Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1078  —  502. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um nám fyrir fatlað fólk.


     1.      Telur ráðherra að námsframboð fyrir fatlað fólk sé takmarkað?
    Námsframboð fyrir fatlaða nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum er fjölbreytt og útbreitt um landið allt og unnið er af fagmennsku út frá hugmyndafræðinni um menntun án aðgreiningar. Útfærslan er ólík eftir skólastigum en það nám sem mennta- og menningarmálaráðuneytið ber ábyrgð á er á framhaldsskólastigi. Af 30 framhaldsskólum landsins bjóða 23 upp á starfsbrautir fyrir fatlaða nemendur og þar stunda um 500 nemendur nám í dag. Námið er skipulagt sem fjögurra ára úrræði og almennt er brotthvarf úr því hverfandi.
    Þegar framhaldsskólanámi af starfsbrautum sleppir er því miður ekki um auðugan garð að gresja fyrir þennan hóp. Þó eru tveir aðilar sem sinna þessum hópi markvisst, annars vegar Háskóli Íslands sem býður upp á svokallað diplómanám fyrir þroskahamlaða nemendur. Um er að ræða tveggja ára námstilboð og eru nemendur teknir inn í námið annað hvert ár. Hins vegar býður Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, upp á margs konar námskeið um allt land. Fjölmennt leitast við að sinna sem breiðustum hópi fullorðinna fatlaðra bæði á eigin vegum og einnig með samningum við aðra símenntunaraðila á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um landið.

     2.      Hvaða hindranir standa að mati ráðherra í vegi fyrir fötluðu fólki í námi?
    Ef nám er hugsað og skipulagt á grundvelli hugmyndafræðinnar um menntun án aðgreiningar eða menntun fyrir alla ættu engar hindranir að standa í vegi fyrir farsælli skólagöngu allra nemenda. Sú hugmyndafræði er viðurkennd á Íslandi, bæði í lögum og almennu viðhorfi þeirra sem veita þjónustuna og kemur það glöggt í ljós í nýrri úttekt sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið vinna í samstarfi við Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Úttektin tók til leik-, grunn- og framhaldsskólastigsins á Íslandi og náði hún til allra hagsmunaaðila. Niðurstöður gefa skýrt til kynna að allir sem að úttektinni komu eru sammála um að hugmyndafræðin eigi að vera í forgrunni í öllu skólastarfi, en vissulega má alltaf styrkja og styðja betur við svo að hugmyndafræðin megi sjást í allri framkvæmd. Aðgengi að námi er almennt gott utan þess sem lýst var í svari við 1. lið þar sem nám fyrir fullorðna fatlaða er af skornum skammti.
    Lagagrunnur fyrir menntun fullorðinna fatlaðra einstaklinga er veikur og lagaleg skylda mennta- og menningarmálaráðuneytis til að greiða fyrir nám fullorðinna fatlaðra er óljós. Grundvöll fyrir þessu er helst að finna í lögum um framhaldsfræðslu. Í því sambandi virðist tímabært að hefja undirbúning að heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu á Íslandi. Slík löggjöf gæti tekið til ýmissa þátta, eins og íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, lýðfræðslu, sem er annað heiti yfir lýðháskóla eins og sumir kalla, en síðast en ekki síst að styrkja grunninn undir námið fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga.
    Þetta eru hugmyndir sem hægt væri að útfæra og taka til umræðu í tengslum við endurskoðun á lögunum nr. 27/2010, um framhaldsfræðslu. Í ljósi aðstæðna eins og þær eru nú, sérstaklega í sambandi við nám fyrir fatlaða einstaklinga, virðist löngu tímabært að hefja slíka endurskoðun. Jafnframt þarf að greina þörf fyrir og meta kostnað við núverandi fyrirkomulag og reyna að sjá fyrir sér hvort og hvernig auka mætti aðgengi og ekki síst fjölbreytni í námi fyrir fatlaða.