Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1085  —  541. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um sjálfstýrð farartæki.


     1.      Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp um sjálfstýrðar bifreiðar og önnur ökutæki? Ef svo er, hvenær? Ef ekki, hver er ástæða þess?
    Ráðherra hefur á yfirstandandi löggjafarþingi lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Í þeirri þingsályktunartillögu koma fram 24 skilgreindar aðgerðir sem starfshópar á vegum stjórnvalda munu vinna að á næstu árum. Undir það falla m.a. ýmsar gerðir vistvænna ökutækja og er endanlegt markmið aðgerða fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, hvort sem er í samgöngum á landi, í hafsækinni starfsemi eða í lofti. Í samhengi við orkusparnað og aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum mun tækniþróun og möguleikar að því er m.a. varðar sjálfstýrðar bifreiðar verða teknir til skoðunar í framangreindri vinnu.
    Hins vegar ber að benda á að varðandi hugsanlega lagasetningu um sjálfstýrðar bifreiðar koma ýmis önnur atriði en orkusparnaður þar til skoðunar. Má þar nefna umferðaröryggismál, hönnun samgöngumannvirkja fyrir slík ökutæki, öryggiskröfur til slíkra ökutækja o.s.frv. Forræði þeirra mála er á hendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
    Ljóst er að svokölluð fjórða iðnbylting er þegar farin að hafa áhrif á fjölmarga þætti daglegs lífs og sú breyting mun verða hraðari og víðtækari en flesta getur órað fyrir. Stórstígar breytingar í samgöngumálum sem tengjast upplýsinga- og fjarskiptatækni eru þar ofarlega á blaði, t.d. sjálfkeyrandi bílar. Þróun þessarar nýju samgöngutækni er á margan hátt spennandi vegna þess að hún getur leitt til margvíslegra samfélagslegra umbóta, t.d. með auðveldari ferðum þeirra sem vilja eða þurfa að losna undan eigin akstri. Þá mun ferðatími nýtast betur og til lengri tíma litið getur hún leitt til bætts umferðaröryggis og aukins orkusparnaðar. Auðveldara væri að stýra umferð inn á greiðfærar leiðir og svo mætti áfram telja.
    Með tilkomu þeirrar tækni sem felst í sjálfstýrðum ökutækjum munu forsendur í mörgum atvinnugreinum breytast, t.d. hjá leigu-, rútu- og flutningabifreiðum, og er ráðuneytið með þau mál til almennrar skoðunar út frá sjónarhorni atvinnuvega og nýsköpunar.
    Enn er hins vegar mörgum spurningum ósvarað þegar kemur að sjálfstýrðum bifreiðum og kallar núverandi staða fyrst og fremst á að stjórnvöld fylgist vel með tækniþróun á þessu sviði, fremur en að hefja undirbúning að lagasmíði um sjálfstýrðar bifreiðar.

     2.      Hyggst ráðherra leggja fram sambærilegt frumvarp um önnur sjálfstýrð farartæki, svo sem skip og flugvélar? Ef svo er, hvenær?
    Eins og fram kemur fyrr er forræði mála er lúta að samgöngum og umferðaröryggismálum, hönnun samgöngumannvirkja, öryggiskröfum o.fl. á hendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
    Að öðru leyti er vísað til svars við 1. tölul.