Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1108  —  580. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um Fjarmenntaskólann og námsbrautarlýsingar.


     1.      Hvert telur ráðherra vera framtíðarhlutverk Fjarmenntaskólans í samstarfi framhaldsskólanna á landsbyggðinni?
    Fjarmenntaskólinn er sjálfstæður samstarfsvettvangur þrettán framhaldsskóla á landsbyggðinni sem starfar án aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðuneytið áformar ekki að beita sér í málefnum Fjarmenntaskólans að svo komnu máli.
    Markmið samstarfsins er að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði skólanna og á landinu öllu. Einkum er horft til þess að auka framboð á sérgreinum starfsnámsbrauta. Hver skóli býður einnig upp á fjarnám í almennum bóklegum greinum.
    Samstarfið er sprottið af þörf fámennra framhaldsskóla fyrir fjölbreytt framboð áfanga og hefur samstarfið gert skólunum kleift að bjóða nemendum sérhæfðara áfangaval sem þeir hafa ekki hver fyrir sig geta boðið nemendum vegna smæðar. Oft er hér um að ræða fámenna síðari áfanga á námsbrautum.

     2.      Hvað eru margar námsbrautarlýsingar á framhaldsskólastigi sem unnið er eftir og ekki hafa enn hlotið staðfestingu Menntamálastofnunar?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um eftir hversu mörgum námsbrautarlýsingum sem ekki hafa hlotið staðfestingu Menntamálstofnunar er unnið á framhaldsskólastigi.