Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1138  —  624. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Hildi Sverrisdóttur um bann við blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna.


     1.      Hver setur reglur sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð?
    Sú stefna sem fylgt hefur verið hér á landi, markast af samþykkt Evrópuráðsins frá 2013 (Resolution CM/Res(2013)3 on sexual behaviours of blood donors that have an impact on transfusion safety), sem Ísland er aðili að. Auk þess hefur faglegt mat blóðbankans, sóttvarnalæknis og sóttvarnaráðs á að smitlíkur HIV við blóðgjöf muni aukast ef karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum (MSM = men who have sex with men) verður leyft að gefa blóð og er það í samræmi við faglegt mat sem samþykkt Evrópuráðsins byggist á. Umræddri samþykkt Evrópuráðsins frá 2013 fylgir minnisblað (Technical memorandum. TS057 Risk behaviours having an impact on blood donor management) sem gerir meðal annars grein fyrir gögnum um faraldursfræði smitnæmra sjúkdóma (epidemiological data) frá Evrópsku sóttvarnastofnuninni (ECDC) sem er systurstofnun embættis sóttvarnalæknis á sameiginlegum vettvangi Evrópu. Þar er meðal annars lýst faraldsfræðilegum gögnum er lýsa aukinni áhættu MSM á fjölmörgum smitnæmum sjúkdómum. Því er ljóst að ekki hefur þótt ráðlegt gera breytingar á þeim skilmerkjum er varða MSM, nema að til komi umfangsmiklar rannsóknir í takt við þær sem getið er um í samþykkt Evrópuráðsins.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þessar reglur verði rýmkaðar svo samkynhneigðir karlmenn geti notið þeirra réttinda að gefa blóð?
    Ráðherra þykir ástæða til að skoða þessar reglur, taka mið af því hvernig þær hafa þróast og hvernig breyttar og mildari reglur hafa reynst undanfarin ár í öðrum löndum. Um leið er nauðsynlegt að tryggja áfram öryggi blóðþega.
    Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, skipar ráðherra ráðgjafanefnd um fagleg málefni í blóðgjafaþjónustu. Ráðgjafanefndin skal skipuð samkvæmt tilnefningum LSH, SAk og sóttvarnalæknis. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Nefndin skal vera heilbrigðisyfirvöldum, Landspítala og blóðbanka til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að faglegum þáttum og öryggissjónarmiðum blóðbankaþjónustunnar.
    Ráðherra mun fela nefndinni að kanna hvort tímabært sé að breyta þeirri stefnu sem fylgt hefur verið.