Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1068  —  466. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um útgjöld til heilbrigðismála á Norðurlöndum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað kemur fram í gögnum frá OECD um samanburð á opinberum útgjöldum til heilbrigðismála á Norðurlöndum sem vísað er til á blaðsíðu 81 í þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018–2022 (402. mál)?

    Í fjármálaáætlun 2018–2022 er birtur samanburður á opinberum útgjöldum á Norðurlöndunum til sjö málaflokka samkvæmt opinberum tölum frá OECD fyrir árið 2015. Þessar tölur sýna skiptingu útgjalda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu niður á málefnasvið sem eru sambærileg milli landa. Í áætluninni eru tölurnar birtar samkvæmt svokölluðum SNA-staðli (e. System of National Accounts). Þessi staðall er nýttur þegar sýna á útgjöld ólíkra málaflokka milli landa með sambærilegum hætti. Ef einungis hefði verið horft til heilbrigðisútgjalda hefði SHA (e. System of Health Accounts) staðallinn verið notaður en hann er sérsniðinn til samanburðar á heilbrigðisútgjöldum. Tilgangur framsetningarinnar í fjármálaáætluninni er hins vegar sá að varpa ljósi á skiptingu opinberra útgjalda á Norðurlöndunum og hvernig stjórnvöld kjósa að skipta þessum útgjöldum á milli málefnasviða en ekki eingöngu að horfa á heilbrigðisútgjöld, þess vegna eru tölurnar birtar samkvæmt SNA-staðlinum.
    Í gögnum frá OECD sem birtar eru í fjármálaáætlun 2018–2022 um samanburð á opinberum útgjöldum til heilbrigðismála á Norðurlöndunum kemur fram að á Íslandi nema þau um 7,4% af vergri landsframleiðslu en meðaltal að Íslandi undanskildu er 7,8%. Sé hins vegar horft til opinberra útgjalda samkvæmt SHA staðlinum eru útgjöld hins opinbera 7,2% af vergri landsframleiðslu.

Opinber útgjöld á Norðurlöndunum til heilbrigðismála.

Heimild: OECD
Hlutfall af VLF í %, 2015
SNA-staðall SHA-staðall
Danmörk 8,6 8,9
Finnland 7,2 7,3
Ísland 7,4 7,2
Noregur 8,4 8,5
Svíþjóð 6,9 9,3

    Eins og sjá má í töflunni hér fyrr er lítill munur á tölunum eftir því hvor staðallinn er notaður og má álykta að hann sé í flestum tilfellum innan skekkjumarka að Svíþjóð frátöldu. Ástæðan fyrir þessum mun þar á opinberum útgjöldum til heilbrigðismála eftir því hvor staðallinn er notaður getur verið sá að hluti af þeim opinberu útgjöldum sem flokkuð eru með heilbrigðismálum í hinum löndunum eru flokkuð með almannatryggingum og velferðarmálum í Svíþjóð en þær tölur voru ekki birtar í fjármálaáætluninni vegna ólíks fyrirkomulags milli landanna.