Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1080  —  352. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um fjárframlög til háskóla og stöðu háskóla utan Reykjavíkur.


     1.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að framlög ríkisins til háskóla verði aukin þannig að þau nái meðaltali OECD-ríkjanna og verði sambærileg við framlög til háskóla á Norðurlöndum árið 2020, eins og nýleg stefnumörkun sem unnin var á vegum Vísinda- og tækniráðs gerir ráð fyrir?
    Megináhersla ráðuneytisins á sviði háskóla, eins og fram kemur í fjármálaáætlun 2018– 2022, er að efla gæði í háskólastarfi. Fjármögnun háskólanna er einn af mörgum þáttum sem horft er til í þessu sambandi. Þegar fjármögnun háskóla á Íslandi er borin saman við önnur ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) kemur í ljós að framlag íslenska ríkisins til háskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er svipað því sem gerist að jafnaði í ríkjum OECD. Hins vegar er heildarframlagið enn nokkuð lægra og einnig framlag á hvern nemanda. Ráðuneytið telur mikilvægt að heildarendurskoðun á fjármögnun og fyrirkomulagi hennar fari fram, þar sem m.a. verði tekið mið af reynslu annarra landa af því að takmarka aðgang að háskólum, en slíkt tíðkast víðast hvar í mun meira mæli en á Íslandi. Þá hefur í erlendum úttektum á háskólakerfinu hér á landi verið bent á að fjármagni og kröftum sé dreift víða og að auka megi skilvirkni, samstarf og gæði með því að stækka stofnanir og skapa þannig öflugri einingar. Mikilvægt er að athuga hvort unnt sé að ná markmiðum um aukin gæði með því að auka skilvirkni í kerfinu, draga úr brotthvarfi nemenda og auka aðgangskröfur í háskóla, auk þess að efla fjármögnun. Í ráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun á reiknilíkani háskóla, sbr. reglur nr. 646/1999 sem og undirbúningi að breytingum á lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, 85/2008, með það fyrir augum að styðja betur við gæði í háskólastarfi.
    Áform um aukin framlög til háskóla koma fram í fjárlögum og fjármálaáætlun hvers árs og eru hluti af sameiginlegri stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist á hverjum tíma.

     2.      Hver eru áform ráðherra til fjárveitinga til háskóla utan Reykjavíkur, þ.e. Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskólans á Hólum í Hjaltadal?
    Framtíðarsýn og meginmarkmiðum háskólastigsins er lýst í fjármálaáætlun 2018–2022. Þar er lögð áhersla á öfluga háskólastarfsemi, virka þátttöku háskóla í uppbyggingu þekkingarsamfélags og að nám og kennsla sé af sambærilegum gæðum og í nágrannalöndum okkar. Aðgerðir ráðuneytisins til að styðja við gæði háskóla og gæðamenningu innan þeirra snúa að öllum háskólunum og beinast jafnt að háskólastarfsemi í höfuðborginni sem utan hennar. Eitt af því sem horfa þarf til er að erlendar úttektir hafa ítrekað bent á að háskólakerfið hér á landi sé brotakennt og víða sé þörf á að efla samstarf og samþættingu með aukna skilvirkni að leiðarljósi. Að öðru leyti er eins og í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar vísað til fjárlaga og fjármálaáætlunar hvers árs.

     3.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að eyða óvissu, sem ríkt hefur undanfarin ár, um stöðu háskóla utan Reykjavíkur og styrkja og tryggja starfsemi þeirra þannig að þeir geti vaxið í sínum heimabyggðum?
    Háskólakerfið á Íslandi hefur breyst mikið frá aldamótum. Nemendum í háskólanámi fjölgaði hratt um tíma og rannsóknarstarfsemi í háskólakerfinu jókst til muna en fjármögnun háskólanna hefur ekki fyllilega fylgt þessari þróun eftir. Því má segja að ákveðin óvissa hafi verið um rekstrarlegar forsendur háskólastarfs, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Nefna má að skuldir Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Hólum við ríkissjóð voru skornar niður í lokafjárlögum 2015 og hefur sú aðgerð bætt stöðu þeirra til muna.
    Um helmingur nemenda við Háskólann á Akureyri stundar nám sitt í fjarnámi og er stærstur hluti fjarnema staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall fjarnema við Háskólann á Bifröst er enn hærra en við Háskólann á Akureyri, eða um 80%. Þetta undirstrikar þann veruleika sem við blasir að þjónusta háskóla er ekki jafn staðbundin og áður og að ný tækni og samgöngur hafa gjörbylt aðgengi nemenda að háskólum óháð búsetu. Möguleikar háskóla til að veita nemendum þjónustu í heimabyggð óháð staðsetningu eru þannig mun meiri en áður. Það skiptir því verulegu máli fyrir nemendur, hvar sem þeir eru staddir á landinu, að hér starfi öflugir háskólar sem bjóði upp á nám af sambærilegum gæðum og í nágrannaríkjum okkar, bæði í stað- og fjarnámi. Þekkingarsetur og símenntunarmiðstöðvar um landið allt veita nemendum nær allra háskóla sem stunda fjarnám þjónustu, t.d. með námsráðgjöf, aðstöðu til náms og próftöku. Því má segja að aðgengi að háskólanámi óháð búsetu hafi aldrei verið betra en nú um stundir.

     4.      Telur ráðherra að auka beri hlut sérhæfðs háskólanáms utan þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins og ef svo er, á hvaða sviðum?
    Háskólanám er í eðli sínu sérhæft og er það á ábyrgð hvers háskóla fyrir sig að móta sérstöðu sína í námsframboði og annarri starfsemi. Það er markmið ráðuneytisins, eins og áður segir, að styðja háskólana til að efla gæði starfseminnar á þeim sérsviðum sem hver og einn markar sér.