Ferill 561. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1137  —  561. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um biðlista eftir aðgerð.


     1.      Hversu lengi höfðu sjúklingar sem völdu að gangast undir aðgerð í Svíþjóð á þessu ári verið á biðlista á Íslandi?
    Rétt er að árétta að gæta verður trúnaðar um upplýsingar um einstaka sjúklinga. Þótt nöfn og kennitölur séu ekki birtar geta nákvæmar upplýsingar um einstök mál beint sjónum að ákveðnum einstaklingum í jafnfámennu samfélagi og hér á landi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands var aðdragandi aðgerðar hjá þeim fimm einstaklingum sem farið hafa í liðskiptaaðgerð í Svíþjóð frá síðustu áramótum mismunandi, enda um fjórar tegundir aðgerða að ræða, þ.e. vinstri og hægri mjöðm og vinstra og hægra hné. Meðalbiðtími sjúklinganna var sjö mánuðir þegar þeir fóru í aðgerðirnar.

     2.      Hjá hvaða sérfræðingi eða sjúkrahúsi höfðu fyrrgreindir sjúklingar verið á skrá?
    Sjúklingarnir fimm höfðu verið á skrá hjá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Hjálmari Þorsteinssyni bæklunarlækni.

     3.      Höfðu þessir sjúklingar fengið áætlun um það frá sérfræðingi hvenær þeir mættu vænta aðgerðar á Íslandi?
    Mat sjúklinganna á því hversu ljóst var hvenær þeir mættu vænta aðgerðar hér á landi var ólíkt. Sumir töldu sig ekki hafa fengið uppgefinn ákveðinn fjölda mánaða sem þeir gætu þurft að bíða eftir aðgerð. Aðrir höfðu fengið uppgefið að þeir gætu þurft að bíða í 4–12 mánuði og enn aðrir fengu annars konar tímaáætlun, t.d. í missirum.