki endurreisnaráætlunar, þar á meðal ósamkomulags um framlengingu á fjögurra mánaða fresti skv. 2. mgr. og ágreinings um að samþykkja fyrirhugaðar eftirlitsaðgerðir innan mánaðar skv. 3. mgr.
     Ekki er unnt að vísa máli til Eftirlitsstofnunar EFTA:
  1. eftir að fjögurra mánaða frestur skv. 2. mgr. eða mánaðarfrestur skv. 3. mgr. er liðinn,
  2. eftir að samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda hefur náð samkomulagi skv. 2. mgr. og 3. málsl. 3. mgr.,
  3. ef um neyðartilvik er að ræða skv. 2. málsl. 3. mgr.

     Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsstjórnvald samstæðu skal fresta áhrifum ákvörðunar ef máli er vísað til Eftirlitsstofnunar EFTA eða Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar. Ákvörðun eftirlitsstofnunar er bindandi. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna dótturfélaginu og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda um ákvörðunina.

29. gr.

Miðlæg áhættustýring fellur niður.
     Ákvarðanir skv. 27. og 28. gr. falla niður ef:
  1. skilyrðum a-liðar 25. gr. er ekki lengur fullnægt,
  2. skilyrðum b-liðar 25. gr. er ekki lengur fullnægt og vátryggingasamstæða gerir ekki nauðsynlegar endurbætur innan viðeigandi tíma til að uppfylla skilyrðin,
  3. skilyrðum c- og d-liðar 25. gr. er ekki lengur fullnægt.

     Í tilvikum a-liðar 1. mgr. ákveður Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsstjórnvald samstæðu, í samráði við samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda að dótturfélag sé ekki lengur hluti af samstæðueftirliti þess og skal án tafar tilkynna viðeigandi eftirlitsstjórnvaldi og móðurfélagi um þá ákvörðun.
     Móðurfélag ber ábyrgð á að skilyrði b–d-liðar 25. gr. séu uppfyllt á hverjum tíma. Séu skilyrðin ekki uppfyllt skal móðurfélagið án tafar upplýsa eftirlitsstjórnvald samstæðu og eftirlitsstjórnvald dótturfélags um það og framvísa áætlun um hvernig skilyrðin verða uppfyllt aftur innan tilhlýðilegra tímamarka.
     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsstjórnvald samstæðu, sannreyna a.m.k. árlega að skilyrðum b–d-liðar 25. gr. sé fullnægt. Fjármálaeftirlitið skal einnig sannreyna skilyrðin að beiðni eftirlitsstjórnvalds dótturfélags. Leiði athugun Fjármálaeftirlitsins í ljós að skilyrðin séu ekki uppfyllt skal móðurfélagið framvísa áætlun um hvernig skilyrðin verða aftur uppfyllt innan tilhlýðilegra tímamarka.
     Ef Fjármálaeftirlitið telur, eftir samráð innan samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda, að áætlun skv. 3. eða 4. mgr. sé ófullnægjandi eða hún er ekki innleidd innan tímamarka skal það líta svo á að skilyrðum b–d-liðar 25. gr. sé ekki lengur fullnægt og án tafar upplýsa viðeigandi eftirlitsstjórnvald um það.
     Fyrirkomulag skv. 27. og 28. gr. telst aftur í gildi þegar móðurfélag sendir nýja umsókn og fær samþykki skv. 26. gr.

30. gr.

Dótturfélög.
     Ákvæði 25.–29. gr. gilda, að breyttu breytanda, um dótturfélög eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði eða blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi.

III. KAFLI
Samþjöppun áhættu og viðskipti innan vátryggingasamstæðu.

31. gr.

Eftirlit með samþjöppun áhættu.
     Vátryggingafélög, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði eða blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu a.m.k. árlega skila gögnum til Fjármálaeftirlitsins, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, um verulega samþjöppun áhættu á samstæðugrundvelli.
     Móðurfélag vátryggingasamstæðu ber ábyrgð á því að gögnum skv. 1. mgr. sé skilað til Fjármálaeftirlitsins. Ef móðurfélagið er ekki vátryggingafélag skal eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða vátryggingafélag í samstæðunni sem Fjármálaeftirlitið ákveður, eftir samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld og samstæðuna sjálfa, skila gögnunum.
     Eftirlit með samþjöppun áhættu fellur undir eftirlitsferli Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitsstjórnvalds samstæðu.
     Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsstjórnvald samstæðu skal, eftir samráð við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld og vátryggingasamstæðuna, tilgreina þær tegundir áhættu sem vátryggingafélög í tiltekinni samstæðu skulu ávallt gera grein fyrir skv. 1. mgr. Taka skal tillit til sérstakrar áhættu og skipulags áhættustýringar í vátryggingasamstæðunni.
     Fjármálaeftirlitið skal enn fremur tilgreina, að höfðu samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld og vátryggingasamstæðu, hvað telst veruleg samþjöppun áhættu að teknu tilliti til gjaldþolskrafna eða vátryggingaskuldar eða hvors tveggja.
     Fjármálaeftirlitið skal fylgjast sérstaklega með mögulegri hættu á smitáhrifum innan vátryggingasamstæðu og hættu á hagsmunaárekstrum auk stigs og umfangs áhættu.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um hvernig veruleg samþjöppun áhættu er skilgreind og viðmiðunarmörk skv. 4. mgr., á hvaða formi vátryggingasamstæður skulu skila upplýsingum um verulega samþjöppun áhættu og ferli við slíka upplýsingagjöf.

32. gr.

Eftirlit með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu.
     Vátryggingafélög, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði eða blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu a.m.k. árlega skila gögnum til Fjármálaeftirlitsins, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, um umtalsverð viðskipti vátryggingafélaga innan vátryggingasamstæðu, þar á meðal viðskipti við einstaklinga með náin tengsl við félag í samstæðunni. Ákvæðið á ekki við ef 2. mgr. 5. gr. gildir um vátryggingasamstæðuna.
     Upplýsingum um afar umtalsverð viðskipti innan vátryggingasamstæðu skal skilað til Fjármálaeftirlitsins án tafar.
     Móðurfélag vátryggingasamstæðu ber ábyrgð á gagnaskilum til Fjármálaeftirlitsins. Ef móðurfélagið er ekki vátryggingafélag skal eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða vátryggingafélag í samstæðunni sem Fjármálaeftirlitið ákveður, eftir samráð við önnur viðeigandi eftirlitsstjórnvöld og vátryggingasamstæðuna sjálfa, skila gögnunum.
     Eftirlit með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu fellur undir eftirlitsferli Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitsstjórnvalds samstæðunnar.
     Fjármálaeftirlitið skal að höfðu samráði við viðeigandi eftirlitsstjórnvöld og vátryggingasamstæðuna tilgreina þær tegundir viðskipta sem vátryggingafélög í tiltekinni samstæðu skulu gera grein fyrir. Við eftirlit með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu skal Fjármálaeftirlitið sér í lagi fylgjast með mögulegri hættu á smitáhrifum innan samstæðunnar og hættu á hagsmunaárekstrum auk stigs og umfangs áhættu.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar um hvernig afar umtalsverð viðskipti innan vátryggingasamstæðu eru skilgreind, á hvaða formi vátryggingasamstæður skulu skila upplýsingum um tilgreind viðskipti innan samstæðunnar og ferli við slíka upplýsingagjöf.

IV. KAFLI
Áhættustýring og innra eftirlit.

33. gr.

Stjórnkerfi samstæðu.
     Kröfur skv. VIII. kafla laga um vátryggingastarfsemi um stjórn, áhættustýringu og innra eftirlit skulu að breyttu breytanda gilda um vátryggingasamstæður. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skulu kerfi vegna áhættustýringar og innra eftirlits vera starfrækt sambærilega í öllum félögum sem falla undir samstæðueftirlit skv. a- og b-lið 1. mgr. 3. gr. til þess að auðvelda eftirlit á samstæðugrundvelli.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal innra eftirlitskerfi vátryggingasamstæðu hafa a.m.k.:
  1. kerfi vegna gjaldþols vátryggingasamstæðu til að greina og mæla áhættuþætti sem skipta máli og til að tengja viðurkennda gjaldþolsliði við áhættuþætti,
  2. traust uppgjörs- og bókhaldsferli sem fylgist með og hefur umsjón með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu og samþjöppun áhættu.

     Eftirlit með kerfum og uppgjörsferlum skv. 1. og 2. mgr. skal vera hluti af eftirlitsferli Fjármálaeftirlitsins ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu.
     Hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi skal framkvæma eigið áhættu- og gjaldþolsmat skv. 45. gr. laga um vátryggingastarfsemi fyrir vátryggingasamstæðuna. Eftirlit með mati samstæðunnar skal vera hluti af eftirlitsferli Fjármálaeftirlitsins.
     Sé gjaldþolsstaða vátryggingasamstæðu reiknuð út samkvæmt staðlaðri aðferð skv. 20. gr. skal hluteignarfélagið, eignarhaldsfélagið á vátryggingasviði eða blandaða eignarhaldsfélagið í fjármálastarfsemi gefa Fjármálaeftirlitinu upplýsingar sem sýna mun á samtölu gjaldþolskröfu allra dóttur- og hlutdeildarfélaga í samstæðunni annars vegar og gjaldþolskröfu samstæðunnar hins vegar.
     Hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi getur með samþykki Fjármálaeftirlitsins gert eigið áhættu- og gjaldþolsmat skv. 45. gr. laga um vátryggingastarfsemi samtímis fyrir vátryggingasamstæðuna og dótturfélög í samstæðunni og gert grein fyrir því í sameiginlegu skjali.
     Áður en Fjármálaeftirlitið samþykkir sameiginlegt eigið áhættu- og gjaldþolsmat skv. 6. mgr. skal það ráðfæra sig við eftirlitsstjórnvöld í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda og taka tillit til sjónarmiða þeirra.
     Geri vátryggingasamstæða sameiginlegt eigið áhættu- og gjaldþolsmat skal það sent samtímis til allra hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda. Það leysir þó ekki hlutaðeigandi dótturfélög undan þeirri skyldu að tryggja að skilyrði 45. gr. laga um vátryggingastarfsemi séu uppfyllt.

V. KAFLI
Eftirlitsaðgerðir.

34. gr.

Eftirlitsstjórnvald vátryggingasamstæðu.
     Hafi Fjármálaeftirlitið eftirlit með öllum vátryggingafélögum í samstæðu skal það vera eftirlitsstjórnvald samstæðunnar.
     Fjármálaeftirlitið er einnig eftirlitsstjórnvald samstæðu:
  1. ef það hefur veitt vátryggingafélagi sem stjórnar vátryggingasamstæðu starfsleyfi,
  2. ef vátryggingasamstæðu er ekki stjórnað af vátryggingafélagi en:
    1. Fjármálaeftirlitið hefur veitt vátryggingafélagi starfsleyfi og það er eina dóttur- eða hlutdeildarfélag eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi,
    2. Fjármálaeftirlitið hefur veitt vátryggingafélagi starfsleyfi og móðurfélag þess er blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar hér á landi,
    3. fleiri en eitt eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi sem hafa höfuðstöðvar í mismunandi aðildarríkjum fara fyrir vátryggingasamstæðunni og það vátryggingafélag samstæðunnar sem er með stærsta efnahagsreikninginn hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu,
    4. ekkert vátryggingafélag í vátryggingasamstæðunni er með höfuðstöðvar í sama aðildarríki og eignarhaldsfélagið á vátryggingasviði eða blandaða eignarhaldsfélagið í fjármálastarfsemi sem fer fyrir samstæðunni og það vátryggingafélag vátryggingasamstæðunnar sem er með stærsta efnahagsreikninginn hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu,
    5. vátryggingasamstæðan hefur ekki móðurfélag en það vátryggingafélag samstæðunnar sem er með stærsta efnahagsreikninginn hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu.

     Við sérstakar aðstæður getur Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, tekið ákvörðun með eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja að beiðni þeirra um að víkja frá viðmiðum 2. mgr., ef þau eiga ekki við vegna uppbyggingar vátryggingasamstæðu og mikilvægis vátryggingafélaganna vegna starfsemi þeirra í öðrum aðildarríkjum, og tilnefnt annað eftirlitsstjórnvald sem eftirlitsstjórnvald.
     Við ákvörðun skv. 3. mgr. skal Fjármálaeftirlitið leita allra leiða til að ná sameiginlegri ákvörðun við tilnefningu á öðru eftirlitsstjórnvaldi innan þriggja mánaða frá því að beiðni barst. Áður en ákvörðun er tekin um annað eftirlitsstjórnvald skal vátryggingasamstæða fá tækifæri til að tjá sig um tilnefninguna. Ákvörðunin skal vera rökstudd og skal Fjármálaeftirlitið tilkynna vátryggingasamstæðunni um ákvörðunina.
     Ef eftirlitsstjórnvald annars aðildarríkis vísar máli til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA innan þriggja mánaða frests skv. 4. mgr. skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðun skv. 3. mgr. þar til eftirlitsstofnunin hefur tekið ákvörðun og skal þá staðfesta þá ákvörðun. Ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar er bindandi og skal Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu, kynna hana fyrir vátryggingasamstæðunni og samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Ekki er unnt að vísa máli til Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir að þriggja mánaða frestur skv. 5. mgr. er liðinn eða eftirlitsstjórnvöld hafa tekið ákvörðun.

35. gr.

Réttindi og skyldur Fjármálaeftirlitsins ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skal það:
  1. samræma söfnun og miðlun gagnlegra eða nauðsynlegra upplýsinga vegna samfellds reksturs og neyðarástands, þar á meðal miðlun upplýsinga sem skipta máli fyrir hlutverk eftirlitsstjórnvalda,
  2. bera ábyrgð á eftirlitsferli vátryggingasamstæðu og meta fjárhagslega stöðu hennar,
  3. meta hvernig vátryggingasamstæða uppfyllir ákvæði um gjaldþol, samþjöppun áhættu og viðskipti innan samstæðunnar skv. II. og III. kafla,
  4. meta stjórnkerfi vátryggingasamstæðu skv. 33. gr. og hvort stjórn og forstjóri fullnægi kröfum 43. gr. laga þessara og 41. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  5. skipuleggja og samræma eftirlitsstarfsemi, bæði vegna samfellds reksturs og neyðarástands, a.m.k. árlega með hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum á fundum; taka skal tillit til eðlis, umfangs og margbreytileika áhættunnar sem fylgir starfsemi félaganna í vátryggingasamstæðu,
  6. sjá um önnur verkefni, gera ráðstafanir og taka ákvarðanir sem Fjármálaeftirlitinu ber samkvæmt lögum þessum og lögum um vátryggingastarfsemi, einkum að leiða ferli prófana á eigin líkönum á samstæðugrundvelli skv. 21. og 23. gr. og ferli vegna heimildar skv. 26.–29. gr.

     Til að auðvelda eftirlit með vátryggingasamstæðu skv. 1. mgr. skal setja á fót samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda undir formennsku Fjármálaeftirlitsins.
     Samstarfshópur eftirlitsstjórnvalda á að tryggja að samvinna, upplýsingaskipti og ráðgjöf milli eftirlitsstjórnvalda í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda sé í samræmi við lög þessi til að tryggja samleitni í ákvörðunum þeirra og starfsemi.
     Starfsemi samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda er byggð á samræmdu fyrirkomulagi milli hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvalda. Komi upp ágreiningur vegna verkefna skv. 1. mgr. eða samvinnu eftirlitsstjórnvalda getur Fjármálaeftirlitið vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Fjármálaeftirlitið skal taka ákvörðun í samræmi við ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar og senda hana til hinna eftirlitsstjórnvaldanna.
     Aðilar að samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda eru eftirlitsstjórnvald vátryggingasamstæðu, eftirlitsstjórnvöld þeirra ríkja þar sem dótturfélög í vátryggingasamstæðu hafa höfuðstöðvar og Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA eftir því sem við á.
     Eftirlitsstjórnvöld mikilvægra útibúa og tengdra félaga hafa heimild til að vera aðilar að samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda þegar það er talið mikilvægt vegna aðgengis að upplýsingum. Heimilt er að takmarka aðkomu einstakra eftirlitsstjórnvalda að tilteknum verkefnum ef það eykur skilvirkni samstarfshópsins.
     Fjármálaeftirlitið ákveður með hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöldum samræmt fyrirkomulag sem starfsemi samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda byggist á.
     Áður en Fjármálaeftirlitið tekur ákvörðun sem eftirlitsstjórnvald samstæðu ber því að taka tillit til ráðlegginga Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar. Ákvörðunin skal rökstudd og bera með sér skýringar ef ekki er farið að ráðleggingum eftirlitsstofnunarinnar. Ákvörðunina skal senda til hinna eftirlitsstjórnvaldanna.
     Í fyrirkomulagi um samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda skv. 4. mgr. skal tilgreina ákvörðunarferla skv. 21., 22. og 34. gr. og samráðsfyrirkomulag og samráð skv. 5. mgr. 8. gr. Fyrirkomulagið má einnig hafa verkferla vegna samráðs og samvinnu eftirlitsstjórnvaldanna.
     Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. getur fyrirkomulag um samstarfshóp eftirlitsstjórnvalda falið í sér að verkefnum sé úthlutað til annarra eftirlitsstjórnvalda, Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem við á ef það hefur í för með sér skilvirkara eftirlit og skerðir ekki einstakar eftirlitsaðgerðir eftirlitsstjórnvalda í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda.
     Fjármálaeftirlitið skal senda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnuninni upplýsingar um starfsemi samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda og erfiðleika sem upp geta komið í starfseminni.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur um starfsemi samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar til að tryggja almennt samræmi á fyrirkomulagi samstarfshóps eftirlitsstjórnvalda ásamt reglum um samhæfingu eftirlitsstjórnvalds samstæðunnar.

36. gr.

Samvinna og upplýsingaskipti.
     Fjármálaeftirlitið skal vinna náið með eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja í samstæðu, sérstaklega ef um er að ræða fjárhagslega erfiðleika. Það skal veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja allar viðeigandi upplýsingar til að tryggja eftirlit samkvæmt lögum þessum. Upplýsingar skulu veittar án tafar.
     Ef Fjármálaeftirlitið fær ekki upplýsingar innan tveggja vikna frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja getur það óskað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA.
     Fjármálaeftirlitið skal án tafar óska eftir fundi með eftirlitsstjórnvöldum samstæðu ef:
  1. það fær vitneskju um að veruleg frávik séu frá því að gjaldþolskröfu eða kröfu um lágmarksfjármagn sé fullnægt hjá einstökum félögum í vátryggingasamstæðu,
  2. það fær vitneskju um að veruleg frávik séu frá því að gjaldþolskröfu vátryggingasamstæðu sé fullnægt óháð því hvaða aðferð er notuð við matið,
  3. upp koma aðrar óvenjulegar aðstæður.


37. gr.

Samráð.
     Fjármálaeftirlitið skal ráðgast við eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja í vátryggingasamstæðu ef ákvörðun er mikilvæg vegna eftirlits þeirra áður en ákvörðun er tekin skv. 35. gr. vegna:
  1. breytinga á hluthafafyrirkomulagi eða á framkvæmd eða stjórnun félags innan vátryggingasamstæðu sem krefst leyfis frá Fjármálaeftirlitinu,
  2. ákvörðunar um framlengingu á endurreisn fjárhags skv. 3. og 4. mgr. 117. gr. laga um vátryggingastarfsemi,
  3. meiri háttar viðurlaga eða sérstakra ráðstafana Fjármálaeftirlitsins, þar á meðal að leggja á viðbótargjaldþolskröfu og takmarkanir vegna notkunar á eigin líkani.

     Ef Fjármálaeftirlitið er ekki eftirlitsstjórnvald samstæðu skal það ráðfæra sig við það eftirlitsstjórnvald sem gegnir því hlutverki vegna b- og c-liðar 1. mgr. Ef ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er byggð á upplýsingum frá öðru eftirlitsstjórnvaldi skal það ráðfæra sig við það áður en ákvörðun er tekin.
     Þrátt fyrir ákvæði 35. gr. getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að ráðfæra sig ekki við önnur eftirlitsstjórnvöld ef um neyðartilfelli er að ræða eða slíkt samráð mundi draga úr áhrifum ákvörðunarinnar. Í slíkum tilfellum skal Fjármálaeftirlitið án tafar tilkynna viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum um ákvörðunina.

38. gr.

Beiðni um upplýsingar.
     Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsstjórnvald samstæðu, getur boðið eftirlitsstjórnvaldi þar sem móðurfélagið hefur höfuðstöðvar að óska eftir upplýsingum fyrir sig frá móðurfélaginu sem gætu skipt máli vegna ákvæða 35. gr.
     Fjármálaeftirlitið skal óska eftir upplýsingum frá eftirlitsstjórnvaldi ef það eftirlitsstjórnvald hefur þegar fengið upplýsingar skv. 2. mgr. 39. gr.

39. gr.

Aðgangur að upplýsingum.
     Einstaklingum og lögaðilum sem eru undir samstæðueftirliti og tengdum félögum og hluteignarfélögum þeirra er heimilt að skiptast á upplýsingum sem varða samstæðueftirlitið.
     Ákvæði 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi um skil á gögnum gilda um vátryggingasamstæðu að breyttu breytanda.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá gagnaskilum sem eru oftar en árlega ef öll vátryggingafélög innan vátryggingasamstæðu eru undanþegin þeim skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi og að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika í starfsemi samstæðunnar.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá ársfjórðungslegum skilum á lista yfir allar eignir ef öll vátryggingafélög innan vátryggingasamstæðu eru undanþegin þeim skv. 31. gr. laga um vátryggingastarfsemi og að teknu tilliti til eðlis, stærðar og margbreytileika í starfsemi samstæðunnar og markmiða þessara laga um stöðugleika á vátryggingamarkaði.
     Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir nauðsynlegum upplýsingum beint frá félagi í vátryggingasamstæðu vegna samstæðueftirlits ef félag innan samstæðunnar hefur ekki veitt upplýsingarnar innan tilskilins tímafrests.

40. gr.

Upplýsingar sannreyndar.
     Fjármálaeftirlitið getur sannreynt upplýsingar sem eru fengnar skv. 39. gr. hjá vátryggingafélagi hér á landi og tengdum félögum þess, móðurfélagi vátryggingafélagsins og tengdum félögum þess.
     Fjármálaeftirlitið skal sannreyna upplýsingar hjá vátryggingafélagi hér á landi fyrir eftirlitsstjórnvöld annarra aðildarríkja ef þau óska eftir slíku. Fjármálaeftirlitið getur sannreynt upplýsingarnar sjálft eða heimilað endurskoðanda eða sérfræðingi að sannreyna þær. Einnig getur það heimilað viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi að sannreyna upplýsingarnar. Fjármálaeftirlitið getur alltaf óskað eftir því að taka þátt í að sannreyna upplýsingar ef það gerir það ekki sjálft. Eftirlitsstjórnvaldi samstæðu skal tilkynnt um að upplýsingar séu sannreyndar.
     Ef Fjármálaeftirlitið verður ekki við því að sannreyna upplýsingar, eða í því tilviki þegar Fjármálaeftirlitið óskar eftir að sannreyna upplýsingar hjá eftirlitsstjórnvaldi í öðru aðildarríki og ekki er orðið við því innan tveggja vikna eða ekki er unnt að verða við því að leyfa viðkomandi eftirlitsstjórnvaldi eða Fjármálaeftirlitinu að taka þátt í að sannreyna upplýsingarnar, er unnt að óska eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar sem getur tekið þátt í athugunum ef tvö eða fleiri eftirlitsstjórnvöld framkvæma þær saman.

41. gr.

Skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu vátryggingasamstæðu.
     Hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í vátryggingasamstæðu ber ábyrgð á að birta árlega opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu á samstæðugrundvelli. Ákvæði 54.–57. gr. laga um vátryggingastarfsemi skulu gilda að breyttu breytanda.
     Hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í vátryggingasamstæðu getur í samráði við Fjármálaeftirlitið birt skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu fyrir alla samstæðuna. Upplýsingar skulu þá vera á samstæðugrundvelli í samræmi við 1. mgr., vera sérgreindar um einstök dótturfélög samstæðunnar og birtar skv. 54.–57. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við önnur eftirlitsstjórnvöld í samstarfshópi eftirlitsstjórnvalda áður en heimild skv. 2. mgr. er veitt og taka tillit til athugasemda og skilyrða af þeirra hálfu.
     Ef skýrsla er birt fyrir alla samstæðuna skv. 2. mgr. og hún inniheldur ekki upplýsingar um einstök dótturfélög sem Fjármálaeftirlitið fær hjá sambærilegum félögum og verulega vantar upp á upplýsingarnar getur Fjármálaeftirlitið krafið viðkomandi dótturfélög um nauðsynlegar viðbótarupplýsingar.

42. gr.

Uppbygging vátryggingasamstæðu.
     Hluteignarfélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði og blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi í vátryggingasamstæðu bera ábyrgð á að birta árlega opinberlega upplýsingar um uppbyggingu, stjórnarhætti og stjórnkerfi samstæðunnar. Lýsa skal öllum dótturfélögum, mikilvægum tengdum félögum og mikilvægum útibúum sem tilheyra samstæðunni.

43. gr.

Stjórn og forstjóri.
     Stjórn og forstjóri eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði og blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi skulu uppfylla hæfnis- og hæfiskröfur 41. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

44. gr.

Kröfur um úrbætur.
     Fullnægi vátryggingafélög í samstæðu ekki kröfum II.–IV. kafla, gjaldþoli er ógnað eða viðskipti innan samstæðu eða samþjöppun áhættu ógna fjárhagsstöðu vátryggingafélaganna getur Fjármálaeftirlitið, ef það er eftirlitsstjórnvald samstæðu eða eftirlitsstjórnvald vátryggingafélags, farið fram á að gripið sé til nauðsynlegra úrbóta eins fljótt og hægt er.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu en blandaða eignarhaldsfélagið á vátryggingasviði eða blandaða eignarhaldsfélagið í fjármálastarfsemi hefur höfuðstöðvar í öðru aðildarríki skal það tilkynna eftirlitsstjórnvöldum þess aðildarríkis um aðstæður skv. 1. mgr. svo að það geti gripið til nauðsynlegra aðgerða. Fjármálaeftirlitið skal samræma eftirlitsaðgerðir sínar við aðgerðir þess eftirlitsstjórnvalds.

VI. KAFLI
Ríki önnur en aðildarríki.

45. gr.

Staðfesting á jafngildi.
     Ef vátryggingafélag með starfsleyfi hér á landi er hluti af vátryggingasamstæðu þar sem móðurfélagið er með höfuðstöðvar utan aðildarríkis skal Fjármálaeftirlitið sannreyna hvort vátryggingafélagið er undir eftirliti sem telst jafngilt ákvæðum laga þessara hvað varðar eftirlit með samstæðum vátryggingafélaga skv. a- og b-lið 1. mgr. 3. gr.
     Ef Fjármálaeftirlitið er eftirlitsstjórnvald samstæðu skv. 2. mgr. 34. gr. getur það að beiðni móðurfélagsins eða vátryggingafélags sem leyfi hefur til að starfa í aðildarríki eða að eigin frumkvæði sannreynt hvort eftirlitið er jafngilt ákvæðum laga þessara.
     Við ákvörðun um jafngildi skv. 2. mgr. skal Fjármálaeftirlitið hafa samráð við önnur eftirlitsstjórnvöld sem málið varðar áður en það tekur ákvörðun. Ákveðin viðmið sem ráðherra setur í reglugerð skulu höfð til hliðsjónar við ákvörðunina. Fjármálaeftirlitið skal ekki taka ákvörðun um jafngildi eftirlits utan aðildarríkja sem er í andstöðu við fyrri ákvörðun um það ríki nema verulegar breytingar hafi orðið á eftirliti í því ríki.
     Ef eftirlitsstjórnvöld greinir á um ákvörðun skv. 2. mgr. er hægt að óska eftir aðstoð Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, innan þriggja mánaða eftir að eftirlitsstjórnvald samstæðunnar tilkynnti um ákvörðun sína.
     Ef eftirlit ríkis telst tímabundið jafngilt gildir 46. gr. Þó skal eftirlitsstjórnvald samstæðu vera innan aðildarríkja ef efnahagsreikningur vátryggingafélags sem staðsett er í aðildarríki er stærri en efnahagsreikningur móðurfélagsins sem er utan aðildarríkja.
     Fjármálaeftirlitið skal birta á vefsíðu sinni lista yfir ríki sem teljast jafngild samkvæmt þessu ákvæði.

46. gr.

Jafngildi.
     Teljist eftirlit utan aðildarríkja vera jafngilt eftirliti samkvæmt lögum þessum skv. 45. gr. skal eftirlit með vátryggingasamstæðu vera hjá eftirlitsstjórnvaldi þess ríkis í samræmi við V. kafla.
     Ákvæði V. kafla gilda um samstarf Fjármálaeftirlitsins við eftirlitsstjórnvöld utan aðildarríkja.

47. gr.

Eftirlit ekki jafngilt.
     Hafi vátryggingafélag ekki jafngilt eftirlit skv. 45. gr. gilda annaðhvort 8.–24. gr. og 31.–44. gr. eða ákvæði 4. mgr.
     Almennar meginreglur og aðferðir skv. II.–V. kafla skulu notaðar vegna eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, blandaðra eignarhaldsfélaga í fjármálastarfsemi og vátryggingafélaga utan aðildarríkja.
     Við mat á gjaldþoli vátryggingasamstæðu skal litið á móðurfélagið eins og vátryggingafélag sem skal uppfylla skilyrði laga um vátryggingastarfsemi hvað varðar viðurkennda gjaldþolsliði auk gjaldþolskröfu sem metin er skv. 16. gr. vegna eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða blandaðs eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða gjaldþolskröfu sem metin er skv. 17. gr. vegna vátryggingafélags utan aðildarríkja.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt, eftir að hafa ráðfært sig við hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld, að beita öðrum aðferðum sem tryggja viðeigandi eftirlit með vátryggingafélögum í vátryggingasamstæðu. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að stofnað sé eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi með höfuðstöðvar í aðildarríki. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðeigandi eftirlitsstjórnvöldum um þá aðferð sem það notar.

48. gr.

Móðurfélag utan aðildarríkja er sjálft dótturfélag.
     Ef móðurfélag skv. 45. gr. er sjálft dótturfélag eignarhaldsfélags á vátryggingasviði eða blandaðs eignarhaldsfélags í fjármálastarfsemi, sem er með höfuðstöðvar utan aðildarríkja eða er dótturfélag vátryggingafélags utan aðildarríkja, skal Fjármálaeftirlitið eingöngu sannreyna að endanlegt móðurfélag hafi jafngilt eftirlit. Ef eftirlitið telst ekki jafngilt getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að staðfestingarferli fari fram á öðru móðurfélagi sem er lægra sett í samstæðunni hvort sem um er að ræða eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi eða vátryggingafélag utan aðildarríkja.
     Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja ákvörðun skv. 1. mgr.
     Ákvæði 47. gr. gilda eftir því sem við á.

VII. KAFLI
Blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði.

49. gr.

Viðskipti innan vátryggingasamstæðu.
     Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með viðskiptum milli vátryggingafélaga og blandaðs eignarhaldsfélags á vátryggingasviði og tengdra félaga þegar móðurfélag eins eða fleiri vátryggingafélaga er blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði.
     Ákvæði 32., 36.–40. og 44. gr. skulu gilda að breyttu breytanda.

VIII. KAFLI
Viðurlög.

50. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:
  1. Ákvæði 3. mgr. 29. gr. um miðlæga áhættustýringu.
  2. Ákvæðum 1. og 2. mgr. 32. gr. um eftirlit með viðskiptum innan vátryggingasamstæðu.
  3. Ákvæðum 4. og 5. mgr. 33. gr. um stjórnkerfi samstæðu.
  4. Ákvæði 1. mgr. 41. gr. um birtingu skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 100 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

51. gr.

Sátt.
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

52. gr.

Réttur einstaklinga.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

53. gr.

Fyrning stjórnvaldssektar.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

IX. KAFLI
Reglugerðir, innleiðing og gildistaka.

54. gr.

Reglugerðir.
     Ráðherra setur reglugerð um:
  1. við hvaða aðstæður samstæðueftirlit fer fram hér á landi skv. 1. mgr. 6. gr. og hvenær unnt er að gera samstarfssamning skv. 7. gr.,
  2. aðferðir til að meta gjaldþolsstöðu vátryggingasamstæðna skv. 10.–19. gr. og framkvæmd skv. 20.–23. gr.,
  3. viðmið um mat á því hvort löggjöf um gjaldþol og gjaldþolskröfu utan aðildarríkja jafngildi því sem mælt er fyrir um í lögum um vátryggingastarfsemi skv. 17. gr.,
  4. viðmið við mat á því hvort skilyrði skv. 25. gr. séu uppfyllt,
  5. verklag fyrir Fjármálaeftirlitið vegna upplýsingaskipta og framkvæmdar skv. 26.–29. gr.,
  6. viðmið við mat á því hvað sé neyðartilvik skv. 3. mgr. 28. gr.,
  7. verulega samþjöppun áhættu skv. 31. gr.,
  8. hvað teljast umtalsverð viðskipti innan vátryggingasamstæðu skv. 32. gr.,
  9. viðmið skv. 2. og 3. mgr. 34. gr.,
  10. hvað séu mikilvæg útibú skv. 6. mgr. 35. gr.,
  11. samvinnu og upplýsingaskipti milli eftirlitsstjórnvalda skv. 36. gr. sem byggjast á tæknilegum framkvæmdastöðlum Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar,
  12. hvaða upplýsingar þarf að birta og verklag vegna sameiginlegrar skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu skv. 41. gr.,
  13. viðmið vegna ákvörðunar um jafngildi og skilyrði þess að ríki fái tímabundið jafngilt eftirlit skv. 45. gr.

     Ráðherra getur sett reglugerð um aðgerðir Fjármálaeftirlitsins skv. 44. gr.

55. gr.

Innleiðing.
     Með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011, frá 1. júlí 2011, sem birt var 6. október 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, eru með lögum þessum tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/138/EB um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II). Einnig eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/51/ESB sem breytti tilskipun 2009/138/EB.

56. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Eftirlit getur talist jafngilt skv. 45. gr. tímabundið til 31. desember 2020. Jafngildið má framlengja um eitt ár ef það er nauðsynlegt vegna mats á jafngildinu.

Samþykkt á Alþingi 1. júní 2017.