Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1130  —  461. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um rannsóknarnefnd almannavarna.


     1.      Hvert er að mati ráðherra mikilvægi rannsóknarnefndar almannavarna sem samkvæmt lögum nr. 82/2008, um almannavarnir, á að rannsaka viðbragðsáætlanir, viðbrögð viðbragðsaðila og fleira að afloknu hættuástandi?
    Rannsóknarnefnd almannavarna er sjálfstæð nefnd sem starfar í umboði Alþingis. Hún rýnir og metur framkvæmd almannavarnaaðgerða svo að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla þannig að umbótum innan almannavarnakerfisins. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir að framkvæmdarvaldið rannsaki eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem starfa á ábyrgðarsviði þess.

     2.      Hvað líður setningu reglugerðar sem ráðherra ber að setja skv. 34. gr. laganna um starfsemi rannsóknarnefndarinnar?
    Lokadrög að reglugerð um starfsemi nefndarinnar eru nú í kostnaðarmati og verða að því loknu sett í almennt umsagnarferli.

     3.      Telur ráðherra að umbúnaður, fjármögnun og aðstæður nefndarinnar séu með þeim hætti að hún geti uppfyllt lagaskyldur? Ef svo er ekki, mun ráðherra beita sér í þá veru að tryggja viðeigandi umbúnað og aðstæður?
    Rannsóknarnefnd almannavarna hefur ekki enn tekið til starfa. Með þeirri reglugerð sem nú er í vinnslu er starfsumgjörð nefndarinnar gerð skýrari og kostnaðarmat mun liggja fyrir. Nefndinni hefur af þeim sökum ekki verið áætlað neitt fjármagn á undanförnum árum.
    Ráðherra hefur óskað eftir því að lokadrög að reglugerð ásamt kostnaðarmati vegna starfa nefndarinnar liggi fyrir innan mánaðar.