Ferill 581. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 1133  —  581. mál.
Leiðréttur texti.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um lýðháskóla.


     1.      Hversu langt er vinna við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi komin í ráðuneytinu, sbr. þingsályktun nr. 41/145?
    Í þingsályktun um lýðháskóla, sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 2016, ályktar Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Í ályktuninni segir að markmiðið sé að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Við vinnuna verði horft til þess fyrirkomulags sem gildir um starfsemi lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndum. Í ályktuninni segir jafnframt að ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en á vorþingi 2017.
    Vakin er athygli á því að skv. 8. mgr. 3. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, er engri stofnun heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema hún uppfylli skilyrði laganna og hafi hlotið formlega viðurkenningu ráðherra að því er varðar kennslu og rannsóknir á tilteknu fræðasviði háskóla.
    Í ráðuneytinu er til skoðunar hvort tímabært sé að undirbúa heildarlöggjöf um fullorðinsfræðslu á Íslandi. Slík löggjöf gæti til dæmis falið í sér nokkra liði eða kafla, svo sem endurskoðuð ákvæði gildandi laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, einnig íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og nám fyrir fatlaða fullorðna einstaklinga. Þá hefur verið til skoðunar hvort ákvæði um lýðháskóla gæti rúmast innan slíkrar heildarlöggjafar um fullorðinsfræðslu frekar en að leggja fram sérstakt frumvarp um þá.

     2.      Telur ráðherra æskilegt að lýðháskólar eins og LungAskólinn á Seyðisfirði eða lýðháskólar sem unnið er að því að stofna á Flateyri og Laugarvatni starfi án sérstakrar lagalegrar umgjarðar?
    Líkt og í svari við fyrri tölulið fyrirspurnarinnar er vakin athygli á því að skv. 8. mgr. 3. gr. laga um háskóla er engri stofnun heimilt að starfa á Íslandi undir heitinu háskóli nema að uppfylltum skilyrðum laganna og að fenginni formlegri viðurkenningu ráðherra að því er varðar kennslu og rannsóknir á tilteknu fræðasviði háskóla.