Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1092  —  483. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um kjarasamninga kennara.


     1.      Hver er árlegur kostnaður af nýlegum kjarasamningum kennara, skipt eftir viðsemjendum (kjarasamningum) og skólum?
    Í svari við þessari fyrirspurn er gengið út frá því að spurt sé um kjarasamning framhaldsskólakennara. Síðasti kjarasamningur sem ríkið gerði við Kennarasamband Íslands, vegna kennara í ríkisreknum framhaldsskólum, var undirritaður 11. apríl 2014 með gildistíma frá 1. mars 2014 til 31. október 2016. Kostnaðarmat kjarasamningsins var í heildina um 30% auk þeirra hækkana sem komu til á samningstímabilinu vegna 14 gr. samningsins, sem kveður frekar á um tengingu við almennar launahækkanir innan samningstímabilsins. Við mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins á áhrifum kjarabreytinga í rammafjárlagagerð eru áhrif kjarasamninga metin út frá stéttarfélögum eða starfshópum í heild og er því ekki hægt að svara því hvernig það mat skiptist eftir framhaldsskólum en slík skipting er útfærð hjá mennta- og menningarmálamálaráðuneyti.

     2.      Hver er árleg sparnaðar- og hagræðingarkrafa hvers kjarasamnings kennara og hvernig skiptist hann eftir viðsemjendum (kjarasamningum) og skólum?
    Í síðasta kjarasamningi var samið um nauðsynlegar breytingar á skólastarfi og aðferðafræði um vinnumat. Samningurinn fól í sér þríþætta breytingu sem leiddu til sértækra launabreytinga. Í fyrsta lagi skuldbundu aðilar sig í vinnu og frágangi á gerð nýs vinnumats og breytingar á helstu vinnutímagreinum samningsins. Í öðru lagi voru skilin á milli kennslu- og prófatíma afnumin sem eykur möguleika skóla á betri nýtingu á starfstíma kennara. Í þriðja lagi var starfstími skóla rýmkaður um 10 daga frá því sem áður var. Þó reiknað sé með að kostnaður lækki vegna hagræðingarmöguleika sem leiða af breytingum á kjarasamningsákvæðum er ekki um hagræðingar- eða sparnaðarkröfu að ræða. Hluti launahækkana er til að ná fram breytingum sem ætlað er að leiði til betri nýtingar á starfi kennara og er felldur undir hagræðingu. Við gerð fjárlagafrumvarps er svo yfirleitt sett fram tillaga um almenna hagræðingu gagnvart öllum stofnunum.
    Samkvæmt fjármálaáætlun 2018–2022 er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskólasviðsins verði nær óbreytt árið 2018 og að raungildi en lækki lítillega eftir það eða um 0,6% árlega eða sem svarar til 630 millj. kr. uppsafnað á árunum 2018–2022. Eins og í fyrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að umtalsverður sparnaður komi fram í framhaldskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú og sá sparnaður endurspeglast í lægri framlögum til málefnasviðsins. Þrátt fyrir lækkun á framlögum til framhaldsskólastigsins aukast útgjöld á hvern nemanda um sem nemur 3–5% á ári að raunvirði.

     3.      Hverjar eru árlegar reiknaðar launabætur og aðrar greiðslur ríkissjóðs til greiðslu kostnaðarhækkana sem í samningunum felast eftir kjarasamningum og skólum?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknar bætur fyrir málaflokkinn í heild sinni sem byggjast á launagrunni viðkomandi stofnana í fjárlögum, vægi stéttarfélaga í launagrunni stofnana og hlutfallslegu mati á hækkunum í kjarasamningum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styðst svo við sitt eigið reiknilíkan við dreifingu á launa- og verðlagsbótum til viðkomandi framhaldsskóla.

     4.      Hverjar eru ástæður þess að skólastjórnendur telja sig ekki fá þær launabætur sem kjarasamningar fela í sér að þeirra mati og hver telur ráðherra að sé ástæðan fyrir mismunandi túlkun hans og skólastjórnenda á fjárhæð bótanna?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki samantekt á gagnrýni skólastjórnenda né forsendur til að meta þær.

     5.      Hver er mismunurinn á árlegum launabótum sem skólastjórnendur telja sig eiga að fá, skipt eftir kjarasamningum og skólum, og þeim bótum sem ríkissjóður hefur greitt þeim og mun greiða á samningstímanum?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytinu er ekki kunnugt um að skólastjórnendur hafi sett fram formlega hvað þeir telja sig eiga að fá.

     6.      Hve háum fjárhæðum nema árleg framlög til skóla- og námsþróunar, skipt eftir kjarasamningum, öðrum ákvarðandi þáttum og skólum?
    Skóla- og námsþróun er ekki tilgreind sérstaklega í fjárlögum og getur því fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki svarað spurningunni.

     7.      Telur ráðherra að þær áherslur sem markaðar eru í kjarasamningum kennara séu til þess fallnar að þróa og bæta skólastarf í samræmi við menntastefnu stjórnvalda? Ef svo er ekki, hvað vantar upp á?
    Aukinn sveigjanleiki og möguleikar til þróunar skólastarfs eru megininntak kjarasamninga og skapa þannig möguleika til að útfæra áherslur stjórnvalda í menntamálum.