Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1140  —  601. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Guðrúnu Ágústu Þórdísardóttur um biðtíma eftir mjaðma- og hnjáliðaskiptum.


     1.      Hversu langur biðlisti er nú eftir mjaðma- og hnjáliðaskiptaaðgerðum á opinberum sjúkrastofnunum, sundurliðað eftir sjúkrastofnunum og tegundum aðgerða?
    Í töflu 1 kemur fram fjöldi þeirra sem bíður eftir mjaðma- og hnjáliðaskiptaaðgerðum (liðskiptaaðgerðum) í júní 2017 samkvæmt tölum frá Embætti landlæknis eftir þeim stofnunum sem framkvæma aðgerðirnar.

     Tafla 1.
Gerviliðaaðgerðir á mjöðm Gerviliðaaðgerðir á hné
Landspítali 210 399
Sjúkrahúsið á Akureyri 63 112
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 93 121
Alls 366 632

     2.      Á hvaða deild eða deildir leggjast þeir sem hafa farið í mjaðma- eða hnjáliðaskiptaaðgerð annars staðar en á opinberum sjúkrastofnunum og þurfa frekari heilbrigðisþjónustu af hálfu opinberra sjúkrastofnana og hvernig verður fyrirkomulagi móttöku þessara sjúklinga háttað ef fjöldi þeirra eykst?
    Ef sjúklingar þurfa á bráðaþjónustu að halda vegna atvika við liðskiptaaðgerð hjá einkaaðila fá þeir þjónustu eins og aðrir sem þurfa á bráðaþjónustu að halda. Aðgangur að þjónustunni er óháður fjölda aðgerða sem einkaaðilar framkvæma.
    Ef fjöldi þeirra sem farið hafa í mjaðma- eða hjáliðaskiptaaðgerð annars staðar en á opinberum sjúkrastofnunum og þurfa á frekari heilbrigðisþjónustu af hálfu opinberra aðila að halda eykst verulega verður gripið til aðgerða í samstarfi við viðeigandi aðila. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slíkt tilfelli hafi komið upp.

     3.      Hversu mörg legu- og endurhæfingarpláss eru til fyrir þá sem hafa undirgengist maðma- og hnjáliðaskiptaaðgerðir og hvernig var nýting þessara plássa árin 2015 og 2016?
    Í töflu 2 kemur fram fjöldi og nýting rýma sem notuð eru eftir liðskiptaaðgerðir á þeim sjúkrahúsum sem framkvæma aðgerðirnar. Almennt er um legurými að ræða en Landspítali notar einnig dagdeild til að sinna sjúklingum eftir aðgerðirnar. Rýmin voru fullnýtt árin 2015 og 2016.

     Tafla 2.
Rými nýtt vegna liðskiptaaðgerða Fjöldi Nýting
Landspítali 36 100%
Dagdeild á Landspítala 5 100%
Sjúkrahúsið á Akureyri 9 100%
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 5 100%

    Aðrar heilbrigðisstofnanir, þ.e. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, taka allar við sjúklingum eftir liðskiptaaðgerðir á öðrum sjúkrahúsum og er þá aðallega um að ræða einstaklinga af þjónustusvæði viðkomandi stofnunar. Almennt er ekki fastur fjöldi rýma nýttur til að sinna þessari þjónustu á þessum stofnunum en leitast er við að mæta þörf eins og kostur er. Á Reykjalund koma um 5–10 sjúklingar á ári eftir liðskiptaaðgerðir sem hafa annaðhvort undirliggjandi sjúkdóm eða urðu fyrir skakkaföllum við aðgerð.

     4.      Hefur móttaka sjúklinga sem hafa farið í mjaðma- eða hnjáliðaskiptaaðgerð utan opinberra sjúkrastofnana áhrif á biðtíma eftir mjaðma- og hnjáliðaskiptum á opinberum sjúkrastofnunum og telur ráðherra að þau áhrif geti aukist ef aðgerðum utan opinberra sjúkrastofnana fjölgar?
    Embætti landlæknis kallar reglubundið eftir upplýsingum um bið eftir völdum aðgerðum. Upplýsingar eru aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar. Áhrif þess að sjúklingar fara í mjaðma- eða hnjáliðaskiptaaðgerð utan opinberra sjúkrastofnana hafa ekki verið greind sérstaklega. Ef slíkum aðgerðum fjölgar má ætla að það hafi áhrif á biðtíma eftir aðgerðum á opinberum stofnunum.

     5.      Telur ráðherra að vandi sé á höndum varðandi biðlista eftir mjaðma- og hnjáliðaskiptaaðgerðum á opinberum sjúkrastofnunum og ef svo er, hverja telur hann orsök vandans og hvernig hyggst hann bregðast við honum?
    Viðmiðunarmörk Embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð eru 90 dagar, eða þrír mánuðir. Í mörgum tilfellum er bið eftir liðskiptaaðgerð lengri og þannig ljóst að ekki hefur tekist að anna þörf fyrir mjaðma- og hnjáliðaskiptaaðgerðir.
    Markmið biðlistaátaks er að stytta bið eftir aðgerðum þannig að biðtími verði innan framangreindra viðmiða Embættis landlæknis. Átakið hefur leitt til meiri afkasta og styttingu biðtíma eftir liðskiptaaðgerðum. Í greinargerð Embættis landlæknis um stöðu biðlista í júní 2017 segir á bls. 2: „Á heildina litið hefur orðið jákvæð þróun biðlista síðan biðlistaátakið hófst. Þeir biðlistar sem hafa verið lengstir, þ.e. biðlistar eftir skurðaðgerðum á augasteinum og liðskiptaaðgerðum á mjöðmum og hnjám, hafa styst.“ Því er ljóst að aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa skilað árangri.
    Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir tæplega 5 milljarða kr. framlögum til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum á árunum 2017–2022.