Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1079  —  493. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um bifreiðakaup ráðuneytisins.


     1.      Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
    Ein bifreið hefur verið keypt á tímabilinu. Ný ráðherrabifreið var keypt í maí árið 2016 af gerðinni Volvo XC90 Momentum. Bifreiðin er dísildrifin, uppgefin eldsneytisnotkun er 5,7 l/100 km í blönduðum akstri og uppgefin losun CO2 er 149 g/km.

     2.      Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020?
    Í útboðslýsingu sem Ríkiskaup vann fyrir ráðuneytið vegna bifreiðakaupa 2016 var haft að leiðarljósi að bifreiðin væri rúmgóð, fjórhjóladrifin, eyðsla væri undir 6 l/100 og að bifreiðin stæðist EURO 6 staðal um losun CO2. Þegar útboðsskilmálar voru gerðir lá ekki fyrir tillaga um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Bifreiðakaupin samrýmast því ekki fyrrgreindri tillögu til þingsályktunar um að bifreiðin sé knúin endurnýjanlegum orkugjöfum.

     3.      Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
    Í útboðsskilmálum sem Ríkiskaup sendu frá sér 11. febrúar 2016 var ekki sérstakt skilyrði um sjálfbæra orkugjafa. Við næstu bifreiðaskipti er fastlega er gert ráð fyrir því að slíkt skilyrði verði sett í útboðslýsingu.