Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1119  —  577. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um verknámsbrautir.


     1.      Eru uppi áform um að efla verknámsbrautir framhaldsskóla með auknum fjárveitingum?
    Í ráðuneytinu er unnið að gerð nýs reiknilíkans fyrir framhaldsskóla. Kostnaður við mismunandi námsbrautir hefur verið metin út frá gögnum og byggist á raunkostnaði við kennslu, aðstöðu, tækjabúnað og rekstur. Þannig er gert ráð fyrir að framlög til starfsnáms verði hærri en til bóknáms.
    Við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 hækkuðu framlög til framhaldsskóla um 400 millj. kr. Af því framlagi voru 300 millj. kr. ætlaðar til eignakaupa með sérstakri áherslu á verknám og var því skipt niður á þá framhaldsskóla sem sinna verknámi.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að viðmið um nemendafjölda í hverri námsgrein verði lækkað og fleiri verknámsskólum þannig gert kleift að mennta nemendur í fjölbreyttum iðngreinum?

    Ekki er gert ráð fyrir lækkun viðmiða um nemendafjölda í hverri námsgrein að svo komnu máli. Vandi lítilla starfsnámsskóla á landsbyggðinni við að halda úti námi á fámennum starfsnámsbrautum er þekktur. Brugðist hefur verið við því með ýmsum hætti, m.a. sérstökum fjárveitingum til fámennari skóla og að í nýju reiknilíkani verði skilgreint sérstakt framlag til þeirra. Jafnframt er áformað að í reiknilíkaninu verði ekki miðað beint við hópastærðir þegar kostnaður verður metinn heldur er gert ráð fyrir að heildarkostnaður við hverja námsbraut sé áætlaður.