Ferill 366. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1075  —  366. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um markaðar tekjur til vegamála.

     1.      Hverjar voru árlegar heildartekjur ríkissjóðs á árunum 2013–2016 af:
                  a.      bensíngjaldi, sérstöku bensíngjaldi, kolefnisgjaldi af bensíni og virðisaukaskatti á þessa gjaldstofna,
                  b.      olíugjaldi, kolefnisgjaldi á olíu og virðisaukaskatti á þessa gjaldstofna,
                  c.      bifreiðagjöldum,
                  d.      innflutningstollum á bifreiðar?

    Upplýsingar um vöru- og kolefnisgjöld á eldsneyti, bifreiðagjald og innflutningstolla (réttnefni vörugjald) á bifreiðar, sbr. a–d-lið, eru fengnar úr ríkisreikningi fyrir árin 2013–2015 og úr fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 2016. Nákvæmar tölulegar upplýsingar um virðisaukaskatt af vöru- og kolefnisgjöldum af eldsneyti, sbr. a–b-lið, eru ekki fáanlegar úr upplýsingakerfi virðisaukaskatts. Til þess að áætla tekjur af virðisaukaskatti af gjaldstofnum bensíns og olíu er reiknaður 24% (og 25,5%) virðisaukaskattur af þeim tekjum sem þeir stofnar skila í ríkissjóð, eins og fram kemur í töflu 1. Um er að ræða „brúttó“ virðisaukaskatt, þ.e. án frádráttar á innskatti sem myndast í virðisaukaskyldum atvinnurekstri, en upplýsingar um hann liggja ekki fyrir.
    Í eftirfarandi töflu má sjá tekjur ríkissjóðs af ofangreindum liðum síðastliðin fjögur ár. Tekjurnar eru á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðagjaldi og vörugjöldum af ökutækjum.

2013 2014 2015 2016
Vörugjald af bensíni, almennt 4.343 4.435 4.638 4.650
Vörugjald af bensíni, sérstakt 7.195 7.214 7.224 7.500
Kolefnisgjald á bensín 888 906 946 931
Virðisaukaskattur af vöru- og kolefnisgjaldi á bensín 3.169 3.202 3.074 3.139
Olíugjald 7.176 7.516 8.313 9.350
Kolefnisgjald á dísilolíu1 750 780 855 1.001
Virðisaukaskattur af vöru- og kolefnisgjaldi á olíu 2.021 2.115 2.200 2.484
Bifreiðagjald 6.385 6.532 6.551 6.795
Vörugjöld af ökutækjum 4.032 5.031 7.224 8.550
Samtals 35.959 37.731 41.025 44.401
1 Sýndur er sá hluti kolefnisgjalds sem áætlað er að sé lagður á dísilolíu vegna ökutækja.
Heimild: Ríkisreikningur (2013–2015), fjárlög (2016) og fjáraukalög (2016).


     2.      Hversu hátt hlutfall markaðra tekna til vegagerðar hafa skilað sér til nýframkvæmda og viðhalds vega á undanförnum fjórum árum, sundurliðað eftir árum?
    Markaðar tekjur sem renna til vegagerðar eru sérstakt bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald. Undanfarin fjögur ár hafa allar fyrrnefndar markaðar tekjur skilað sér til reksturs, nýframkvæmda og viðhalds samkvæmt reikningum Vegagerðarinnar. Ekki er unnt að sundurgreina hvernig markaðar tekjur skiptast eftir ráðstöfunarliðum Vegagerðarinnar með einföldum hætti og því er ekki hægt að aðgreina nýframkvæmdir og viðhald vega frá rekstri.
    Til upplýsingar má geta þess að í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er mælt fyrir því að allar tekjur færist hjá ríkissjóði og að þar sem tekjustofnar eru markaðir gildi það um viðkomandi málefnasvið eða málaflokk en ekki einstakar stofnanir. Til þess að byggja undir þau ákvæði og það hlutverk Alþingis að ákveða hversu miklu fé skuli ráðstafað til einstakra málaflokka hverju sinni er nú í vinnslu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum þar sem lagt mun verða til að markaðar skatttekjur verði lagðar af.

     3.      Hafa markaðir tekjustofnar til vegamála fylgt verðlagsþróun undanfarin fjögur ár og ef svo er ekki, hver væri þá munurinn á árlegum afrakstri tekjustofnanna hefðu þeir fylgt verðlagsþróun?
    Á eftirfarandi mynd má sjá þróun í fjárhæðum þeirra gjalda sem mörkuð eru til vegagerðar samhliða þróun verðlags. Gjöldin eru ekki vísitölubundin að lögum en hefur verið breytt þrisvar á sl. fjórum árum. Uppsöfnuð hækkun þeirra nemur 4,6% en uppsöfnuð hækkun verðlags er 5,5% á tímabilinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (2013–2016) og Hagstofa Íslands (2013–2016).


    Eftirfarandi tafla sýnir áætlaðan mismun á árlegum afrakstri tekjustofna sem markaðir eru til vegagerðar hefðu þeir fylgt verðlagsþróun. Í töflunni koma fram annars vegar raunverulegar markaðar tekjur til vegagerðar á tímabilinu 2013–2016 og hins vegar áætlaðar tekjur hefðu fjárhæðir gjaldanna fylgt verðlagsþróun. Árétta skal að ekki er tekið mið af mögulega breyttri hegðun neytenda við breytta fjárhæð gjaldanna við áætlun teknanna. Upphæðir eru í milljónum króna.

2013 2014 2015 2016
Raunverulegar tekjur markaðar til vegagerðar 15.141 15.494 16.354 17.750
Áætlaðar markaðar tekjur til vegagerðar
– fjárhæðir gjalda fylgja verðlagsþróun 15.141 15.433 16.621 17.901
Mismunur 0 -61 267 151
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneyti (2013–2016), ríkisreikningur (2013–2015), fjárlög (2016) og fjáraukalög (2016).
     4.      Hve mikið hefur ríkið aukið tekjur sínar af almennu bensíngjaldi á undanförnum fjórum árum og hve hátt hlutfall þeirra hefur skilað sér til vegamála á þessum tíma?
    Tekjur af almennu bensíngjaldi hafa aukist um 307 millj. kr. á síðustu fjórum árum. Aukninguna má sjá í töflu í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar. Gjaldið er ekki markað til vegagerðar og því ekki sérstaklega varið til vegamála.

     5.      Hvert er fjárframlag ríkisins til nýframkvæmda í vegamálum undanfarin fjögur ár, sundurliðað eftir árum?
     6.      Hvert er fjárframlag ríkisins til viðhalds vega undanfarin fjögur ár, sundurliðað eftir árum?

    Í eftirfarandi töflu koma fram bæði framlög úr ríkissjóði og markaðar tekjur sem renna til vegamála, hér skilgreint sem Vegagerðin, en til viðbótar hefur stofnunin sjálf sértekjur. Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Skipting fjárframlaga ríkissjóðs til Vegagerðar.

2013 2014 2015 2016
Framlag úr ríkissjóði til Vegagerðarinnar 3.456 4.757 6.994 7.339
Markaðar tekjur til Vegagerðarinnar1 15.141 15.494 16.354 17.750
Samtals 18.606 20.251 23.348 25.089
1 Að frátöldu vitagjaldi sem er einnig markað Vegagerðinni.
Heimild: Ríkisreikningur (2013–2015), fjárlög (2016) og fjáraukalög (2016).

    Tekjunum er varið til almenns reksturs, viðhalds og stofnkostnaðar Vegagerðarinnar. Árétta skal að þáttur viðhalds og stofnkostnaðar í rekstri kemur ekki fram í reikningum Vegagerðarinnar og því er rekstur meðtalinn í töflunni. Ekki er unnt að greina sérstaklega frá nýframkvæmdum en þessi í stað koma fram fjárhæðir sem varið var til framkvæmda. Skiptinguna má sjá í eftirfarandi töflu. Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs og í milljónum króna.

Skipting á útgjöldum Vegagerðar.

2013 2014 2015 2016
Almennur rekstur 8.679 8.889 9.151 9.435
Viðhald 5.294 4.987 6.268 6.073
Stofnkostnaður 6.494 9.729 8.695 11.095
Framkvæmdir 6.440 9.372 8.508 10.329
Annað 54 356 186 766
Samtals 20.467 23.604 24.114 26.603
Heimild: Ríkisreikningur (2013–2015), fjárlög (2016) og fjáraukalög (2016).