Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1073  —  467. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um lífeyrissjóði.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu og byggjast eftirfarandi svör að hluta til á upplýsingum þaðan.

     1.      Hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli og aðrar reglur gilda um lífeyrissjóði? Hver hefur eftirlit með því að lífeyrissjóðir fari eftir þessum ákvæðum, hverju fyrir sig? Liggur fyrir að einhverjir lífeyrissjóðir hafi brotið gegn þessum ákvæðum sl. tíu ár? Ef svo er, hvaða lífeyrissjóðir voru það og í hverju fólust brotin?
    Þau almennu lög sem gilda um lífeyrisréttindi og lífeyrissjóði eru eftirfarandi:
          lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
          lög nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði,
          lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
    Sérlög sem gilda um lífeyrissjóði eru eftirfarandi:
          lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
          lög nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga,
          lög nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda,
          lög nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda,
          lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.
    Þær reglugerðir og reglur sem ráðuneytið hefur sett og gilda um lífeyrismál eru m.a. eftirfarandi:
          reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
          reglugerð nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingaverndar,
          reglugerð nr. 290/2009 um fyrirkomulag og eftirlit með tímabundnum útgreiðslum séreignarsparnaðar,
          reglugerð nr. 916/2009 um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar,
          reglugerð nr. 991/2014 um samræmt verklag við ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar,
          reglugerð nr. 1120/2016 um úthlutun og greiðslu fjárframlags ársins 2016 til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða,
          reglur nr. 705/2008, um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna sem falla undir norrænt samkomulag um lífeyrismál.
    Þá gilda um lífeyrissjóði aðrar reglur sem Fjármálaeftirlitið hefur sett og sem útfæra nánar ákvæði í lögum um lífeyrissjóði. Nálgast má reglurnar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Að auki fellur starfsemi lífeyrissjóða að nokkru leyti undir löggjöf á sviði fjármálamarkaða sem og almenna lagaumgjörð viðskiptalífsins, svo sem varðandi fyrirtækjaskrá.
    Að því er varðar hvort að einhverjir lífeyrissjóðir hafi brotið gegn ákvæðum upp talinna laga og reglna sl. tíu ár upplýsist að umræddar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna settar samkvæmt þeim, sbr. 44. gr. laga nr. 129/1997, en Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð eftirlitsstofnun með sérstaka stjórn. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði hjá Fjármálaeftirlitinu hefur athugasemdum þar sem úrbóta hefur verið krafist eða ábendingum komið á framfæri verið beint til lífeyrissjóða í gegnum tíðina vegna atriða sem varða starfsemi og rekstur lífeyrissjóða. Fram kom að flestar athugasemdir eftirlitsins hafi verið vegna eftirlits á lögum nr. 129/1997 og reglum þeim tengdum. Vakin var athygli á að hægt er að nálgast allar gagnsæistilkynningar um ákvarðanir sem teknar hafa verið af Fjármálaeftirlitinu á heimasíðu eftirlitsins.

     2.      Telur ráðherra samþykktir einhvers lífeyrissjóðs samræmast fyllilega 10. meginreglu hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum um að fyrirtæki skuli vinna gegn öllum formum spillingar? Ef svo er, hvað í samþykktunum tryggir að þeir samræmist fyllilega þessari meginreglu?
    Umræddar upplýsingar liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu né Fjármálaeftirlitinu. Ráðuneytinu er þó kunnugt um að m.a. Lífeyrissjóður verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hafi tekið upp reglu Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og að reglurnar hafi fremur verið innleiddar í hluthafastefnu eða fjárfestingarstefnu sjóðanna en í samþykktir þeirra. Þá telur ráðuneytið jafnframt rétt að geta þess að hinn 1. júlí nk. taka gildi lög er varða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða þar sem fram kemur krafa um að lífeyrissjóðir setji sér siðferðisleg viðmið við fjárfestingar.

     3.      Hvaða hópar launafólks eru skyldaðir með lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða öðrum reglum til að greiða í tiltekna lífeyrissjóði og þá hvaða sjóði? Er löglegt að vinnuveitandi gefi til kynna að þeir sem fyrir hann starfa greiði í tiltekinn eða tiltekna lífeyrissjóði? Ef svo er, er tilefni til að lögin banni slíkt? Ef ekki, hvaða ákvæði banna slíkt, hver eru viðurlögin við að brjóta þau og hvert sækir fólk rétt sinn ef það telur á sér brotið? Telur ráðherra rétt að tryggja launafólki raunverulegt frelsi til að velja sér lífeyrissjóð án ytri þrýstings?
    Að því er varðar hvaða hópar launafólks eru skyldaðir að lögum að greiða í tiltekna lífeyrissjóði er kveðið á um slíka skyldu í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Tilvísað ákvæði fellur hins vegar úr gildi 1. júní nk. og munu kjarasamningar eftirleiðis kveða á um lífeyrissjóðsaðild starfsmanna ríkisins. Þá er í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, kveðið á um skylduaðild bænda og maka þeirra að sjóðnum. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt til við Alþingi að lögin verði felld úr gildi og bíður málið afgreiðslu þingsins.
    Með setningu laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var með 2. mgr. 2. gr. laganna áréttað að meginlínur aðildar að lífeyrissjóðum skyldu áfram starfstengdar og í samræmi við þann kjarasamning sem ákvarðaði lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Ekki voru taldar forsendur til að hlutast um þá skipan lífeyrismála að þau væru á samningsforræði aðila vinnumarkaðarins, líkt og greinir í athugasemdum við greinina, í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 129/1997. Þar greinir jafnframt að í þeim tilvikum þar sem venjur tengjast framkvæmd kjarasamninga og þótt ekki væru skýr ákvæði í kjarasamningi um aðild að tilteknum lífeyrissjóði yrðu ákvæði um greiðsluskyldu atvinnurekanda áfram skýrð í samræmi við þá framkvæmd sem í gildi var fyrir gildistöku laga nr. 129/1997. Þá hafa ekki þótt efni til að banna sérstaklega slíka tilhögun á aðild að lífeyrissjóðum. Hins vegar er kveðið á um í greininni að taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða ráðningarbundin starfskjör séu ekki byggð á kjarasamningi velji launþegi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Þeir sem standa utan kjarasamninga eiga því fleiri valkosti og hefur þeim farið fjölgandi á liðnum misserum þar sem æ fleiri sjóðir hafa breytt reglum sínum um aðild.
    Að öðru leyti vísast í sérstaka umræðu á Alþingi frá 22. mars 2017, 349. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem rætt var um kosti og galla þess að lögfesta frelsi launafólks til að velja sér lífeyrissjóð.

     4.      Í hvaða lífeyrissjóðum kjósa sjóðfélagar stjórnarmenn, og þá hve marga af heildarfjölda stjórnarmanna? Telur ráðherra að veita eigi sjóðfélögum rétt með lögum til að kjósa stjórnir lífeyrissjóða? Ef svo er, hve marga af heildarfjölda stjórnarmanna? Ef ekki, hvaða hagsmunir vega að mati ráðherra þyngra?
    Stjórnir lífeyrissjóða eru jafnan skipaðar fulltrúum launamanna og launagreiðenda. Í lífeyrissjóðum sem grundvallaðir eru á kjarasamningum er stjórn undantekningarlaust skipuð fulltrúum launamanna og launagreiðenda, sem eru valdir með einum eða öðrum hætti af þeim aðilum sem standa að hverjum sjóði um sig. Í sjóðum sem eru af annarri rót runnir er misjafn háttur hafður á við stjórnarskipun. Stjórnir Almenna lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs verkfræðinga, sem báðir eru starfsgreinasjóðir, eru t.d. kjörnar beinni kosningu á ársfundum sjóðanna úr hópi sjóðfélaga. Í Lífeyrissjóði verkfræðinga kjósa sjóðfélagar tvo af fimm stjórnarmönnum en í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins sitja eingöngu sjóðfélagar sem eru kosnir á ársfundi sjóðsins. Fleiri dæmi eru um að stjórnarmenn séu kjörnir að hluta á ársfundi úr hópi sjóðfélaga. Í Íslenska lífeyrissjóðnum eru til að mynda fjórir stjórnarmenn af fimm kjörnir beinni kosningu á ársfundi og sá fimmti er skipaður af bankaráði Landsbanka Íslands. Samsvarandi hlutfall er í Frjálsa lífeyrissjóðnum eða fjórir á móti þremur. Þá er stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna skipuð sex mönnum, þar af þremur skipuðum af aðildarfyrirtækjunum og þremur kjörnum af sjóðfélögum á ársfundi sjóðsins. Að lokum gildir sérregla um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda en þar skipar fjármála- og efnahagsráðherra sjö menn í stjórn, fjóra eftir tilnefningu Landssamtaka lífeyrissjóða og þrjá án tilnefningar.
    Eins og fyrr greinir hafa sjóðfélagar formlega aðkomu að stjórnum sjóðanna, ýmist beina eða óbeina. Ekki hefur þótt ástæða til að kveða sérstaklega á um slíkan rétt í lögum.
    Að lokum er enn vísað til sérstakrar umræðu á Alþingi frá 22. mars 2017, 349. mál á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem rætt var um hvernig hægt væri að auka áhrif sjóðfélaga á stefnu og fjárfestingar lífeyrissjóða.