Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1072  —  329. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni um gjaldeyrisútboð og afnám gjaldeyrishafta.


    Við vinnslu svarsins var að hluta til byggt á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.

     1.      Telur ráðherra að það sé almenn skoðun innan ráðuneytisins að hægt hefði verið að eyða snjóhengjunni vorið 2016 á evrugenginu 165–170 kr. og ef svo er, á hverju er sú skoðun byggð?
    Þátttaka í gjaldeyrisútboði Seðlabankans ræðst af því verði sem aflandskrónueigendum stendur til boða fyrir að framselja eignir sínar. Það verð sem aflandskrónueigendum var boðið þótti varlegt, m.a. með tilliti til forðahalds í erlendum gjaldeyri og greiðslujafnaðargreiningar. Líklegt er að þeim mun betra gengi sem býðst, þeim mun betri verði þátttaka í útboðum. Ráðherra hefur ekki upplýsingar um skoðanir einstakra starfsmanna um þetta efni.

     2.      Hverja telur ráðherra ástæðu þess að þáverandi stjórnvöld létu ekki verða af því að eyða snjóhengjunni vorið 2016 á evrugenginu 165–170 kr.?
    Viðskiptin við aflandskrónueigendur vorið 2016 fóru fram með gjaldeyrisútboði Seðlabankans þar sem bankinn bauðst til að kaupa aflandskrónur í skiptum fyrir reiðufé í erlendum gjaldeyri. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var útboðsverðið byggt á greiðslujafnaðargreiningu bankans. Greiningin miðaðist við að gjaldeyrisforði bankans dygði til að kaupa allar útistandandi aflandskrónueignir án þess að forðinn færi að marki niður fyrir 150% af svo kölluðu RAM-viðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Forði af þeirri stærð var talinn nauðsynlegur til að tryggja að almenn losun fjármagnshafta raskaði ekki efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika. Ef öll fjárhæð útistandandi aflandskróna hefði verið keypt á genginu 165 kr. gagnvart evru hefði forðinn farið niður fyrir þetta viðmið.

     3.      Hversu mikið telur ráðherra að Íslendingar hefðu grætt á því ef erlendum krónueigendum hefði staðið til boða að flytja eignir sínar úr landi á evrugenginu 165–170 kr. samanborið við þau kjör sem þeim bjóðast nú?
    Útreikningar á þessu hafa hvorki farið fram í ráðuneytinu né Seðlabankanum. Í þessu samhengi er rétt að minna á að við framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta hefur það ekki verið sjálfstætt markmið að hámarka hagnað í viðskiptum við þá aðila sem hafa sætt takmörkunum vegna haftanna heldur leysa greiðslujafnaðarvanda. Ákvarðanir eru teknar miðað við aðstæður og upplýsingar á þeim tíma sem þær eru teknar, en ekki miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir síðar.

     4.      Hve mikill kostnaður hefur fallið á Seðlabanka Íslands og/eða ríkissjóð vegna þess að það tækifæri sem gafst að mati ráðherra til að losna við snjóhengjuna vorið 2016 var látið ónotað?
    Vísað er til svars við 3. tölulið fyrirspurnarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er ógerlegt að meta hver niðurstaðan hefði orðið ef tilboð um kaup á 165 kr. á evru hefði staðið öllum aflandskrónueigendum til boða eftir útboðið og því er ekki augljóst að kostnaður hafi fallið á ríkissjóð eða bankann vegna þessa.

     5.      Hefur verið hafin rannsókn á því innan ráðuneytisins, eða á öðrum vettvangi sem undir ráðherra heyrir, hvers vegna þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og önnur stjórnvöld létu hjá líða að nýta það tækifæri sem gafst vorið 2016 til að ráða niðurlögum snjóhengjunnar? Ef svo er ekki, hvað veldur?
    Engin rannsókn af þessu tagi stendur yfir eða er fyrirhuguð.

     6.      Telur ráðherra að þeir aflandskrónueigendur sem tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 16. júní 2016 og skiptu krónum í erlendan gjaldeyri í kjölfar þess á genginu 190 kr. fyrir eina evru geti átt rétt á bótum eða tilboði um sömu kjör og boðin eru aflandskrónueigendum nú, þ.e. 137,50 kr. fyrir eina evru? Lítur ráðherra svo á að yfirlýsingar hans í ræðu á þingfundi 13. mars sl. geti styrkt stöðu þeirra sem leystu krónur sínar út á evrugenginu 190 kr.?
    Fjölmörg útboð hafa farið fram á aflandskrónum og almennt hefur verð evru í þeim farið lækkandi rétt eins og gerst hefur á álandsmarkaði. Þeir sem taka þátt í útboðum gera það miðað við mat á aðstæðum á hverjum tíma, en breytingar geta orðið síðar þar sem krónan styrkist eða veikist. Framtíðarþróun vita hvorki þeir sem selja aflandskrónurnar né kaupendur á þeim tíma sem ákvörðun er tekin um viðskipti.
    Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sem lagt var fram í maí 2016, koma áform stjórnvalda um næstu skref við losun fjármagnshafta og meðferð aflandskrónueigna fram með skýrum hætti. Af greinargerðartextanum má ráða skýran vilja til að beina sjónum við losun fjármagnshafta næst að einstaklingum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum og að á meðan á því stendur muni aflandskrónueignir þurfa að sæta takmörkunum. Jafnframt er í greinargerðinni að finna ítarlegan rökstuðning fyrir þeim aðgerðum sem lagðar voru til í frumvarpinu. Þannig lá ljóst fyrir að þeir aflandskrónueigendur sem tækju þátt í útboðinu myndu ekki þurfa sæta þeim takmörkunum sem ný lög kváðu á um. Loks mátti öllum vera ljóst að efnahagsforsendur gætu breyst á þeim tíma sem liði fram að því að stjórnvöld afléttu takmörkunum á aflandskrónueigendur.
    Þátttaka í gjaldeyrisútboði Seðlabankans var valfrjáls og enginn aflandskrónueigandi var skuldbundinn til að taka þátt í því frekar en hann vildi. Þessir valkostir og fyrirsjáanleiki í málinu gera það að verkum að afar veikar forsendur eru til að höfða mál til greiðslu bóta vegna þess sem síðar var gert eða sagt í afnámsferlinu enda hefur aldrei legið fyrir nein staðfesting á því að þeir aflandskrónueigendur sem ekki tóku þátt í útboðinu í júní 2016 myndu síðar í afnámsferlinu verða leystir undan sínum takmörkunum á verri kjörum en þeim sem boðin voru sumarið 2016.

     7.      Hvaða hagsmunir telur ráðherra að hafi legið til grundvallar ákvörðunum um krónuútboðið 2016? Lítur ráðherra svo á að aðrir hagsmunir, og þá hverjir, hafi ráðið för þegar síðustu ráðstafanir til afnáms gjaldeyrishafta voru gerðar?
    Sú áætlun um losun fjármagnshafta sem unnið hefur verið eftir frá árinu 2015 er í meginatriðum þríþætt. Í mjög stuttu máli felur áætlunin í sér að leysa fyrst þann greiðslujafnaðarvanda sem slitabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja sköpuðu, því næst að halda gjaldeyrisútboð vegna hinna svokölluðu aflandskrónueigna og afmarka að því loknu eftirstæðar aflandskrónueignir á meðan höftin eru losuð á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Þessi áætlun hefur gengið eftir í öllum meginatriðum. Við framkvæmd áætlunarinnar hefur verið haft að leiðarljósi að leysa greiðslujafnaðarvanda í varfærnum fyrirframskipulögðum skrefum með það að markmiði að tefla ekki stöðugleika og almannahag í tvísýnu með losun hafta.

     8.      Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi þingi um afnám gjaldeyrishafta?
    Í mars sl. kynntu stjórnvöld mikilvægt skref við afnám fjármagnshafta þegar þau voru að langmestu leyti afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði. Í byrjun maí lagði ráðherra fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 37/2016, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, sem miðar að því að rýmka úttektarheimildir aflandskrónueigenda af þeim reikningum sem háðir eru takmörkunum.