Ferill 507. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1067  —  507. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um útboðsskyldu á opinberri þjónustu.


     1.      Hvernig hyggjast stjórnvöld fylgja því ákvæði reglugerðar nr. 904/2016 um útboðsskyldu að viðmiðunarfjárhæð sé 115.620.000 kr. vegna innkaupa á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu sem opinberir aðilar gera?
    Í október sl. tóku gildi ný lög um opinber innkaup, nr. 120/2016. Markmiðið með lögunum er að tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.
    Öll innkaup opinberra aðila á vörum, þjónustu og verkum yfir innlendum og erlendum viðmiðunarfjárhæðum skulu auglýst opinberlega á útboðsvef sem er sameiginlegur auglýsingavettvangur fyrir opinber innkaup. Skv. 4. gr. reglugerðar nr. 904/2016 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup er viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu skv. VIII. kafla laga um opinber innkaup, sem gerðir eru af opinberum aðilum, 115.620.000 kr.
    Í VIII. kafla laga um opinber innkaup er að finna sérreglur um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu. Í greinargerð með frumvarpinu sem síðar varð að lögum um opinber innkaup kemur fram að tekin sé upp léttari málsmeðferð til að koma á samningum um tiltekna þjónustu á sviði heilbrigðis-, félags- og menningarmála. Samningar um heilbrigðisþjónustu eru gerðir í samræmi við kaflann ef verðmæti samninganna er jafnhátt eða hærra en viðmiðunarfjárhæðin.
    Sjúkratryggingar Íslands annast samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Sjúkratryggingar Íslands og velferðarráðuneytið hafa haft samráð við Ríkiskaup um samningsgerð um heilbrigðisþjónustu eftir gildistöku hinna nýju laga. Samningar um heilbrigðisþjónustu verða gerðir í samræmi við þá framkvæmd sem lýst er í lögum um sjúkratryggingar og VIII. kafla laga um opinber innkaup.

     2.      Verða einhverjir fyrirvarar gerðir um hverjir geta boðið í heilbrigðisþjónustu og ef svo er, í hverju verða þeir fólgnir?
    Líkt og fyrr greinir verða samningar gerðir í samræmi við lög um sjúkratryggingar og VIII. kafla laga um opinber innkaup. Í 94. gr. laga um opinber innkaup kemur fram að við val á tilboði skuli kaupandi gæta að meginreglum 15. gr. laganna, um jafnræði og gagnsæi. Kaupanda er ávallt heimilt að taka tillit til sérstakra eiginleika þjónustunnar og leggja þá eiginleika til grundvallar við val tilboða. Í þeim tilgangi getur hann tekið m.a. tillit til nauðsynlegra gæða þjónustu, hagkvæmni, nýsköpunar, sérþarfa mismunandi flokka notenda þjónustunnar og aðkomu og valdeflingar notenda.
    Skv. 95. gr. laganna er kaupanda heimilt að takmarka rétt til þátttöku í innkaupaferlum vegna opinberra samninga í vissum tilfellum. Aðeins er heimilt að takmarka þátttökurétt við fyrirtæki eða samtök sem uppfylla ákveðin skilyrði. Skilyrðin sem fyrirtæki eða samtök þurfa að uppfylla eru eftirfarandi:
     a.      hafa það að markmiði að veita opinbera þjónustu sem um getur í 1. mgr.,
     b.      hagnaður er endurfjárfestur í þágu markmiða fyrirtækisins; ef hagnaði er úthlutað eða endurúthlutað er skilyrði að það byggist á þátttökusjónarmiðum,
     c.      stjórnskipulag eða eignarhaldsfyrirkomulag fyrirtækisins sem framkvæmir samninginn byggist á meginreglunum um eignarhald starfsmanna eða þátttöku, eða krefst virkrar þátttöku starfsmanna, notenda eða hagsmunaaðila, og
     d.      hlutaðeigandi kaupandi hefur ekki gert samning við fyrirtækið um viðkomandi þjónustu samkvæmt þessari grein á síðustu þremur árum.
    Hámarksgildistími slíkra samninga er þrjú ár.

     3.      Verður gerður greinarmunur annars vegar á stofnunum sem ekki eru starfræktar í hagnaðarskyni, svo sem Reykjalundi, SÁÁ og NLFÍ, og hins vegar aðilum sem hafa arðsemissjónarmið að markmiði í rekstri sínum?
    Almennt er ekki gert ráð fyrir því að gerður verði greinarmunur á aðilum sem starfa í hagnaðarskyni og þeim sem gera það ekki. Hins vegar er möguleiki að gera þá kröfu við útboð á þjónustu að óheimilt sé að taka arð út úr rekstri, líkt og gert var í nýlegu útboði um rekstur heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

     4.      Telur ráðherra að ákvæði reglugerðarinnar gefi tilefni til að endurskoða gerð og fyrirkomulag þjónustusamninga við stofnanir sem starfræktar eru fyrir opinbert fé en án allra hagnaðarmarkmiða og ef svo er, að hvaða leyti?
    Gerð og fyrirkomulag þjónustusamninga verður í samræmi við lög um sjúkratryggingar og lög um opinber innkaup. Líkt og að framan er getið hafa Sjúkratryggingar Íslands og velferðarráðuneytið haft samráð við Ríkiskaup um samningsgerð eftir gildistöku hinna nýju laga, sbr. VIII. kafla laga um opinber innkaup. Ráðherra telur ekki þörf á að endurskoða gerð samninganna frekar.

     5.      Kemur til álita að gera samninga beint við slíkar stofnanir líkt og við stofnanir í hreinni ríkiseigu án milligöngu Sjúkratrygginga Íslands?
    Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, annast Sjúkratryggingar Íslands framkvæmd sjúkratrygginga og semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögunum, í samræmi við stefnumörkun ráðherra á hverjum tíma. Sjúkratryggingum Íslands er þannig falið það hlutverk að semja um heilbrigðisþjónustu með lögunum og því kemur ekki til álita að ráðuneytið sinni því hlutverki að óbreyttum lögum.

     6.      Telur ráðherra að ákvæði framangreindrar reglugerðar leiði til aukinnar einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu?
    Ráðherra gerir ekki ráð fyrir því að ákvæði laga um opinber innkaup og reglugerðar nr. 904/2016 leiði til aukinnar einkavæðingar innan heilbrigðisþjónustunnar. Þess skal getið að lögin taka ekki til svokallaðra innanhússsamninga, þ.e. samninga sem gerðir eru á milli opinberra aðila.

     7.      Hafa möguleg áhrif laga um opinber innkaup verið metin af stjórnvöldum og hvaða afleiðingar það gæti haft á áratuga innviðauppbyggingu í mannafla, húsnæði og aðstöðu ef t.d. erlendir aðilar kæmu að rekstri heilbrigðisþjónustu að hluta eða öllu leyti?
    Í greinargerð með frumvarpi því sem síðar varð að lögum um opinber innkaup er að finna kafla um mat á áhrifum laganna. Um möguleg áhrif laganna vísast til þeirrar umfjöllunar. Áhrif laganna hafa ekki verið metin sérstaklega í velferðarráðuneytinu.