Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1074  —  460. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um gögn um útgjöld til heilbrigðismála á Norðurlöndum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Til hvaða gagna frá OECD um samanburð á opinberum útgjöldum til heilbrigðismála á Norðurlöndum er vísað á blaðsíðu 81 í þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018–2022 (402. mál) og hvað kemur fram í þeim gögnum?

    Í fjármálaáætluninni er gerð grein fyrir samanburði á opinberum útgjöldum á Norðurlöndum til sjö málaflokka samkvæmt opinberum tölum frá OECD fyrir árið 2015. Með þessu er leitast við að sýna með heildstæðri nálgun skiptingu útgjalda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu niður á málaflokka sem eru sambærilegir við önnur lönd. Samanburðurinn er settur fram til að gefa yfirlit yfir skiptingu útgjalda eftir málaflokkum milli landa en ekki til að skýra breytileika á umfangi opinberrar þjónustu milli landa en til þess þarf nánari greiningar og upplýsingar um einstaka málaflokka. Töluleg framsetning í fjármálaáætluninni miðar að því að sýna umfang opinberrar þjónustu hér á landi í samanburði við hin Norðurlöndin en ekki til að bera sérstaklega saman heilbrigðisútgjöld milli landa. Tölurnar eru fengnar á vef OECD þar sem þær eru birtar samkvæmt SNA-staðli (e. System of National Account). Gögnin má finna á heimasíðu OECD á eftirfarandi vefslóð:
data.oecd.org/gga/general-government-spending.htm
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur á vef sínum fjallað um ólíkar aðferða við flokkun og mælingu útgjalda til heilbrigðismála:
www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/vegna-gagnryni-a-framsetningu-utgjalda-til-heilbrigdismala