Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1151  —  538. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Álfheiði Ingadóttur um endurupptöku dómsmála.


     1.      Hversu margar beiðnir um endurupptöku máls hafa borist til endurupptökunefndar frá því að nefndin tók til starfa eftir gildistöku laga nr. 15/2013:
                  a.      vegna máls sem dæmt var í Hæstarétti,
                  b.      vegna máls sem dæmt var í héraði (áfrýjunarleyfi)?

    Frá því endurupptökunefnd tók til starfa hafa henni borist 62 beiðnir vegna mála sem dæmd voru í Hæstarétti og 28 beiðnir vegna mála sem dæmd voru í héraði eða samtals 90 beiðnir.

     2.      Hversu oft hefur endurupptaka máls eða áfrýjun verið heimiluð ár hvert á starfstíma endurupptökunefndar?
    Árið 2013 var endurupptaka samþykkt á tveimur málum.
    Árið 2014 var endurupptaka samþykkt á þremur málum.
    Árið 2015 var endurupptaka samþykkt á fimm málum.
    Árið 2016 var ekki samþykkt endurupptaka á neinu máli en tvö mál frá árinu 2016 eru enn í vinnslu.
    Árið 2017 var endurupptaka samþykkt á þremur málum en 13 mál eru enn í vinnslu.

     3.      Hve langan tíma hefur það tekið endurupptökunefnd að afgreiða endurupptökubeiðnir sem til hennar hafa borist?
    Á þeim tíma sem nefndin hefur starfað hafa 78 beiðnir um endurupptöku verið afgreiddar.
    Árið 2013 var afgreiðslutími 11 mála, sem samþykkt var endurupptaka á eða var synjað, 295 dagar, afgreiðslutími 13 mála, sem var hafnað þegar í stað, var 241 dagur og afgreiðslutími 24 mála, sem var vísað frá eða voru afturkölluð, 24 dagar.
    Árið 2014 var afgreiðslutími átta mála, sem samþykkt var endurupptaka á eða var synjað, 348 dagar, afgreiðslutími fjögurra mála, sem var hafnað þegar í stað, var 383 dagur og afgreiðslutími fjögurra mála, sem var vísað frá eða voru afturkölluð, 85 dagar.
    Árið 2015 var afgreiðslutími þriggja mála, sem samþykkt var endurupptaka á eða var synjað, 86 dagar, afgreiðslutími fimm mála, sem var hafnað þegar í stað, var 68 dagur og afgreiðslutími eins máls, sem var vísað frá eða afturkallað, 19 dagar.
    Árið 2016 var afgreiðslutími þriggja mála, sem samþykkt var endurupptaka á eða var synjað, 86 dagar, afgreiðslutími fimm mála, sem var hafnað þegar í stað, var 53 dagur og afgreiðslutími eins máls, sem var vísað frá eða afturkallað, 138 dagar.
    Árið 2017 var afgreiðslutími þriggja mála, sem samþykkt var endurupptaka á eða var synjað, 55 dagar, afgreiðslutími sjö mála, sem var hafnað þegar í stað, var 66 dagur og afgreiðslutími tveggja mála, sem var vísað frá eða voru afturkölluð, 26 dagar.
    Í tölfræði fyrir árið 2014 hafa svonefnd Guðmundar- og Geirfinnsmál verið undanskilin. Þau mál eru sex að tölu og tóku að meðaltali 750 daga í vinnslu.
    Í tölfræði fyrir árið 2015 hafa umfangsmikil efnahagsbrotamál verið undanskilin, alls fjögur mál, en þau mál tóku að meðaltali 270 daga í vinnslu.

     4.      Hver er afstaða ráðherra til þess að í drögum að breytingum á lögum vegna endurupptöku dómsmála sem finna má á vef dómsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að endurupptökunefnd verði lögð niður og sérstakur dómstóll stofnaður til að fjalla um beiðnir um endurupptöku?
         Ráðherra lét vinna frumvarp um breytingar á lögum vegna endurupptöku dómsmála og er efni frumvarpsins í samræmi við hugmyndir ráðherra. Endurupptökunefnd var komið á laggirnar með lögum nr. 15/2013.
    Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 628/2015 var verulega fundið að nefndri lagasetningu og kveðið á um að þótt endurupptökunefnd væri sjálfstæð stjórnsýslunefnd, eins og nefnd lög með síðari breytingu kváðu á um, þá hefðu dómstólar skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar. Þá væri það andstætt ákvæðum stjórnarskrárinnar að fela stjórnsýslunefnd heimild til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Það er því ljóst að það fyrirkomulag sem sett var á fót með endurupptökunefnd, með lögum nr. 15/2013, stóðst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Þá er nú fyrir dómstólum til meðferðar synjun endurupptökunefndar á endurupptöku dómsmáls en samkvæmt lögum eru synjanir nefndarinnar endanlegar og verða ekki bornar undir dómstóla.
    Það er afstaða ráðherra að rétt sé að færa fyrirkomulag á endurupptöku dæmdra mála í það horf sem lagt er til í frumvarpinu.

     5.      Hver er áætlaður árlegur kostnaður við rekstur endurupptökudómstóls?
    Frumvarpið hefur verið til umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins. Umsagnir sem borist hafa verða teknar til skoðunar á næstunni og lagt mat á áhrif frumvarpsins, þ.m.t. áætluð útgjöld ríkissjóðs.

     6.      Hver var kostnaður við rekstur endurupptökunefndar árið 2016?
    Kostnaður við endurupptökunefnd á árinu 2016 var 19.732.000 kr.

     7.      Telur ráðherra að málsmeðferð við áformaðan endurupptökudómstól verði hafin yfir vafa í ljósi þess að í fyrirliggjandi drögum að breytingu á lögum um endurupptöku dómsmála er gert ráð fyrir að endurupptökudómstóll verði skipaður dómurum við Hæstarétt, Landsrétt og héraðsdómstól og hafi því – eðli málsins samkvæmt – verið fjallað um málið af dómstól sem einhver hinna þriggja dómara starfar við?
    Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir að dómendur við endurupptökudóm verði fimm, þrír embættisdómarar, einn frá hverju dómstigi, og tveir sem ekki komi úr röðum embættisdómara. Dómstóllinn yrði þannig ekki einungis skipaður embættisdómurum.